Rúmur helmingur þjóðarinnar ver 30 mínútum eða meira í lestur á dag

15. nóvember, 2024

Meðal niðurstaðna í nýrri lestrarkönnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta, í samstarfi við helstu aðila á bókmenntasviðinu, má sjá að að lestur er almennt mikill í flestum þjóðfélagshópum.

Rúmur helmingur þjóðarinnar ver 30 mínútum eða meira í lestur á dag, skáldsögur eru vinsælasta lesefnið og 60% þjóðarinnar gaf bók á árinu. 56% svarenda fá hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum og 36% af umfjöllun í fjölmiðlum. 31% sagðist ekki hafa lesið neina bók á síðastliðnum 30 dögum. Skilgreining lestrar í könnuninni er lestur hefðbundinna bóka, rafbóka og hlustun á hljóðbækur.

Lestrarhegðun þjóðarinnar breyst á átta árum

Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn - Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands gera könnun á bóklestri Íslendinga. Rannsóknarfyrirtækið Prósent sá um framkvæmd könnunarinnar og fór hún fram dagana 7. til 21. október 2024.

Þetta er áttunda árið sem sambærileg könnun er lögð fyrir þjóðina þar sem lestrarhegðun og viðhorf til lestrar og bókmenningar er kannað. Þróunin frá 2017 sýnir meðal annars að lestur þjóðarinnar stendur í stað. Lestrarhegðunin hefur hins vegar breyst þegar horft er til þess hvort lesnar séu hefðbundnar bækur, rafbækur eða hljóðbækur og hvaðan lesendur fá hugmyndir að lesefni.

Spurningar sem lagðar voru fyrir svarendur eru neðst í fréttinni, sem og heildarniðurstöður könunnarinnar.

Eins og fram kom hér framar ver 55% þjóðarinnar 30 mínútum eða meira í lestur bóka á dag. 15% ver engum tíma í að lesa eða hlusta á bækur og 31% sagðist ekki hafa lesið neinar bækur undanfarna 30 daga.

Niðurstöðurnar sýna að landsmenn hafa áhuga á bóklestri og lestur er almennt mikill í flestum þjóðfélagshópum.

Rúmur þriðjungur ver 30 til 60 mínútum á dag í lestur

Rúmur þriðjungur þjóðarinnar ver 30 til 60 mínútum á dag í að lesa eða hlusta á bækur. Tæplega fjórðungur eða 22% ver tveimur klukkustundum eða meira í bóklestur á dag.

Konur verja að jafnaði meiri tíma í að lesa/hlusta á bækur en karlar og einhleypir verja meiri tíma í lestur en þau sem eru í sambandi, sambúð eða í hjónabandi.

Tæplega 15% þjóðarinnar ver að jafnaði engum tíma á dag í að lesa/hlusta á bækur. 

Thridjungur-ver

Mynd 1 Hversu miklum tíma verð þú á dag að jafnaði í að lesa og/eða hlusta á bækur? Svör þeirra sem tóku afstöðu. 

Lesum 2,6 bækur á mánuði

Meðalfjöldi lesinna bóka er 2,6 bækur á mánuði, sem er eilítið meira en á síðustu þremur árum en munurinn þó ekki nægur til að teljast marktækur. Með lestri er átt við lestur hefðbundinna bóka og hlustun á hljóðbækur.

Í ár sögðust 15% hafa lesið 5 bækur eða fleiri á sl. 30 dögum og 31% sagðist ekki hafa lesið neinar bækur.

Fjoldi-boka-sl.-30-daga

Mynd 2 Hversu margar bækur hefur þú lesið og/eða hlustað á síðastliðna 30 daga? Hér er átt við allar tegundir bóka og á hvaða formi og tungumáli sem er, s.s skáldverk, kennslubækur, barnabækur og fræðibækur, ýmist útprentaðar bækur, rafrænar bækur eða hljóðbækur. Svör þeirra sem tóku afstöðu.

Notkun hljóðbóka stendur í stað 

Notkun hljóðbóka hefur ekki aukist frá síðasta ári. Rúmlega helmingur fólks, eða 56%, hefur hlustað á hljóðbók sl. 12 mánuði og hlutfallið er nánast óbreytt frá því í fyrra. Lestur hefðbundinna bóka stendur einnig í stað og hefur lítið breyst undanfarin 5 ár.

Af þeim sem lesa/hlusta á bækur vikulega eða oftar eru 26% sem hlusta á hljóðbækur og 32% sem lesa hefðbundnar bækur.

Throun-hefdbundnar-baekur-og-hljodbaekurMynd 3 Þróun á hlutfalli þjóðarinnar sem lesa/hlusta á hefðbundnar og/eða hljóðbækur vikulega eða oftar. Svör þeirra sem tóku afstöðu.

Áhrifavaldar við val lesefnis

Vinir og ættingjar eru ein stærsta uppspretta hugmynda að lesefni en 56% svarenda fá hugmyndir sínar þaðan. 36% fá hugmyndir frá umfjöllun í fjölmiðlum. Um þriðjungur eða 33% sækja hugmyndir sínar í bókaöpp og bókavefsíður, eins og Goodreads, Storytel og Audible.

Ahrifavaldar-vid-val-a-lesefni-hugmyndir-ad-lesefni-

Mynd 4 Hvar færð þú helst hugmyndir að lesefni?Vinsamlegast hakaðu við 1 til 4 valmöguleika. Svör þeirra sem tóku afstöðu.

60% les oftar eða einungis á íslensku en öðru tungumáli

Meirihluti þjóðarinnar eða 60% les oftar eða eingöngu á íslensku. Lítil sem engin breyting hefur orðið á þessu hlutfalli síðan könnunin var fyrst gerð árið 2017. 2 af hverjum 10 eða 20% les einungis eða oftar á öðru tungumáli.

Oftar-a-islensku-

Mynd 5 Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli? Svör þeirra sem tóku afstöðu. 

Hvert er vinsælasta lesefnið?

Líkt og í fyrra eru skáldsögur vinsælasta lesefnið en 57% þjóðarinnar lesa þær. Fólk sem les skáldsögur er í meirihluta konur og fólk á aldrinum 25-44 ára. Glæpasögur, fræðibækur eða handbækur og ævisögur njóta einnig mikilla vinsælda.

Vinsaelasta-lesefnid-tegund-boka- Mynd 6 Hvers konar tegund bóka lest þú eða hlustar þú helst á? Vinsamlegast hakaðu við 1 til 4 valmöguleika. Svör þeirra sem tóku afstöðu.

Helmingur þjóðarinnar nýtir sér þjónustu bókasafna 

Um helmingur Íslendinga, eða 49%, hafa nýtt sér þjónustu bókasafna undanfarna 12 mánuði, með heimsóknum á bókasöfnin eða gegnum rafræna þjónustu þeirra.

Íslendingar nýta sér þjónustu bókasafna að jafnaði um einu sinni á ári og hafa gert síðan 2020. Áður, frá 2017 til 2019, var meðalnýting á þjónustu bókasafna hins vegar tvöfalt hærri eða um tvisvar sinnum á ári. Hugsanlegt er að COVID-19 heimsfaraldurinn skýri minni nýtingu á þjónustu bókasafna þar sem aðgengi og starfsemi safnanna var takmarkað á stundum.

Nyting-a-thjonustu-bokasafna Mynd 7 Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna (heimsóknir og rafræna þjónustu) á Íslandi undanfarna 12 mánuði? Svör þeirra sem tóku afstöðu.

 Mikill meirihluti telur mikilvægt að íslenskar bókmenntir fái opinberan stuðning og einnig að þýða eigi nýjar erlendar bækur á íslensku

77% telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi. Aðeins um 8% telja aðgengi að stuðningi lítilvægan. Lítill munur er á milli ára hvað þetta varðar.

Þá er einnig afgerandi meirihluti eða 80% sem telur mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.

Opinber-studningur_1731410921472Mynd 8 Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi? Svör þeirra sem tóku afstöðu.

 60% gáfu bók á árinu

60% landsmanna gáfu einhverjum bók eða bækur á síðastliðnum 12 mánuðum. Fleiri konur en karlar gáfu bækur, eða 65% samanborið við 56%. Meirihluti þeirra sem gefa bækur eru á aldrinum 35-44 ára en meðal þeirra segjast 71% hafa gefið bók sl. 12 mánuði.

Gaf-bok-a-arinu

 Mynd 9 Hefur þú gefið einhverjum bók/bækur á síðastliðnum 12 mánuðum? Svör þeirra sem tóku afstöðu. 

Eftirtaldar spurningar voru lagðar fyrir þátttakendur í könnuninni:

  1. Hversu margar bækur hefur þú lesið og/eða hlustað á síðastliðna 30 daga?
  2. Hvers konar tegund bóka lest þú eða hlustar þú helst á?
  3. Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á sl. 12 mánuðum?
    1. Hefðbundnar bækur
    2. Rafbækur
    3. Hljóðbækur
  4. Hversu miklum tíma verð þú á dag að jafnaði í að lesa og/eða hlusta á bækur?
  5. Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?
  6. Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna (heimsóknir og rafræna þjónustu) á Íslandi undanfarna 12 mánuði?
  7. Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: „Það er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.“
  8. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?
  9. Hvar færð þú helst hugmyndir að lesefni?
  10. Hefur þú gefið einhverjum bók/bækur sl. 12 mánuði?

Um framkvæmd könnunarinnar:

Rannsóknarfyrirtækið Prósent sá um framkvæmd könnunarinnar og fór hún fram dagana 7. til 21. október 2024. Send var könnun á könnunarhóp Prósents, 18 ára og eldri, á Íslandi. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu. Úrtak: 2.300 (einstaklingar 18 ára og eldri). Svarendur: 1154. Svarhlutfall: 50,2%

Heildarniðurstöður könnunarinnar.


Allar fréttir

52 styrkir veittir til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál í fyrri úthlutun ársins - 18. mars, 2025 Fréttir

Meðal verka sem nú rata til nýrra lesenda eru Meðan glerið sefur eftir Gyrði Elíasson, DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur, Vigdís: Bókin um fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygenring og Sextíu kíló af sunnudögum eftir Hallgrím Helgason.

Nánar

Auglýst eftir umsóknum um Nýræktarstyrki - 17. mars, 2025 Fréttir

Árlega veitir Miðstöð íslenskra bókmennta Nýræktarstyrki fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. 

Nánar

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efnir til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Allar fréttir