Aðalheiður Guðmundsdóttir hlýtur viðurkenningu Hagþenkis 2021

7. mars, 2022

Aðalheiður hlýtur viðurkenninguna fyrir ritin Arfur aldanna I: Handan hindarfjalls og Arfur aldanna II: Norðvegur.

Aðalheiður Guðmundsdóttir er Viðurkenningarhafi Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2021 fyrir ritin Arfur aldanna I: Handan hindarfjalls og Arfur aldanna II: Norðvegur. Háskólaútgáfan gaf út. 

Viðurkenning Hagþenkis var veitt 2. mars við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni og hana veitti formaður Hagþenkis, Ásdís Thoroddsen, sem felst í árituðu heiðursskjali og 1.250.000 kr. og var settur upp sýningarkassi tengdur ritunum í Þjóðarbókhlöðunni í samstarfi við Ólaf J. Engilbertsson.

Í umsókn dómnefndar um verkið segir meðal annars: 

 Aðalheiður Guðmundsdóttir hefur sinnt rannsóknum á fornaldarsögum og skyldu efni í um aldarfjórðung og hefur öðlast ómetanlega yfirsýn um sögurnar og fyrri rannsóknir á þeim. Í ritinu Arfur aldanna setur hún sér það metnaðarfulla markmið að fjalla á heildstæðan hátt um uppruna fornaldasagna, efnivið, útbreiðslu og bókmenntaleg einkenni. Þetta er ekkert smáræði, því sögurnar draga langan slóða. Rætur þeirra liggja í sameiginlegum germönskum sagnaarfi sem rekja má aftur á þjóðflutningatímann í Evrópu og landfræðilega verður að ferðast bæði suður í álfu og langt í austurveg til þess að ná utan um dreifingu og þróun sagnaminna sem að endingu öðluðust framhaldslíf í íslenskum frásögnum. Bækurnar tvær sem verðlaunaðar eru í dag, Handan Hindarfjalls og Norðvegur, fjalla einmitt um baksvið fornaldarsagnanna á meginlandi Evrópu annars vegar og í Svíþjóð, Noregi og Danmörku hins vegar. Í þeim opnar Aðalheiður lesendum sýn á fjölbreytt og heillandi samanburðarefni, allt frá króníkum á latínu og germönskum hetjukvæðum til útskurðar, vefnaðar og myndsteina. Hún dregur á ljósan hátt saman rannsóknir fyrri fræðimanna (ritaðar á ýmsum tungumálum) um leið og hún segir frá nýjum aðferðum til þess að nálgast þennan arf, til dæmis þeim sem taka mið af kenningum um minni eða um lifandi flutning og áhrif áheyrenda á sköpun söguefnis.

Í Viðurkenningarráði fyrir útgáfuárið 2021 sátu: Auðunn Arnórsson, Árni Einarsson, Halldóra Kristinsdóttir, Sússana Margrét Gestsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir. 

Við birtum hér  einnig þakkarávarp Aðalheiðar: 

Mínir vinir fara fjöld,

feigðin þessa heimtar köld;

ég kem eftir, kannske í kvöld,

með klofinn hjálm og rofinn skjöld,

brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

Þannig orti Hjálmar Jónsson, eða Bólu-Hjálmar, og mér hefur alltaf þótt eins og þetta kvæði hans talaði beint inn í heim fornaldarsagnanna, sem lýsa því einmitt svo vel hvaða hugmyndir fólk á fyrri öldum gerði sér um hernaðarsamfélag enn fjarlægari tíma. Fornaldarsögur fjalla nefnilega um átök milli ógnar, og þar með ótta, og hugrekkis eða hetjudáða. Þær fjalla um glímu fólks við miskunnarlaus örlög og þá von sem einstaklingur, framúrskarandi einstaklingur eða jafnvel hetja, getur gefið samferðafólki sínu með því að rísa upp gegn kúgun og valdbeitingu yfirvalds eða þeirra sem sækja sér vald með ofbeldi. Sögurnar fjalla þannig um samskipti fólks, erfið samskipti að vísu, og hvernig hernaðarsamfélagið breytir fólki, og getur ýmist af sér hetjur eða hefnigjarna mótherja.

Í Arfi aldanna er að finna framlag mitt til heildstæðrar rannsóknar á þessum sögum, fornaldarsögunum, en bindin verða alls fjögur. Fyrri bindin tvö fjalla annars vegar um efnivið fornaldarsagna í heimildum utan Norðurlanda og hins vegar frá Skandinavíu, þ.e.a.s. utan Íslands. Aðferðafræðin er etísk að því leyti að sögurnar eru settar í samhengi við þau spor sem efniviðurinn hefur skilið eftir sig á stóru svæði og í fjölbreyttu samhengi.

Frá því að ég byrjaði að vinna að verkinu, vann ég í raun samtímis að öllum bindunum fjórum, og þótt tvö síðari bindin séu þannig vel á veg komin er líklega talsvert í útgáfu þeirra enn, enda er rannsóknin bæði umfangsmikil og tímafrek. Ég er því ekkert að leyna því að verkefnið hefur tekið langan tíma, og hófst þegar ég var rannsóknastöðustyrkþegi hjá Rannís og síðar í tímabundinni rannsóknarstöðu Sigurðar Nordals hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Á þessum tíma lagði ég traustan grunn að verkinu öllu, en eftir að ég hóf störf sem háskólakennari minnkaði eðlilega mjög sá tími sem ég hafði til að sinna rannsókninni. E.t.v. má segja að miðað við tættan tíma háskóla-kennarans sé verkefni á borð við þetta allt of stórt. Vegna tímans sem svona rannsókn getur tekið hlýtur jafnvel að verða ákveðin hætta á því að hugmyndir úreldist, að aðrir fræðimenn verði fyrri til að rannsaka afmörkuð viðfangsefni og birta niðurstöður sínar, og bara hreinlega að þungi verkefnisins beri mann ofurliði. En umfangið getur vissulega haft sína kosti líka, því að afmarkaðir kaflar bókarinnar hafa verið ræddir á ráðstefnum og í nokkrum tilvikum hef ég samið upp úr þeim ritrýndar greinar, þannig að þegar upp er staðið hefur tiltekið efni verið ritrýnt á tvenns konar vettvangi, sem afmarkað rannsóknarefni sem og í samhengi bókanna. Að auki hlýtur verk sem er lengi í smíðum að halda áfram að dýpka allan þann tíma sem það er í mótun.

Efnið sem ég fæst við í þessum fyrstu tveimur bindum er fjölþjóðlegt og þverfaglegt – og þótt síðari bindin tvö verði eðlilega staðbundnari og miðist við það efni sem varðveittist á Íslandi, verða þau aldrei slitin úr þessu víða samhengi, og því má segja að þegar upp er staðið verði ég búin að rekja u.þ.b. 17 alda feril og umbreytingu grundvallar-sagnaeininga, t.d. hvernig þeir Gunnar og Högni eiga sér hliðstæður í höfðingjum frá tímum þjóðflutninganna miklu, en enda svo sem bræðrapar í þulu sem var skráð á Íslandi á 19. öld, og var jafnvel tekin upp á segulband á þeirri tuttugustu. Hið sama má segja um söguhetjur á borð við þau Sigurð Fáfnisbana og Brynhildi, sem skjóta upp kollinum í sífellt nýjum birtingarmyndum, svo sem í japönskum tölvuleik, sem nýtur nú töluverðra vinsælda.

En eins og ég sagði. Verkefnið er stórt og þess vegna er hvatningin, nú þegar ég er hálfnuð, eiginlega þeim mun mikilvægari. Á þessari stundu er ég því fyrst og fremst þakklát. Ég er þakklát fyrir að til skuli vera félag eins og Hagþenkir, þ.e.a.s. fagfélag þeirra sem skrifa fræðibækur og halda þeim á lofti – og ég er þakklát dómnefndinni sem er skipuð fagfólki sem er meðvitað um þá vinnu sem liggur að baki rannsóknum. Þetta finnst mér vera mikilvægt því að í þessum hraða heimi stafrænnar miðlunar, þá er fólk oftar en ekki beðið um að gera grein fyrir rannsóknum sínum í stuttu máli, og helst skemmtilegu – og yfirborðsmennskan á þannig yfirleitt greiðari aðgang að viðtakendum. Ég tek við þessari viðurkenningu af auðmýkt, og vil þakka útgefendum mínum í Háskólaútgáfunni fyrir þeirra framlag, og sérstaklega ritstjór-unum tveimur, þeim Annette Lassen og Agli Arnarsyni. Ég vil þakka Háskóla Íslands, Stofnun Árna Magnússonar, Rannís, Miðstöð íslenskra bókmennta og öllum þeim sem gerðu mér kleift að rannsaka efnið, skrifa bækurnar og gefa þær út. Takk fyrir mig.”

 


Allar fréttir

Bókamessan í Gautaborg 22.-25. september: Einar Kárason og Guðrún Eva Mínervudóttir fjalla um verk sín - 12. september, 2022 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta verður með bás á messunni í samstarfi við Íslandsstofu þar sem gestir geta kynnt sér verk íslenskra höfunda. 
Staðsetning íslenska bássins: C03:39

Nánar

Authors' Reading Month: Íslenskar bókmenntir í brennidepli í Tékklandi og Slóvakíu - 8. ágúst, 2022 Fréttir

Höfundunum var afar vel tekið ytra en hátíðin er sú stærsta í þessum hluta Evrópu.

Nánar

NordLit fundur haldinn í Stokkhólmi dagana 15.-17. júní - 30. júní, 2022 Fréttir

Í ár var það sænska bókmenntamiðstöðin Statens Kulturråd/Swedish Arts sem var gestgjafi á NordLit fundinum þar sem voru saman komnir starfsmenn bókmenntamiðstöðva allra norðurlandanna.

Nánar

Allar fréttir