Árið 2024 hjá Miðstöð íslenskra bókmennta
Liðið ár í máli og myndum
Árið 2024 var viðburðaríkt hjá Miðstöð íslenskra bókmennta. Styrkir til þýðinga og útgáfu, ferðalög höfunda, bókamessur og flutningar settu svip sinn á árið og við tökum bjartsýn á móti nýju ári með ferskum bókum og spennandi áætlunum um fjölbreytt starf og útbreiðslu íslenskra bókmennta.
Árið 2024 var viðburðaríkt hjá Miðstöð íslenskra bókmennta. Styrkir til þýðinga og útgáfu, ferðalög höfunda, bókamessur og flutningar settu svip sinn á árið og við tökum bjartsýn á móti nýju ári með ferskum bókum og spennandi áætlunum um fjölbreytt starf og útbreiðslu íslenskra bókmennta.
Rúmar 72 milljónir veittar til þýðinga og útgáfu verka
Á árinu veitti Miðstöð íslenskra bókmennta 72.083.000 kr. til þýðinga, útgáfu og kynninga í níu styrkjaflokkum.
20,4 milljónir voru veittar til 41 verks í formi útgáfustyrkja. Útgáfustyrkir eru veittir til útgáfu og miðlunar íslenskra ritverka, þar sem kappkostað er að styrkja verk sem hafa menningarlegt og þekkingarfræðilegt gildi.
Barna- og ungmennabókasjóðurinn Auður er í umsjá Miðstöðvar íslenskra bókmennta og eru veittir styrkir úr honum til útgáfu barna- og ungmennabóka sem eru skrifaðar á íslensku. Úthlutað var átta milljónum til 25 verka.
17,1 milljónir voru veittar í styrki til þýðinga á íslensku í tveimur úthlutunum. Styrkir til þýðinga á íslensku eru veittir til að þýða mikilvæg verk úr samtímanum, erlendar fagurbókmenntir og fræðirit.
12 milljónir voru veittar til þýðinga á íslenskum verkum yfir á erlend mál (önnur en norræn mál). Styrkirnir eru veittir til erlendra útgefenda.
Sex milljónir voru veittar til norrænna þýðinga á íslenskum bókmenntum, en það er Norræna ráðherranefndin sem leggur til framlagið til þýðinga á önnur Norðurlandamál.
2,2 milljónir voru veittar til kynningarþýðinga og lestrarskýrslna sem nýtast til kynninga á íslenskum verkum erlendis.
Tæpar fjórar milljónir voru veittar í ferðastyrki höfunda og gerðu íslenskum höfundum kleift að ferðast á bókmenntahátíðir og ýmsa viðburði erlendis til að kynna verk sín. Þar má meðal annars nefna þátttöku Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur og Gyrðis Elíassonar á Nordisk Poesifestival í Noregi og þátttaka Óskars Guðmundssonar og Sólveigar Pálsdóttur á Granite Noir glæpasagnahátíðinni í Aberdeen.
Norræna menningarhátíðin Festival Les Boreales leggur áherslu á list frá Norðurlöndunum og að þessu sinni voru fjórir höfundar sem sóttu hátíðina; Jón Kalman Stefánsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Hallgrímur Helgason og Þóra Hjörleifsdóttir.
Nýræktarstyrkir veittir upprennandi höfundum
Á vormánuðum veitti Miðstöð íslenskra bókmennta tvo nýræktarstyrki en þeir eru veittir til efnilegra höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum. 62 umsóknir bárust að þessu sinni.
Styrkina hlutu þau Birgitta Björg Guðmarsdóttir fyrir skáldsöguna Moldin heit og Sölvi Halldórsson fyrir ljóðabókina Þegar við vorum hellisbúar.
Moldin heit kom svo út hjá Drápu að hausti og fékk afar góðar viðtökur og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna. Ljóðabók Sölva er væntanleg á fyrstu vikum ársins.
Á myndinni er Lilja Alfreðsdóttir menningarráðherra og Hrefna Haraldsdóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta með Nýræktarstyrkhöfunum.
Bókamessur erlendis á árinu
Miðstöð íslenskra bókmennta sótti þrjár bókamessur á árinu: Bókamessuna í London í apríl, Bókamessuna í Gautaborg í september og Bókamessuna í Frankfurt í október.
Erlendir útgefendur sýna íslenskum bókmenntum mikinn áhuga og eru messurnar mikilvægur hluti af því að viðhalda tengslum við útgefendur og aðra sem hafa áhuga á íslenskum verkum. Guðrún Baldvinsdóttir verkefnastjóri með erlendum útgefanda á bókamessunni í Frankfurt í október sl.
Á bókamessunum er kynningarefni Miðstöðvarinnar notað til grundvallar, Books from Iceland,þar sem valin verk og höfundar eru kynnt. Verkin sem rata í bæklinginn eru valin af bókmenntaráðgjöfum stofnunarinnar.
Samstarf við sendiráðin
Miðstöð íslenskra bókmennta vinnur náið með íslensku sendiráðunum og utanríkisráðuneytinu, bæði að ýmsum viðburðum tengdum bókmenntum og sinnir ráðgjöf varðandi bókmenntir. Þá eru sendiráðin einnig oft mikilvægur hlekkur í kynningu og markaðssetningu íslenskra bókmennta erlendis.
Hluti samstarfsins við sendiráðin er einnig unnið í samvinnu við Skapandi Ísland en verkefninu er ætlað að efla vitund um íslenskar listir og skapandi greinar á erlendum mörkuðum, auka þekkingu alþjóðlegs fagfólks á listum og skapandi greinum hér á landi og styðja við útflutning íslenskra listamanna og hins skapandi geira. Skapandi Ísland er samstarfsverkefni Íslandsstofu og stjórnvalda og unnið í samstarfi við miðstöðvar listgreina og fagfólks innan greinanna.
Nokkur verkefni sem hafa verið unnin á árinu í samstarfi við sendiráðin og Skapandi Ísland:
Hildur Knútsdóttir í Washington
Hildur Knútsdóttir rithöfundur kom fram á viðburði á vegum norrænu sendiráðanna í Washington þar sem rithöfundar frá Norðurlöndunum sögðu frá nýjum verkum sínum. Myrkrið milli stjarnanna eða The Night Guest eftir Hildi hefur hlotið mikla athygli í Bandaríkjunum og hefur hún lent á ýmsum meðmælalistum þar vestra. Á myndinni er Hildur með Svanhildi Hólm sendiherra Íslands í Washington.
Läs Isländska Böcker
Íslenska sendiráðið í Stokkhólmi, ásamt John Swedenmark þýðenda, stóðu að gerð metnaðarfullrar heimasíðu, Läs Isländska Böcker, þar sem finna má upplýsingar um allar þær íslensku bækur sem hafa verið þýddar á sænsku frá upphafi til dagsins í dag.
Hægt er að leita eftir höfundi, þýðanda og bókmenntagrein. Einnig birtast þar umfjallanir og annað áhugavert efni sem tengist íslenskum bókmenntum ásamt upplýsingum um bókmenntaviðburði sem fara fram í Svíþjóð. Heimasíðan var kynnt við móttöku sendiráðsins á Gautaborgarmessunni í september, á myndinni eru Bryndís Kjartansdóttir sendiherra Íslands í Stokkhólmi, Haukur Johnson sérfræðingur í sendiráðinu og á milli þeirra er þýðandinn John Swdenmark.
Bókmenntabrúin milli Noregs og Íslands
Á árinu kom út skýrsla um stöðu þýðinga á íslenskum bókmenntum yfir á norsku. Skýrslan ber heitið Bókmenntabrúin milli Noregs og Íslands og var unnin af Sölku Guðmundsdóttur fyrir Íslendingafélagið í Osló og nágrenni í tilefni aldarafmælis félagsins. Tilgangur skýrslunnar er að draga upp mynd af núverandi stöðu þýðinga á íslenskum fagurbókmenntum yfir á norsku, greina helstu áhrifaþætti og setja fram tillögur sem stuðlað geti að aukinni útgáfu.
Í skýrslunni er lögð megináhersla á tvo þætti til að tryggja útgáfu íslenskra samtímabókmennta á norsku. Annars vegar ríði á að stækka og styðja við hóp þýðenda og hinsvegar þurfi að styðja við sjálfa útgáfuna og hlúa að tengslum norskrar og íslenskrar bókaútgáfu.
Dagur íslenskrar tungu í Osló
Í nóvember tók Miðstöð íslenskra bókmennta þátt í glæsilegum viðburði á vegum sendiherra Íslands í Osló, Högna Eyjólfssonar, í tilefni af degi íslenskrar tungu. Höfundarnir Rán Flygenring og Hjörleifur Hjartarson kynntu verk sín og sögðu frá samstarfi sínu á líflegan hátt og Guðrún Baldvinsdóttir verkefnastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta flutti ávarp um íslenskar bókmenntir fyrr og nú. Gestir móttökunnar voru stór og fjölbreyttur hópur, svo sem fulltrúar forlaga, úr háskólasamfélagsins, frá ýmsum félögum og stofnunum innan bókmenntageirans auk rithöfunda og þýðenda. Markmiðið var að kynna íslenskar bókmenntir, tryggja ímynd Íslands sem menningar- og bókmenntaþjóðar, heiðra tungumálið, byggja upp ný tengsl milli íslenskra og norskra aðila og fagna degi íslenskrar tungu og þótti viðburðurinn takast einstaklega vel.
Flutningar
Í október flutti Miðstöðin skrifstofu sína, sem áður var til húsa í Tryggvagötu og er nú í nýuppgerðu húsnæði í Austurstræti 5, á fjórðu hæð. Þar er Miðstöðin í góðum félagsskap annarra í sambærilegri starfsemi; Sviðslistamiðstöð, Myndlistarmiðstöð, Listahátíð í Reykjavík, Safnaráði og List fyrir alla.
Fundir með erlendum samtökum
Miðstöð íslenskra bókmennta er hluti af tvennum alþjóðlegum samtökum: Nordlit sem eru samtök norrænu bókmenntamiðstöðvanna, og Enlit sem eru samtök skipuð 27 stofnunum um alla Evrópu sem eiga það sameiginlegt að styðja við og styrkja þýddar bókmenntir og stuðla að útbreiðslu þeirra.
NordLit hafa átt gott og gjöfult samstarf um árabil með það sameiginlega markmið að stuðla að auknum sýnileika og útbreiðslu norrænna bókmennta, með ýmsum hætti og miðstöðvarnar geta lært mikið hver af annarri. Jafnframt vinnur NordLit saman að styrkveitingum til þýðinga á norræn mál og annast danska bókmenntamiðstöðin utanumhald norrænna þýðingastyrkja fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar. Hún útdeilir styrkfénu til hinna systurskrifstofanna, sem veita styrkina í sínu landi. Starfsfólk stofnananna hittist árlega, í byrjun árs, og bera saman bækur sínar, hlusta á fróðleg erindi og vinna að sameiginlegum verkefnum. Fundur ársins 2024 var haldinn í janúar í Kaupmannahöfn og verður sá næsti haldinn í Reykjavík í janúar 2025.
Miðstöðin hitti einnig félaga sína í Enlit á Bókamessunni í Frankfurt í október. Þar var farið yfir markmið samtakanna og yfirlit þeirra styrkja sem evrópsku stofnanirnar bjóða upp á í sínum heimalöndum. Næsti fundur Enlit verður haldinn í Prag í maí 2025 í tengslum við Prag International Book Fair.
Könnun á bóklestri Íslendinga
Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn - Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands gera árlega könnun á bóklestri Íslendinga og kynntu niðurstöðurnar á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Rannsóknarfyrirtækið Prósent sá um framkvæmd könnunarinnar og fór hún fram dagana 7. til 21. október 2024.
Niðurstöðurnar sýna að rúmur helmingur þjóðarinnar ver 30 mínútum eða meira í lestur á dag, skáldsögur eru vinsælasta lesefnið og 60% þjóðarinnar gaf bók á árinu. 56% svarenda fá hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum og 36% af umfjöllun í fjölmiðlum. 31% sagðist ekki hafa lesið neina bók á síðastliðnum 30 dögum. Skilgreining lestrar í könnuninni er lestur hefðbundinna bóka, rafbóka og hlustun á hljóðbækur.
Þetta er áttunda árið sem Miðstöðin stendur fyrir því að lögð er sambærileg könnun fyrir þjóðina þar sem lestrarhegðun og viðhorf til lestrar og bókmenningar er kannað. Þróunin frá 2017 sýnir meðal annars að lestur þjóðarinnar stendur nokkurn veginn í stað. Lestrarhegðunin hefur hins vegar breyst þegar horft er til þess hvort lesnar séu hefðbundnar bækur, rafbækur eða hljóðbækur og hvaðan lesendur fá hugmyndir að lesefni.
Á döfinni 2025
Margt spennandi er á döfinni hjá Miðstöð íslenskra bókmennta á næstu mánuðum. Þar má helst nefna Þýðendaþing sem haldið verður í kjölfar Bókmenntahátíðar í Reykjavík í lok. apríl.
Þetta er fimmta þýðendaþing sem Miðstöð íslenskra bókmennta stendur fyrir en þingin sækja þýðendur íslenskra bókmennta og fá tækifæri til að ræða verkefnin, sækja vinnustofur og fyrirlestra og umfram allt efla tengslin sín á milli og við íslenskt bókmenntaumhverfi. Að þessu sinni verður sú nýlunda að einblínt verður á verk eins höfundar, eða verk Sjóns. Þýðendurnir sem mæta, 13 talsins, eiga það allir sameiginlegt að hafa þýtt verk Sjóns úr íslensku á sín móðurmál. Höfundurinn mun taka þátt í þinginu en auk hans verður boðið upp á vinnustofur, fyrirlestra og ýmislegt tengt verkum Sjóns.
Samhliða Bókmenntahátíð í Reykjavík verður einnig boðið upp á Reykjavík Fellowship Program, sem hátíðin stendur að og Miðstöð íslenskra bókmennta styður við. Þangað mæta erlendir útgefendur sem hafa áhuga á íslenskum bókmenntum og hljóta þar einstakt tækifæri til að kynnast bókmenntunum og höfundunum betur. Prógrammið er afar vinsælt og hefur verið mikilvægt fyrir útbreiðslu íslenskra bókmennta.
Upphaf nýs árs
Árið 2025 hófst á fundi Nordlit samtakanna sem að þessu sinni er haldinn í Reykjavík. Starfsfólk systurstofnana okkar fékk tækifæri á milli funda til að kynnast íslensku menningarlífi og heimsækja Eddu, hús íslenskunnar, Listasafn Íslands og fá kynningu frá hinsegin bókmenntahátíðinni Queer Situations, nýjustu viðbótinni í bókmenntalandslagið.
Bæklingurinn Books from Iceland 2025 kemur út í byrjun mars og verða verkin sem rata í hann kynnt á bókamessum ársins erlendis.
Fjöldi samstarfsverkefna eru á borði Miðstöðvarinnar fyrir árið 2025. Annars vegar verkefni sem snúa að kynningu íslenskra bókmennta erlendis og hins vegar innlendra verkefna sem miða að því að hlúa að íslensku bókmenntaumhverfi.