Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár
Fjórir þátttakendur frá Íslandi að þessu sinni, rithöfundar og leikskáld.
Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár. Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu.
Dagana 25. til 28. september verður bókamessan í Gautaborg haldin. Líkt og áður verður þar í boði fjöldi viðburða, upplestra og annarra uppákoma auk þess sem ýmsir útgefendur og félög eru með bása þar sem bókmenntir eru kynntar fyrir gestum. Þemu hátíðarinnar í ár eru ást og losti í bókmenntum og einnig gegna leikhús og leikhúsbókmenntir stóru hlutverki.
Miðstöðin sækir messuna heim
Fulltrúar Miðstöðvar íslenskra bókmennta verða á bókamessunni og funda með norrænum bókaútgefendum og öðrum áhugasömum um íslenskar bókmenntir, þýðingar, styrki og fleira. Mikill áhugi er á íslenskum bókmenntum á Norðurlöndunum og markmiðið með fundunum er að styrkja tengslin við útgefendur og vekja áhuga á nýlegum bókum. Miðstöðin leggur áherslu á að kynna verk sem birtust í kynningarbæklingnum Books from Iceland 2025.
Höfundarnir frá Íslandi sem taka þátt
Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í samtölum um skáldverk sín, beina sjónum að sögusviðum þeirra og fjölbreytilegum viðfangsefnum.
Leikskáldin Birnir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá sköpun sinni og sýn á íslenska leikritun.