Auður Ava Ólafsdóttir hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir skáldsöguna Ör

Þetta er í áttunda sinn sem íslenskur höfundur hlýtur verðlaunin

31. október, 2018

Auður Ava Ólafsdóttir hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir skáldsöguna Ör. Tilkynnt var um verðlaunin á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Óperu- og balletthúsinu í Ósló í Noregi þann 30. október. 

Rökstuðningur dómnefndar Norðurlandaráðs:

Or_1540985047908„Ég er að skrifa gegn myrkrinu í heiminum,“ segir Auður Ava Ólafsdóttir, handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018. Í Ör kynnumst við miðaldra karlmanni sem ferðast til stríðshrjáðs Evrópulands í þeim tilgangi að fyrirfara sér, með verkfærakassa í farteskinu. Meðan á ferðinni stendur rennur upp fyrir honum að allir eiga sér verkfærakassa og geta valið hvernig þeir beita verkfærunum. Ör er lítil bók með stórt hjarta. Hún er full af útsmognum húmor og leiftrandi fjörugu tungumáli og spyr jafnframt áleitinna spurninga um lífið og dauðann, um einstaklinginn gegn heildinni, um forréttindi fólks, réttindi þess og skyldur í heiminum. Ekki síst þá skyldu að leyfa mennskunni að storka myrkrinu.

  • File-3_1540984682807
  • File3-1_1540984449107
  • File4-2_1540984626296

Um höfundinn

Ör er fimmta skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur, en hún hefur einnig sent frá sér ljóðabók, samið leikrit og skrifað söngtexta fyrir íslenska hljómsveit svo eitthvað sé nefnt. Hún er fædd í Reykjavík árið 1958 og lagði stund á listfræði og listasögu sem hún hefur kennt í Háskóla Íslands og víðar, auk þess að veita forstöðu Listasafni H.Í., setja upp myndlistarsýningar og fjalla um myndlist og listasögu í blöðum og tímaritum. Fyrsta bók Auðar Övu, Upphækkuð jörð, kom út árið 1998 en Rigning í nóvember kom út sex árum síðar og hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Þriðja bók hennar, Afleggjarinn, hefur verið þýdd á mörg tungumál og hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, Menningarverðlaun DV, frönsku verðlaunin Prix du page og kanadísku verðlaunin Prix des libraires du Québec. Sú bók var einnig tilnefnd til Norðurlandaráðsverðlauna árið 2009 undir nafninu Stiklingen. Fjórða bók Auðar er Undantekningin sem kom út árið 2012. Skáldsagan Ör hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2016 og útgefandi er Benedikt bókaútgáfa. Nýjasta skáldsaga Auðar Övu er Ungfrú Ísland sem kom út 2018.

Nánar um handhafa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018.

Ör í erlendum þýðingum

Auður tileinkaði þýðendum sínum verðlaunin en verk hennar hafa verið þýdd og gefin út í yfir tuttugu löndum. „Við skrifum á fámennis tungumáli og treystum á þýðendur. Þess vegna tileinka ég þeim þessi verðlaun og þeir eru oft illa borgaðir ef út í það er farið.“

Ör hefur verið þýdd á tólf tungumál:

  • á dönsku af Erik Skyum-Nielsen, útgefandi Batzer & co.
  • á sænsku af Arvid Nordh, útgefandi Weiler Forlag
  • á frönsku af Catherine Eyjólfsson, útgefandi Zulma
  • á ungversku af Katalin Rácz, útgefandi Polar Könyvek
  • á norsku af Tone Myklebost, útgefandi Pax forlag
  • á ensku af Brian FitzGibbon, útgefandi Pushkin Press (UK) / Grove Atlantic (USA)
  • á ítölsku af Stefano Rosatti, útgefandi Einaudi
  • á tékknesku af Martina Kasparová, útgefandi Albatros Media
  • á spænsku af Fabio Teixidó Benedí, útgefandi Penguin Random House Grupo
  • á portúgölsku, útgefandi Quetzal 

  • á kóresku, útgefandi Hangilsa

  • á tyrknesku, útgefandi Nebula

Áttunda sinn sem íslenskur höfundur fær verðlaunin

Áður hafa Ólafur Jóhann Sigurðsson (1976), Snorri Hjartarson (1981), Thor Vilhjámsson (1988), Fríða Á. Sigurðardóttir (1992), Einar Már Guðmundsson (1995), Sjón (2005) og Gyrðir Elíasson (2011) hlotið bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og er þetta því í áttunda sinn sem þau falla íslenskum höfundi í skaut.

Verðlaun Norðurlandaráðs

Tilkynnt var um verðlaunin á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Óperu- og balletthúsinu í Ósló í Noregi þann 30. október en veitt eru verðlaun í fimm flokkum og má lesa um hina verðlaunahafana hér. 


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir