Fréttir

Bókamessan í Frankfurt verður haldin dagana 10. - 14. október

5. október, 2018 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta kynnir þar að venju íslenskar bókmenntir á bás númer 5.0 B82. Allir velkomnir!

  • Frankfurt-buchmesse

Ein stærsta alþjóðlega bókamessa heims hefst í Frankfurt í Þýskalandi þann 10. október og stendur til 14. október.

Miðstöð íslenskra bókmennta sækir hana að venju og kynnir íslenskar bókmenntir alþjóðlegum útgefendum og umboðsmönnum. Þar verða einnig íslenskir útgefendur en þessi fimm daga alþjóðlega bókamessa er sú stærsta í Evrópu.

Íslenski básinn 

Miðstöð íslenskra bókmennta verður á íslenska básnum og kynnir þar bækur af  kynningarlista Miðstöðvarinnar sem gerður er árlega og veitir upplýsingar um fjölbreytta bókaútgáfu á Íslandi. Félag íslenskra bókaútgefenda hefur veg og vanda af básnum.

Íslenski básinn er númer 5.0 B82. 

Allir velkomnir!

Georgía er heiðursgestur 2018

Á hverju ári er eitt land heiðursgestur Bókamessunnar í Frankfurt sem setur upp sýningarskála þar sem fjöldi viðburða fer fram á meðan á messunni stendur. Í ár er heiðursgesturinn Georgía.

Árið 2011 var Ísland heiðursgestur messunnar og vakti íslenski skálinn mikla athygli.

Bókamessan er haldin dagana 10.-14. október í ár og hana sækja árlega um 300.000 gestir, en þar koma saman rúmlega 7000 sýnendur frá um 100 löndum til funda og tengslamyndunar og síðast en ekki síst, til að kaupa og selja bækur. 


Allar fréttir

Íslensku höfundarnir og verk þeirra fengu afar góðar viðtökur á bókamessunni í Gautaborg - 3. október, 2018 Fréttir

Höfundarnir Áslaug Jónsdóttir, Jón Kalman Stefánsson og Yrsa Sigurðardóttir ræddu þar um bækur sínar, hugmyndir og viðfangsefni og fjöldi gesta sótti viðburði þeirra.

Nánar

Allar fréttir