Bókmenntaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs til Danmerkur og Svíþjóðar í ár

Afhent í Helsinki við hátíðlega athöfn í tengslum við þing Norðurlandaráðs 1. nóvember.

2. nóvember, 2017 Fréttir

Verðlaunin voru afhent í Finlandia-húsinu í Helsinki við hátíðlega athöfn í tengslum við þing Norðurlandaráðs 1. nóvember. 

Verðlaun Norðurlandaráðs voru afhent við hátíðlega athöfn í Finlandia-húsinu í Helsinki þann 1. nóvember. Verðlaunin eru afhent í fimm flokkum; bókmenntaverðlaun, barna- og unglingabókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. 

Bokmenntaverdlaun-verdlhafi-2017

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Danski höfundurinn Kirsten Thorup hlaut bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Erindring om kærligheden („Minning um ástina“, óþýdd) við verðlaunaathöfn Norðurlandaráðs í Finlandia-húsinu í Helsinki. Verðlaunin að upphæð 350 þúsund DKK voru afhent af Sunnu Dís Másdóttur, formanni dómnefndar. 

Rökstuðningur dómnefndar: 

,,Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2017 hefur sent frá sér fjölda frábærra skáldsagna með samfélagslega skírskotun. Í skáldsögunni Erindring om kærligheden eftir Kirsten Thorup er dregin upp mynd af Töru, sem réttir hvað eftir annað hjálparhönd til hinna jaðarsettu í samfélaginu. Án þess að hafa ætlað sér það eignast hún dótturina Siri, en það verkefni reynist henni erfitt. Hér er rakin átakanleg og miskunnarlaus atburðarás í blæbrigðaríkri frásögn þar sem tekist er á við viðfangsefni á borð við réttindi og skyldur, hið persónulega og hið pólitíska – og ekki síst styrk og gjald ástarinnar. Erindring om kærligheden er kolsvört skáldsaga, full visku. Hún leggur net sín í hið sammannlega dýpi á þann hátt sem aðeins sannar bókmenntir geta gert."

Barna-og-unglingabok--vinningshafar-2017

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Sænski höfundurinn Ulf Stark, sem nú er látinn, og finnski myndskreytirinn Linda Bondestam hlutu barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina Djur som ingen sett utom vi („Dýr sem enginn hefur séð nema við“, óþýdd). 

Ekkja Ulfs Stark, Janina Orlov, og Linda Bondestam tóku við verðlaununum að upphæð 350 þúsund DKK. Það var verðlaunahafi síðasta árs, Arnar Már Arngrímsson höfundur Sölvasögu unglings, sem afhenti verðlaunin.

Rökstuðningur dómnefndar:

,,Djur som ingen sett utom vi er afurð norrænnar samvinnu eins og hún gerist allra best. Í sameiningu hafa Ulf Stark rithöfundur og Linda Bondestam myndabókahöfundur skapað alveg einstaka bók. Litskrúðugar myndskreytingarnar og hin gagnorðu og dapurlegu ljóð um dýrin sem enginn þekkir mynda heild þar sem hinstu rök tilverunnar eru undir. Ulf Stark, sem hlýtur verðlaunin að sér látnum, hefur lagt alla sína lífsspeki í textana í bókinni. Þeir eru þannig eins konar bókmenntaleg erfðaskrá, en í textunum er jafnframt horft fram á veginn af miklu umburðarlyndi. Myndskreytingar Lindu Bondestam með djúprauðum himni og ákaflega blágrænum skógum, hafi og fjöllum, vitna um listamann sem tekst að hitta á hinn rétta tón skýrleika í hverju verki. Hér er á ferðinni mikilfengleg ljóðræna og stórkostleg myndlist í verki sem er heilsteypt, undursamlegt og fullt af lífsþrótti."

Verðlaunahafar 2017 í öllum flokkum

Verðlaun Norðurlandaráðs í öðrum flokkum

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Little Wing (Tyttö nimeltä Varpu) eftir Selmu Vilhunen, leikstjóra og handritshöfund, og framleiðendurna Kaarle Aho og Kai Nordberg hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2017. Svona hófst rökstuðningur dómnefndar:

„Í Little Wing fangar Selma Vilhunen stórbrotnar og sammannlegar tilfinningar með látlausum stílbrögðum og sýnir að sem leikstjóri og handritshöfundur býr hún yfir óvenju mikilli næmni.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

Finnski hljómsveitarstjórinn Susanna Mälkki hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs og fékk þessa ljómandi umsögn hjá dómnefndinni:

Susanna Mälkki er fjölhæfur og einlægur listamaður í fremstu röð. Hún er jafnvíg á sígilda tónlist og samtímatónlist og þekkt fyrir að fara eigin leiðir á sígilda sviðinu. Hún er einn fremsti hljómsveitarstjóri heims.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Jonne Hellgren, framkvæmdastjóri finnska fyrirtækisins RePack, hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs með þessum rökstuðningi: „fyrir að skapa gott og umhverfisvænt viðskiptatækifæri, sem er aðgengilegt og nýstárlegt, og fyrir að vekja athygli á endurnýtingu, óhóflegri auðlindanotkun og myndun úrgangs.“

Verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum. Þau voru afhent af fyrri handhöfum verðlaunanna í Finlandia-húsinu í Helsinki í tengslum við þing Norðurlandaráðs.


Allar fréttir

Tuttugu milljónum úthlutað til þýðinga á íslensku. Sífelld fjölgun umsókna og veittra styrkja - 18. desember, 2018 Fréttir

79% landsmanna finnst mikilvægt að láta þýða erlendar bækur á íslensku

Nánar

Meirihluti landsmanna les bækur og fær hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum. Konur lesa meira en karlar. - 13. desember, 2018 Fréttir

Niðurstöðurnar gefa sterkar vísbendingar um að lestur sé enn stór þáttur í lífi landsmanna og að viðhorf fólks sé jákvætt í garð bókmennta, lestrar og opinbers stuðnings við bókmenntir.

Nánar

Læknaði heimþrána með því að þýða, en getur ekki hætt. - 7. desember, 2018 Fréttir

„Fyrir mér er þetta starf hreint út sagt fíkn þar sem ég er fyrst og fremst notandi. Þegar ég sneri til Danmerkur eftir mína Íslandsdvöl á sínum tíma læknaði ég heimþrána með því að þýða, en mér er alveg fyrirmunað að hætta“ segir danski þýðandinn Erik Skyum-Nielsen í viðtali.

Nánar

Allar fréttir