Elísa Björg Þorsteinsdóttir hlýtur Íslensku þýðingaverðlaunin
Verðlaunin fær hún fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Saga af svartri geit eftir Perumal Murugan, útgefandi Angústúra.
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, veitti verðlaunin á Gljúfrasteini 22. febrúar 2025.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, afhenti verðlaunin á Gljúfrasteini þann 22. febrúar 2025.
Umsögn dómnefndar: Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi Sögu af svartri geit. Þýðingin er á fáguðu og afar vönduðu og blæbrigðaríku íslensku máli. Stíll sögunnar minnir á þjóðsögur og ævintýri, í senn framandi og kunnuglegur. Hér takast á t. d. gleði, sorgir, ofbeldi, erfiðleikar og trú. Lífi geitarinnar litlu er nánast lýst sem væri hún mannleg og gefur tækifæri til margvísandi túlkunar. Allir þekkja orðið geit og kiðlingur en hér er leikið með fágætari orð eins og huðna, kiða, huðnukið, hafurkið; falleg gömul orð sem gædd eru nýju lífi og verða eins og tilbrigði við stef. Með íslenska textanum leiðir þýðandinn lesendur ljúflega á framandi slóðir. Framandi jurtir og dýr, fatnaður, tæki og tól leika aukahlutverk í textanum og færa okkur lesendur inn í ókunn lönd.
Höfundur bókarinnar, Perumal Murugan fæddist árið 1966 á Suður-Indlandi. Hann er af bændafólki kominn en gekk sjálfur menntaveginn og er með doktorsgráðu í bókmenntum. Murugan hefur skrifað fjölda bóka og árið 2023 var hann tilnefndur til Booker-verðlaunanna. Hann skrifar á tamílsku sem er móðurmál hans. Þetta er í fyrsta sinn sem bók eftir hann kemur út á íslensku.
Sögusvið bókarinnar er á heimaslóðum höfundarins. Hún ber keim þjóðsagna og ævintýra sem geta komið kunnuglega fyrir sjónir í allt öðrum heimshlutum. Aðalpersóna sögunnar er Púnatsjí örsmá svört geit, huðnukið og kemur óvænt inn í líf bláfátækra gamalla hjóna. Tilvera kiðlingsins kúvendir lífi gömlu hjónanna.
Spurð út í mikilvægi þessarar starfsgreinar í viðtali Silju Bjarkar í Morgunblaðinu 24. febrúar 2025 segir Elísa Björg: „Ég veit ekki hvar við værum, allt mannkynið, ef það væru ekki til þýðendur sem eru til í að kynna aðrar víddir og aðra reynsluheima fyrir fólki. Þýðendur opna augu manna fyrir öðrum samfélögum. Við Íslendingar eigum líka frábæra höfunda sem eru þýddir út um víðan völl. Það er mikilvægt. Þetta gengur í allar áttir og það skiptir ofboðslega miklu máli. Svo er annað orðasamband sem væri hægt að nota yfir það sem við þýðendur gerum, það er „að miðla málum“
Um verðlaunin
Bandalag þýðenda og túlka hefur veitt verðlaunin frá árinu 2005 og eru þau því veitt í 21. sinn í ár. Auk Bandalagsins standa Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda að verðlaununum.
Íslensku þýðingaverðlaunin voru sett á stofn til að minna á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska tungu og menningu og til að heiðra þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur vandaðar erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar.