Viðurkenningu Hagþenkis hlýtur Erla Hulda Halldórsdóttir
Viðurkenningu Hagþenkis hlýtur Erla Hulda Halldórsdóttir fyrir ritið: Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871. Útgefandi: Bjartur
Umsögn viðurkenningarráðs: Áhrifarík ævisaga sem varpar nýju ljósi á 19. öldina og veitir einstaka innsýn í heim kvenna. Byggir á ómetanlegum bréfum Sigríðar til bróður síns sem spanna hálfa öld.
Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings.
Viðurkenningu Hagþenkis hlaut Erla Hulda Halldórsdóttir fyrir ritið: Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871. Útgefandi er Bjartur.
Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn 25. febrúar í Þjóðarbókhlöðunni og felst í sérstöku viðurkenningarskjali og 1.500.000 kr. Tónlist fluttu Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar.
Umsögn viðurkenningarráðs: „Strá fyrir straumi er viðamikið verk um heila ævi konu, að stórum hluta með orðum hennar sjálfrar, í krafti þeirra fjölmörgu bréfa sem hún skrifar til Páls bróður síns á yfir 50 ára tímabili. Slíkar heimildir um líf kvenna er ekki víða að finna þegar um 19. öldina er að ræða enda var staður kvenna fjarri hringiðu heimsins, völdum og áhrifum. Bréf annarra ættmenna til Páls hafa varðveist og nýtir höfundur þau gögn einnig. Höfundur rekur æviferil Sigríðar en veitir jafnframt áhugaverða innsýn í íslenskt samfélag og hversdagslíf fólks á nítjándu öld.
Bókin skiptist í sjö kafla sem bera titil eftir þemanu en eru einnig kenndir við bæina sem Sigríður býr á á hverjum tíma. Við fylgjum henni frá æskuslóðunum austur á landi sem hún yfirgefur tvítug, dveljum með henni í biskupstofunni í Laugarnesi þar sem hún kemst í kynni við stærri heim þótt hún sé þar bara þjónustustúlka. Þar fáum við að fylgjast með örlaganornunum spinna sinn vef hjá íslenskri hástétt, þar sem ungur menntamaður hryggbrýtur biskupsdóttur og leggur ást á söguhetjuna. Hamingja í Reykholti er heitið á kaflanum um líf presthjónanna ungu sem endar sviplega með veikindum og fráfalli eiginmannsins og ekkjan verður Bóndinn og húsfreyjan í Síðumúla. Síðustu kaflarnir fjalla um líf Sigríðar á Suðurlandi, þar sem hún verður prestsfrú í Flóanum og við kveðjum hana austur í Fljótshlíð.
Með vandaðri úrvinnslu á fyrirliggjandi heimildum og yfirgripsmikilli þekkingu á aðstæðum á Íslandi þess tíma hefur höfundur skapað heildstætt og áhugavert ritverk sem varpar nýju ljósi á 19. öldina og veitir einstaka innsýn í kjör kvenna.“
Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagmönnum til tveggja ára i senn: Halldóra Jónsdóttir, Kristján Leósson, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, Unnur Þóra Jökulsdóttir og Vilhjálmur Árnason.
Tíu rit voru tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis:
Árni Heimir Ingólfsson
Tónar útlaganna. Þrír landflótta tónlistarmenn sem mótuðu íslenskt menningarlíf. Útgefandi Hið íslenska bókmenntafélag.
Ásdís Ingólfsdóttir
Undirstaðan – Efnafræði fyrir framhaldsskóla. Útgefandi Iðnú.
Erla Hulda Halldórsdóttir
Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871. Útgefandi Bjartur.
Guðjón Friðriksson
Börn í Reykjavík. Útgefandi Forlagið.
Guðmundur Jónsson (ritstjóri)
Ástand Íslands um 1700. Lífshættir í bændasamfélagi. Útgefandi Sögufélag.
Gunnar Harðarson
Fingraför spekinnar. Kaflar úr sögu íslenskrar heimspeki á miðöldum. Útgefandi Hið íslenska bókmenntafélag.
Ingunn Ásdísardóttir
Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir i nýju ljósi. Hið íslenska bókmenntafélag.
Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir
Einar, Anna og safnið sem var bannað börnum. Útgefandi Forlagið
Skafti Ingimarsson
Nú blakta rauðir fánar. Saga kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar á Íslandi 1918–1968. Útgefandi Sögufélag.
Þórir Óskarsson
Svipur brotanna. Líf og list Bjarna Thorarensen. Útgefandi Hið íslenska bókmenntafélag.