Fimm íslenskir höfundar taka þátt í Bókamessunni í Gautaborg

Sjón, Andri Snær Magnason, Kristín Eiríksdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir og Eiríkur Örn Norðdahl koma fram í Gautaborg 23.-26. september næstkomandi.

31. ágúst, 2021

Bókamessan í Gautaborg verður haldin í lok septembermánaðar og nú fá höfundar og bókaunnendur tækifæri til að hittast þótt messan verði minni í sniðum en oft áður. 

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur í samstarfi við messuna skipulagt þátttöku íslenskra höfunda en þau verða fimm að þessu sinni: Andri Snær Magnason, Kristín Eiríksdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir, Sjón og Eiríkur Örn Norðdahl. 

Bokamessan

Ljóðlist, umhverfismál, áhrif rafvæðingar á samtöl rithöfunda og félagsleg sjálfbærni eru meðal þeirra þema sem íslensku höfundarnir taka fyrir, hver með sínu nefi.
Viðburðir verða fyrst og fremst á  á staðnum í Gautaborg en ekki verður um að ræða sýningarsvæði útgefenda og forlaga eins og venja er.
Áhugafólk um bókmenntir þarf ekki að örvænta þótt það sjái sér ekki fært að mæta, hægt verður að fylgjast með allri dagskránni á heimasíðu messunnar. 

Atwood

Margaret Atwood og Sjón á sama sviði 

Bókamessan er þekkt fyrir fjölbreytta dagskrá á mörgum sviðum þar sem ólík bókmenntaform fá að njóta sín. Sjón mun koma fram í Rum for poesi þar sem hann mun flytja ljóð sín en hann kemur fram ásamt þeim Margaret Atwood, Mara Lee og Ukon.  Sjón tekur einnig þátt í tveimur öðrum málstofum þar sem hann fjallar um skáldsögur sínar. 

Hvers vegna þurfa höfundar að hittast?

Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl tekur þátt í málstofunni „Varför behöver författare träffas?” þar sem rætt verður um mikilvægi samtals í sköpun. Beint verður sjónum að Norræna rithöfundaskólanum í Biskops Arnö sem dæmi um sameiginlegan stað listamanna og hvernig sá staður hefur breyst í kjölfar faraldursins. Eiríkur Örn hefur leiðbeint ungu fólki á námskeiðum innan skólans.  

Elin-diverse

Elín, ýmislegt á sænsku 

Bók Kristínar Eiríksdóttur, Elín, ýmislegt, var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2019. Skáldsagan kom út í sænskri þýðingu á síðasta ári og hefur vakið verðskuldaða athygli þar í landi. Á Bókamessunni mun Kristín meðal annars ræða við rithöfundinn Daniel Sjölin um verkið. Einnig tekur hún þátt í samtali við guðfræðinginn og prestinn Lenu Sjöstrand um verkið í annarri málstofu. 

Félagsleg sjálfbærni á Norðurlöndum 

Guðrún Eva Mínervudóttir tekur þátt í áhugaverðri málstofu ásamt danska höfundinum Hanne Höjgaard Viemose þar sem sjónum verður beint að því hvernig aðalpersónur í skáldsögum þessara norrænu höfunda birtast í nútímasamfélagi. Guðrún Eva og Viemose hafa báðar verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. 

Andri Snær fjallar um framtíðina 

Bók Andra Snæs Magnasonar, Um Tímann og vatnið, hefur farið sigurför um heiminn, verið þýdd á yfir þrjátíu tungumál og er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Andri Snær tekur þátt í tveimur málstofum sem báðar taka umhverfismál fyrir. Önnur þeirra verður send út frá Norræna húsinu þar sem rithöfundurinn Halla Þórlaug Óskarsdóttir ræðir við Andra Snæ og sænska verðlaunaskáldið Gunnar D. Hansson. 


Allar fréttir

Authors' Reading Month: Íslenskar bókmenntir í brennidepli í Tékklandi og Slóvakíu - 8. ágúst, 2022 Fréttir

Höfundunum var afar vel tekið ytra en hátíðin er sú stærsta í þessum hluta Evrópu.

Nánar

NordLit fundur haldinn í Stokkhólmi dagana 15.-17. júní - 30. júní, 2022 Fréttir

Í ár var það sænska bókmenntamiðstöðin Statens Kulturråd/Swedish Arts sem var gestgjafi á NordLit fundinum þar sem voru saman komnir starfsmenn bókmenntamiðstöðva allra norðurlandanna.

Nánar

Nýræktarstyrki í ár hljóta þau Guðmundur Magnússon, Nína Ólafsdóttir og Örvar Smárason - 2. júní, 2022 Fréttir

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra afhenti Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta í Gunnarshúsi fimmtudaginn 2. júní. 

Nánar

Allar fréttir