Nýju verkefni hleypt af stokkunum: Höfundaheimsóknir í framhaldsskóla. Lestrarhvatning og skemmtun í senn.

Höfundarnir í fyrstu heimsóknunum eru Auður Ava Ólafsdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Sigríður Hagalín.

5. febrúar, 2020

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur nú hleypt af stokkunum verkefni sem ber heitið höfundaheimsóknir í framhaldsskóla, þar sem rithöfundar heimsækja skólana, hitta nemendur í kennslustund og ræða við þá um bækur sínar.

Markmið verkefnisins er að hvetja nemendur til lestrar og auka skilning þeirra og áhuga á bókmenntum og starfi rithöfunda.

Höfundaheimsóknirnar hefjast nú á vorönn, í fyrstu umferð taka fjórir rithöfundar þátt og mæta í tíma til nemenda í íslenskum bókmenntum þar sem þeir fjalla um og ræða bækur sínar. Nemendurnir hafa þegar lokið við að lesa a.m.k. eina valda bók þess höfundar sem kemur í heimsókn og fá tækifæri til að bera upp spurningar og vangaveltur sínar við höfundinn eftir lesturinn. 

Höfundarnir sem skólarnir hafa óskað eftir nú í fyrstu umferð eru: Auður Ava Ólafsdóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir og Sigríður Hagalín.

Eftirtaldir skólar taka á móti höfundunum í heimsókn á þessari önn: Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn við Sund, Tækniskólinn og Kvennaskólinn í Reykjavík.

Markmiðið er að bjóða nýjum skólum til leiks á haustönn og vonandi enn fleiri á komandi misserum.

Verkefnið er unnið í góðu samstarfi Miðstöðvar íslenskra bókmennta við Rithöfundasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands og með styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 


Allar fréttir

Norrænu bókmenntamiðstöðvarnar með sameiginlegan stand í Frankfurt - 8. október, 2025 Fréttir

Eftir mörg ár í umsjón Félags íslenskra bókaútgefenda verða breytingar á fyrirkomulagi á básnum í Frankfurt þegar Miðstöð íslenskra bókmennta slæst í hóp systurstofnana sinna á Norðurlöndum og verður þar með sameiginlegan norrænan bás, Halle 4.1, B17

Nánar

Afar vel sótt bókamessa í Gautaborg - 1. október, 2025 Fréttir

Íslenskar bókmenntir vöktu athygli á Bókamessunni í Gautaborg, þar sem fulltrúar Miðstöðvarinnar hittu norræna útgefendur og höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Eiríkur Örn Norðdahl hlutu góðar viðtökur frá sænskum lesendum.

Nánar

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Allar fréttir