Íslendingar tjá sig með sögum. Tina Flecken þýðandi

11. janúar, 2019

„Fyrir höfunda sem koma frá svo smáu málsvæði þá eru þýðingar lífsnauðsyn, bæði út frá bókmenntalegum og jafnvel einnig fjárhagslegum sjónarmiðum. En mitt verkefni er fyrst og fremst að koma íslenskum bókmenntum á framfæri hér í Þýskalandi“ segir þýðandinn Tina Flecken í viðtali við Magnús Guðmundsson.

  • Tina-a-radstefnu

„Ég var nítján ára og satt best að segja þá veit ég ekki hvers vegna ég valdi Ísland, en ég held að mér hafi bara þótt það eitthvað svo framandi og spennandi,“ segir Tina Flecken þýðandi í viðtali við Magnús Guðmundsson fyrir Miðstöð íslenskra bókmennta. Á liðnum árum hefur Tina þýtt fjölda íslenskra bókmenntaverka á þýska tungu en hún kom fyrst til Íslands árið 1987 sem skiptinemi. „Ég var þó ekki í skóla heldur aðallega að vinna og kynnast íslenskri menningu.“

Áhuginn kviknaði á ljóðahátíð

„Á þessu ári dvaldi ég meðal annars á bænum Yzta-Bæli undir Eyjafjöllum, var líka að vinna í fiski á Ísafirði og svona allskonar eins og maður segir. Á Yzta-Bæli voru eldri hjón, mjög gott fólk, en þau töluðu hvorki þýsku né ensku og því var ekkert annað í stöðunni fyrir mig en að læra eitthvað í íslensku. Þarna var reyndar mjög rólegt og ekki þörf á að vera að tala neitt sérstaklega mikið en ég lærði nóg til að bjarga mér aðeins,“ segir Tina létt í bragði.

„Eftir þetta ár á Íslandi fann ég að mig langaði til að læra meira í tungumálum og fór í háskólann hérna. Byrjaði á því að læra sænsku, til þess að læra tungumál sem ég gæti kannski notað öllu meira en íslenskuna, auk þess að læra líka þýsku og ensku.“

Tina segir að þrátt fyrir að hún hafi valið að leggja áherslu á önnur tungumál en íslensku hafi landið haldið áfram að toga í hana. „Ég var algjörlega ástfangin af Íslandi, enda fór það svo að ég sneri aftur og dvaldi við nám í íslensku fyrir erlenda stúdenda við Háskóla Íslands í ein tvö ár.

Áhuginn á þýðingum kviknaði í háskólanum heima í Köln. Við vorum að skipuleggja ljóðahátíð og buðum norrænum skáldum til Kölnar og á meðal þeirra sem komu voru Sjón og Steinunn Sigurðardóttir. Við stúdentarnir æfðum okkur að þýða ljóðin þeirra og það fannst mér óskaplega gaman. Eftir það þá stóð hugur minn alltaf til þýðinga en á þessum tíma var ekki mikið þýtt af íslenskum bókmenntum yfir á þýsku.“

Tina segir að hún hafi því lagt íslenskuna til hliðar í nokkur ár og farið að vinna hjá bókaforlagi í Köln að loknu námi. 

Fyrir tilviljun var ég svo beðin um að þýða skáldsögu eftir Mikael Torfason og sló strax til. Það var um svipað leyti og ég fór að vinna í bókmenntahúsi Köln og í framhaldinu ákvað ég að sækjast meira eftir því að þýða.

Draumurinn um einsemd

Á þessum árum sem hafa liðið er listinn yfir höfunda sem Tina hefur tekist á við að þýða orðinn ótrúlega langur og fjölbreyttur. Hún segir mikinn áhuga á íslenskum bókmenntum hafa kviknað í Þýskalandi þegar Ísland var heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt 2011. „Þessi áhugi hefur haldist síðan og nú vinn ég einvörðungu við íslenskar þýðingar. Við erum ekki mörg sem erum að sinna þessu, þannig að það er meira en nóg að gera.“

Aðspurð um hvað valdi því að íslenskar bókmenntir njóti svo mikilla vinsælda í Þýskalandi, segir Tina að það sé vissulega forvitnilegt að velta því fyrir sér. „Það hefur reyndar alltaf verið ákveðin tenging á milli Íslands og Þýskalands í gegnum tíðina. Til að mynda hefur áhuginn á fornbókmenntum alltaf verið mikill hér. Þetta er þessi germanska tenging. En í dag ferðast svo ótrúlega margir til Íslands og landið virðist vera einskonar draumaland margra Þjóðverja." 

Fólk sækir til Íslands fyrst og fremst vegna náttúrufegurðar en líka vegna þessa að Þýskaland er fjölmennt og þéttbýlt. Margir þrá einsemdina sem er enn að finna í víðernum Íslands og margir ferðamenn hafa ekki einvörðungu áhuga á náttúrunni, heldur einnig öllu sem er íslenskt. Það geta verið hestar, tónlist og bókmenntir og allt hefur þetta áhrif.

Tina segir að hún hafi sjálf skynjað þessa einveru þegar hún kom fyrst til Íslands frá Köln sem er milljóna borg og það hafi verið sterk upplifun. „En stundum saknaði ég líka þess að vera í margmenninu, að vera ein af fjöldanum, því á Íslandi þekkja allir alla. Þegar ég var undir Eyjafjöllum þá var ég svo gott sem eini útlendingurinn í sveitinni og fólk kom af næstu bæjum til að skoða mig,“ segir Tina og hlær við tilhugsunina. „Þetta er auðvitað allt breytt, en á þessum tíma fannst mér stundum gott að skreppa í Kringluna og vera innan um fólk og fá svona smá stórborgarfíling þó svo ég hafi nú almennt kunnað þessu vel.“

Það er gaman að skoða hversu margar og fjölbreyttar bækur Tina hefur þýtt á liðnum árum. Það er líka eftirtektarvert hversu mörg nöfn á þeim lista teljast vera af yngri kynslóðinni, má þar nefna Gerði Kristnýju, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Andra Snæ Magnason og nú síðast Sigríði Hagalín. 

Þessi einstaki tónn

Tina segir að hún taki þeim verkefnum sem bjóðast af þeirri einföldu ástæðu að hún sé að reyna að lifa af þýðendastarfinu. „En hins vegar þá finnst mér líka gaman að þýða ólíka texta og það forðar mér frá þeirri tilfinningu að ég sé að endurtaka mig. Ég hef til dæmis þýtt margar bækur eftir Yrsu sem mér finnst alltaf gaman en engu að síður myndi ég ekki vilja þýða einvörðungu glæpasögur, vegna þess að það sem er spennandi við hverja bók er að reyna að ná þeim einstaka tón sem er í frumtextanum hverju sinni. Það er það sem er erfitt en það er líka það sem gerir þetta skemmtilegt.“

Tina segir að yfirleitt taki þetta smá tíma en stundum gerist það furðu hratt. „Stundum finn ég eftir nokkrar blaðsíður að ég er búin að ná þessu og þá flæðir það oftast auðveldlega áfram. Því miður er það ekki alltaf svo einfalt en samt er það alltaf þannig að þessi leit er það sem er hvað mest heillandi við þetta starf.“

Aðspurð um hvort að það sé eitthvað sem einkennir íslenskar bókmenntir, eða greinir þær frá öðrum, segir Tina að það sé erfitt að segja til slíkt. 

Flóran er fjölbreytt en það sem kannski helst einkennir íslenska höfunda er að maður finnur vel hversu gaman þeir hafa af því að segja sögur. 

„Maður finnur þetta líka þegar maður hittir Íslendinga því þeir eru alltaf að segja sögur frekar en að segja eitthvað um sjálfa sig. Það að tjá sig með sögum er einkenni sem verður auðvitað mjög áberandi í bókmenntunum, þó svo það sé eilítið abstrakt. En annars eru íslenskar bókmenntir um allt og ekkert svona rétt eins og bókmenntir eiga að vera,“ segir Tina og hugsar sig um í skamma stund áður en hún bætir við. „Að ógleymdu því að það er mikið um veðrið og sitthvað fleira sem getur talist sérstaklega íslenskt sem leynir sér ekki þegar maður fer að þýða, því þá koma upp ýmis vandamál. Það getur þannig reynst ansi snúið að þýða þegar svona mörg orð eru til á íslensku yfir vind, snjó og öll veðrabrigði. En það er nú bara skemmtileg áskorun.“

Þarf að finna nýjan draum

Í apríl síðastliðnum stóð Tina fyrir þýðendavinnustofu, í samstarfi við Gauta Kristmannsson, þar sem bæði íslenskir og þýskir þýðendur komu saman á Seyðisfirði. Tina segir að vinnustofur sem þessar séu gríðarlega mikilvægar. „Fyrsta svona vinnustofan var í Þýskalandi fyrir fjórum árum og þar komu saman bæði þýskir og íslenskir þýðendur. Þetta var í senn skemmtilegt en ekki síður fróðlegt því þetta fólk á svo margt sameiginlegt sem viðkemur starfinu. Það er því ótalmargt sem þarf að ræða og samkomur sem þessar eru mikilvægar til að gera mann að betri þýðanda þegar upp er staðið.“

Tina ætlar sér greinilega að halda áfram að starfa við að þýða úr íslensku en aðspurð um stöðu tungumálsins segist hún vissulega fylgjast með þeirri umræðu „Ég er meðvituð um hættuna og ef íslenskan hyrfi þá væri það alveg hræðilegt. En ég held ekki að það sé eins mikil hætta á því og sumir telja, vegna þess að tungumál eru alltaf að breytast og auðvitað er íslenskan engin undantekning frá því. Málið er að íslenskan er svo gömul að það gerir þessa umræðu dálítið erfiða því það eykur svo á óttann um framtíð tungumálsins. En persónulega þá finnst mér líka spennandi að sjá hvernig íslenskan á eftir að þróast og breytast á næstunni því breytingar eru óhjákvæmilegar og hafa alltaf átt sér stað.“

Tina bendir á að þýðingar á önnur tungumál séu líka mikilvægur liður í því að efla íslenskuna. 

Fyrir höfunda sem koma frá svo smáu málsvæði þá eru þýðingar lífsnauðsyn, bæði út frá bókmenntalegum og jafnvel einnig fjárhagslegum sjónarmiðum. 

„En mitt verkefni er fyrst og fremst það að koma íslenskum bókmenntum á framfæri hér í Þýskalandi.“

En skyldi Tina kannski eiga sér draumaverkefni á þeirri vegferð? „Já, en það er búið að þýða draumaverkefnið mitt og þar með dó sá draumur,“ segir Tina og skellihlær. „Minn draumur var alltaf að þýða Andrabækurnar hans Péturs Gunnarssonar, því ég skrifaði lokaritgerðina mína í háskóla hér í Þýskalandi um þær bækur. En það var búið að þýða þær allar og það alveg ljómandi vel, þannig að ég verð bara að reyna að finna mér nýjan draum.“

Viðtal: Magnús Guðmundsson


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir