Ísland heiðursgestur á bókamessunni í Gdansk 29.-31. mars

1. mars, 2019

Höfundarnir Hallgrímur Helgason, Steinunn Sigurðardóttir, Einar Kárason, Elísabet Jökulsdóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir verða gestir á messunni.

Ísland verður heiðursgestur á bókamessunni Gdańskie Targi Książki sem fram fer í Polish Baltic Philharmonic í Gdansk, Póllandi helgina 29.-31. mars 2019. Þar verða íslenskar bókmenntir og höfundar í brennidepli, sem og þýðingar úr íslensku á pólsku. Bókamessan í Gdansk er fyrst og fremst lesendahátíð. Hún er nú haldin í annað sinn, en mjög góð aðsókn var þegar henni var hleypt af stokkunum í fyrra. 

FB_gtk-cover-photo

Ísland og Pólland treysta böndin

Miðstöð íslenskra bókmennta þáði boð um heiðursþátttökuna með þökkum, enda gefst þarna mikilvægt tækifæri til að kynna íslenskar bókmenntir í Póllandi, en þar er mikill áhugi á íslenskum og norrænum bókmenntum og eru Pólverjar annálaðir fyrir mikinn lestraráhuga almennt. Þetta er einnig gott tækifæri til að kynnast pólskum bókmenntum betur, koma á frekari tengslum milli þjóðanna, höfunda, þýðenda, fagaðila og allra þeirra sem láta sig bókmenntir varða. Síðast en ekki síst er þetta kjörið tækifæri til að treysta böndin milli Póllands og Íslands, enda býr mikill fjöldi Pólverja á Íslandi og hefur gert um árabil. 

Steinunn-sigEinar-KarasonElisabetSigga-Hagalin-COLÍslenskir höfundar á messunni

Aðstandendur bókamessunnar hafa boðið til Gdansk nokkrum íslenskum höfundum sem eiga nú þegar bækur í pólskri þýðingu eða eru væntanlegar á næstunni. Höfundarnir eru þau Hallgrímur Helgason sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í ár fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af sólskini og hafa fyrri bækur hans, Konan við 1000° og 101 Reykjavík, vakið mikla athygli í Póllandi, Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur og ljóðskáld, en von er á bók hennar Heiða - fjalldalabóndinn í pólskri þýðingu Jacek Godek, Einar Kárason, en nýjasta bók hans, Stormfuglar, kemur út í Póllandi á næstunni, Elísabet Jökulsdóttir sem hlaut nýlega viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins en ljóðabók hennar Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett kemur út á pólsku á vormánuðum í þýðingu Jacek og Sigríður Hagalín Björnsdóttir, en fyrsta bók hennar Eyland kom út í Póllandi í fyrra og hlaut mjög góðar viðtökur, og von er á bókinni Hið heilaga orð í pólskri þýðingu. Þau taka þátt í dagskránni með margvíslegum kynningum á bókum sínum.

Þýðendur verða með

Þýðendur íslenskra bókmennta á pólsku verða einnig þátttakendur á messunni. Jacek Godek er öflugasti þýðandi íslenskra bókmennta á pólsku og verður hann í pallborði með höfundunum þar sem rætt verður um þýðingar bókanna, áskoranir og pælingar um tungumálið, menningu og fleira og fleira. 

Bækur á íslensku og pólsku á íslenska básnum

Miðstöð íslenskra bókmennta verður jafnframt með bás á messunni með nýjum íslenskum bókum sem og bókum eftir íslenska höfunda í pólskri þýðingu. Auk þeirra ofantöldu eru m.a. bækurnar Kata eftir Steinar Braga og Netið eftir Lilju Sigurðardóttur væntanlegar á pólsku um miðjan mars.

Meðal annarra verka sem nýlega hafa komið út á pólsku eru Svörtuloft eftir Arnald Indriðason, Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson, Gildran eftir Lilju Sigurðardóttur, Dimma eftir Ragnar Jónasson og frelsi eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. Einnig hafa mörg verka Halldórs Laxness komið út í pólskri þýðingu, verk eftir Gunnar Gunnarsson, bækurnar um Nonna og Manna og fjöldi Íslendingasagna svo einhver séu nefnd.

Íslenskir útgefendur sækja messuna

Nokkrir íslenskir útgefendur munu sækja messuna af þessu tilefni og kynna íslenskar bækur fyrir pólskum útgefendum með það að markmiði að fá þær þýddar á pólsku. 

Um 70 pólskir útgefendur taka einnig þátt í bókamessunni og kynna og selja bækur sínar gestum og gangandi. Dagskráin er fjölbreytt og áherslan á íslenskar bókmenntir og norræn málefni þar sem verða upplestrar höfunda, samtöl milli höfunda og þýðenda, vinnustofur, sýningar og tónleikar innblásnir af bókmenntaverkum svo fátt eitt sé nefnt. 

Sendiherra Íslands setur messuna

Íslenska sendiráðið í Þýskalandi, sem annast sendiráðsstörf í Póllandi, leggur þátttöku Íslands lið með ýmsum hætti og setur Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Berlín, messuna.

Bókamessan í Gdansk er haldin með stuðningi borgarstjórans í Gdansk, landsstjóra Pommern-sýslu, sendiherra Íslands í Berlín og konsúls Íslands í Varsjá. Miðstöð íslenskra bókmennta vinnur með aðstandendum hátíðarinnar að undirbúningi.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir