Ísland í brennidepli á menningarhátíðinni Les Boréales í Caen, Frakklandi

Rithöfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir, Jón Kalman Stefánsson, Sjón, Lilja Sigurðardóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Steinunn Jóhannesdóttir og Ragnar Jónasson koma fram á hátíðinni

16. nóvember, 2017

Rithöfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir, Jón Kalman Stefánsson, Sjón, Lilja Sigurðardóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Steinunn Jóhannesdóttir og Ragnar Jónasson koma fram á hátíðinni.

SjonSteinunn JóhannesdóttirAuður Ava ÓlafsdóttirJón KalmanRagnar-helgiLilja SigurðardóttirRagnar JónassonBókmennta- og menningarhátíðin Les Boréales stendur frá 16. til 26. nóvember í borginni Caen í Frakklandi. Í ár er Ísland í brennidepli og fjöldi íslenskra rithöfunda og listamanna leggur leið sína á hátíðina til að taka þátt í afar spennandi og fjölbreyttri dagskrá. Þetta er í 26. skipti sem hátíðin er haldin en hún hefur frá upphafi beint sjónum að bókmenntum og menningu Norður- og Eystrarsaltslanda.

Rithöfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir, Jón Kalman Stefánsson, Sjón, Lilja Sigurðardóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Steinunn Jóhannesdóttir og Ragnar Jónasson taka þátt í bókmenntadagskrá hátíðarinnar með upplestrum, umræðum, samtali við þýðendur sína og fleiri uppákomum í tengslum við útkomnar bækur sínar á frönsku. Sjá hér nokkrar nýlegar þýðingar höfundanna á frönsku:

Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur í þýðingu Catherine Eyjólfsson.

Mánasteinn eftir Sjón í þýðingu Eric Boury.

Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur í þýðingu Eric Boury.

Bréf frá Bútan eftir Ragnar Helga Ólafsson í þýðingu Jean-Christophe Salaün.

Gildran eftir Lilju Sigurðardóttur í þýðingu Jean-Christophe Salaün.

Eitthvað á stærð við alheiminn eftir Jón Kalman Stefánsson í þýðingu Eric Boury.

Mörk eftir Ragnar Jónasson í þýðingu Philippe Reilly.

Hér má sjá bókmenntadagskrána í heild sinni: http://www.lesboreales.com/auteurs

Á tónlistardagskrá hátíðarinnar verður verk Auðar Övu Ólafsdóttur, Afleggjarinn, túlkað af leikara og píanóleikara. Auk þess koma meðal annarra fram Víkingur Heiðar Ólafsson, Ásgeir Trausti og Amiina. Fjöldi kvikmynda, heimildamynda og þátta eftir íslenskt kvikmyndagerðarfólk verður jafnframt á dagskránni svo sem kvikmyndin Fúsi í leikstjórn Dags Kára, tónlistarmyndin Iceland Songs eftir Ólaf Arnalds og Baldvin Z og stuttmyndin Smáfuglar eftir Rúnar Rúnarsson.

Nánari upplýsingar á vef hátíðarinnar: http://www.lesboreales.com

Íslenskir höfundar ferðast reglulega utan til að kynna bækur sínar á bókmenntahátíðum og víðar allt árið um kring, oft með stuðningi Miðstöðvar íslenskra bókmennta, en það er mikilvægur þáttur í að koma höfundum og verkum þeirra á framfæri erlendis og stuðla að aukinni útbreiðslu íslenskra bókmennta. 


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir