„Íslenskan breytti lífi mínu. Þeim mun meira sem ég lærði og las, þeim mun betur skildi ég að þetta er landið mitt.“

5. febrúar, 2020 Fréttir

John Swedenmark en einn ötulasti þýðandi íslenskra bókmennta á sænsku og hér segir hann frá fyrstu kynnum sínum af íslenskunni, ást á ljóðum og mikilvægi þýðinga fyrir bókmenntirnar í viðtali við Magnús Guðmundsson.

  • John-Swedenmark_1580908753735

Tungumálið sem breytti lífinu

„Það var eiginlega tilviljun að íslenskan rataði inn í líf mitt. Ég hef alltaf lesið ljóð og ungan dreymdi mig um að verða skáld og rithöfundur. Ég fór á námskeið til þess að læra þá list en þar varð mér ljóst að ég er ekki skáld og þegar ég áttaði mig á að það átti ekki fyrir mér að liggja, fór ég í nám í málvísindum. Þá vantaði mig tungumál, því það er frekar leiðinlegt að geta bara talað ensku og frönsku auk móðurmálsins, svo ég fór á íslenskunámskeið í Uppsölum árið 1983. Ég fór á þetta námskeið mér til gamans en það breytti lífi mínu.“

John-Swedenmark_1580908753735

John Swedenmark segir að það hafi verið ótrúlega gaman á íslenskunámskeiðinu og kennarinn Þorleifur Hauksson hafi verið sérstaklega lærður og ljúfur. „Þeim mun meira sem ég lærði og las, þeim mun betur skildi ég að þetta er landið mitt.“

Plataður til að takast á við sína fyrstu þýðingu

Það var svo Þorleifur sem plataði John, eins og hann orðar það sjálfur, til þess að takast á við sína fyrstu þýðingu. „Þetta var Djöflaeyjan eftir Einar Kárason og þegar á reyndi gekk það nú bara vel. Ég hafði aldrei ætlað mér að gerast þýðandi en þar sem þetta gekk vel þá hugsaði ég mér að fyrst ég væri góður í þessu ætti ég auðvitað að halda áfram.“

John segir að það hafi falið í sér mikla en skemmtilega áskorun að þýða Djöflaeyjuna því þar sé á ferðinni kraftmikil bók sem inniheldur margskonar tungutak. „Það er líka svo sérstakur og átakanlegur húmor í þessari bók og það er oft erfitt að þýða húmor. Það er til að mynda nánast ógerlegt að þýða brandara, þeir hreinlega steindrepast í þýðingu, en á sama tíma þarf að koma í þýðingunni eitthvað fyndið – einhver léttir sem heldur orkunni í textanum. Þess vegna þýði ég venjulega ekki brandara beint heldur finn eitthvað skemmtilegt sem fangar sömu orku.“

Hlustaði á allt með Hauki Morthens, Megasi og Bubba

John kom til Íslands í fyrsta sinn árið 1988 þegar hann var að vinna að þýðingu Djöflaeyjunnar. „Þetta var martröð. Ég gat nánast ekki talað orð í íslensku á þessum tíma en Einar var ljúfur og tók vel á móti mér. Við fórum saman um bæinn, skoðuðum þar sem Thulekampur hafði staðið, fórum í heimsókn til ofurtöffarans Agga, heimsóttum Megas og gerðum margt skemmtilegt. Ég var alveg eins og bjáni þar sem ég kom varla frá mér orði og skammaðist mín skelfilega,“ segir John og hlær við minningunni. 

Tölvupóstar frábær skóli 

„Þýðingin sóttist hins vegar vel, enda mikill munur á því að takast á við hið talaða og ritaða orð, en í raun tókst mér ekki að læra að tala íslensku fyrr en með tilkomu internetsins. Ég fór að skrifa vinum mínum tölvupósta á íslensku og það er frábær skóli vegna þess að þar gafst mér svigrúm til þess að hugsa, finna réttu orðin, beygingarnar og svo framvegis. Hitt sem ég nýtti mér var að hlusta á íslensk dægurlög. Hlustaði á allt með Hauki Morthens, Megasi og Bubba því þar fann ég eðlilegt talmál en ekki bókmálið sem ég var að vinna með við þýðingarnar.“

Fór hægt af stað en byrjaði svo fyrir alvöru

John hélt áfram að þýða verk Einars Kárasonar og lauk við einar fimm bækur hans áður en kom að næsta höfundi. „Okkur Gyrði Elíassyni varð vel til vina og ég þýddi Svefnhjólið sem kom út um miðjan tíunda áratuginn. Í framhaldi af því gerðist ekki ýkja mikið þar sem áhuginn hér í Svíþjóð er því miður sjaldan mikill á íslenskum fagurbókmenntum þótt annað gildi um glæpasögurnar. Ég þýddi reyndar svolítið af barna- og unglingabókum, auk þess að þýða þær bækur sem voru tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

En svo byrjaði þetta fyrir alvöru þegar ég fékk að þýða bækur Jóns Kalman. Hann var þá tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Sumarið bakvið brekkuna og okkur varð vel til vina. Ég þýddi síðan bækur hans Ýmislegt um risafurur og tímann, Sumarljós og svo kemur nóttin og nú hef ég þýtt eftir hann einar níu bækur.“

Verð að líta á viðkomandi sem óþekktan höfund og hverja bók einstaka

Á meðal fleiri höfunda og skálda sem John hefur einnig þýtt má nefna Gerði Kristnýju, Þórarin Eldjárn, Lindu Vilhjálmsdóttur, Sjón og Steinunni Sigurðardóttur. John segir að ekki aðeins séu þetta ólíkir höfundar heldur þurfi alltaf að nálgast hverja og eina bók með sértækum hætti. „Það er til að mynda þannig að þegar ég byrja að þýða nýja bók eftir Jón Kalman þá er alltaf hætta á því að ég fari að skrifa eins og ég held að hann geri. En það er varasamt vegna þess að ég verð alltaf að líta á viðkomandi sem óþekktan höfund og hverja bók sem einstaka.

Hlusta eftir rétta tóninum

Ég verð að hlusta eftir rétta tóninum vegna þess að rithöfundur er ekki bara að segja sögu heldur að skapa sögumann. Það er listin, að búa til sögumann sem er ekki höfundurinn þó svo auðvitað sé alltaf eitthvað af honum til staðar. Nýverið þýddi ég til að mynda Stormfugla eftir Einar Kárason og það var ekki aðeins erfitt að finna allt það tungutak sem á við í heimi togarasjómennsku, heldur var líka erfitt að finna sig í Lárusi sögumanni því hann stendur manni fjarri. Það er mikil orka í þeirri bók og maður er bæði þreyttur og kaldur að lestrinum loknum.“

Stoltur af því að stuðla

Ljóðið hefur alla tíð verið John ákaflega mikilvægt og auk þess að fást við þýðingar hefur hann einnig skrifað mikið um ljóðlist, kennt við höfundaskóla og leiðbeint verðandi skáldum. Árið 2011 sendi hann frá sér bókina Baklängesöversättning och andra texter (Þýðingar afturábak og fleiri greinar) þar sem hann fjallar um þýðingar. „Ég hef löngum verið á því að það sé mikilvægt að fjalla um þýðingar sem slíkar og mikilvægi þeirra í bókmenntalífinu og þetta var hluti af þeirri vegferð.”

Ljóðlistin er John alltaf ofarlega í huga og hann segir að það að þýða ljóð kenni honum mikið um hvernig það virkar. „Það þarf alltaf að finna tónlistina. Hún er númer eitt þegar ljóðið er annars vegar. Hljómfall, rím og stuðlar skapa þessa tónlist og ég er mjög stoltur af því að hafa lært að stuðla á sænsku vegna þess að þetta var ekki til í tungumálinu heldur varð ég að finna það upp sjálfur. Ég er til að mynda að vinna núna að þýðingu á ljóði eftir Gerði Kristnýju sem alltaf stuðlar og það er farið að koma eðlilega í þýðingunni sem gleður mig mikið.“

Er afleitur sölumaður

Aðspurður um hvort hann hafi mikið val um hvaða bækur hann tekur til við að þýða segir John að svo sé því miður ekki. „Nei, það er hluti af þessu starfi að vera sölumaður og ég er alveg afleitur sölumaður. Ég reyndar fann sjálfur forlag sem vildi gefa út Stormfugla en það heyrir til undantekninga að mér takist slíkt. Ég er hins vegar alltaf að panta bækur frá Íslandi og reyni að fylgjast vel með. Ég skrifa líka greinar um íslenskar bókmenntir og reyni að halda þeim á lofti, ekki síst til þess að hvetja útgefendur hér til þess að sinna þessu betur.

Bækur sem enginn fær að lesa

En þegar ég finn ljóðabók sem ég er hrifinn af þá bara þýði ég hana án þess að hafa útgefanda. Ég er með fjöldann allan af bókum sem enginn fær að lesa og það er auðvitað synd. Ég er til að mynda með fullbúið handrit að ljóðabókinni hans Einars Más, Til þeirra sem málið varðar, sem kom út á síðasta ári en vantar útgefanda. Vandinn er fyrst og fremst fólginn í því hversu fámennt er orðið á forlögunum og þar af leiðandi minni tími og mannskapur til þess að sinna þessu sem þýðir fleiri nei og færri útgefnar þýðingar. Því miður.“

Íslenskur lokasprettur

Aðspurður um hvað hann sé að fást við þessa dagana segir John glaður að hann sé staddur úti í sveit rétt við bæinn Sigtuna. „Ég fékk styrk til þess að dvelja hér, lesa, skrifa og borða en mestur tími fer þó í að þýða verk Andra Snæs Magnasonar Um tímann og vatnið. Hún á að koma út í september en ég er líka búinn að þýða nýjustu bókina eftir Sjón, Korngult hár, grá augu, sem kemur út eftir mánuð eða svo. En svo fékk ég líka loksins að þýða uppáhalds bókina mína, Svar við bréfi Helgu, eftir Bergsvein Birgisson og hún kemur út í mars,“ segir John fullur tilhlökkunar en metur það ekki sem afrek að vera með þrjár þýðingar væntanlegur á árinu.

Hann segist alla jafna taka daginn snemma og vinna þangað til hann verði þreyttur. „Ég tek mér oftast pásu yfir miðjan dag en tek svo aðra rispu um kvöldið. En svo tekst mér reyndar oftar en ekki að lenda í tímaskorti á lokasprettinum en þá er bara að setja undir sig hausinn,“ segir John og hlær við hugmyndinni að því að kannski sé það Íslendingurinn í honum.

Þá gleðjast allir

Á síðasta ári hlotnaðist John Swedenmark Orðstír, heiðursviðurkenning þýðenda íslenskra bókmennta á erlend mál, ásamt Silviu Cosimini þýðanda á ítölsku. En þess má geta að það hafa yfir 120 verk birst sænskum og ítölskum lesendum vegna þeirra ötula þýðendastarfs á liðnum árum. 

John og Silvia með forsetanum á Bessastöðum við afhendingu Orðstírs 2019

John segir að hann sé ákaflega þakklátur fyrir að hafa hlotnast þessi mikli heiður. „Það er mér dýrmætt hvað Íslendingar meta þetta mikils. Árið 2018 fékk ég fálkaorðuna þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson var í Stokkhólmi og það var mikill heiður. Á síðasta ári fékk ég svo bæði Orðstír og þýðingarverðlaun frá sænsku Akademíunni, Svenska Akademiens översättarpris.

Þetta var vissulega mikill heiður fyrir mig en þetta er ekki síður viðurkenning á mikilvægi þýðenda fyrir bókmenntir hverrar þjóðar. Þegar þýðandi fær verðlaun eða hlotnast einhver heiður þá gleðjast allir. Þegar ég byrjaði að fást við þetta vorum við þýðendur ekki á yfirborðinu en það hefur blessunarlega breyst á síðustu árum og áratugum og það finnst mér bæði mikilvægt og ánægjulegt.“

 


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 1. júlí, 2021 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð vegna sumarleyfa frá 5. júlí til 3. ágúst.

Nánar

Nýræktarstyrkina í ár hljóta Ingólfur Eiríksson, Jakub Stachowiak, Mao Alheimsdóttir og Nína Hjördís Þorkelsdóttir - 3. júní, 2021 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur úthlutað fjórum Nýræktarstyrkjum til nýrra höfunda og nemur hver styrkur 500 þúsund krónum. 94 umsóknir bárust í ár, sem er metfjöldi umsókna frá upphafi.

Nánar

Framhaldsskólar um land allt vilja ólmir fá rithöfunda í heimsókn! - 4. júní, 2021 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta áætlar um 70 höfundaheimsóknir í 14 framhaldsskóla á árinu.

Nánar

Allar fréttir