Íslenskar bækur í sókn um allan heim og þýðingar nær þrefaldast á síðustu tíu árum

Bækurnar þýddar á um fimmtíu tungumál

30. ágúst, 2018

Stuðlað að aukinni útbreiðslu erlendis

Vikulega berast til Miðstöðar íslenskra bókmennta eintök af íslenskum bókum í erlendum þýðingum, sem hlotið hafa þýðingastyrki Miðstöðvarinnar, en eitt af hlutverkum hennar er að stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra erlendis.

Þýtt á fimmtíu tungumál

Bækur eftir íslenska höfunda ferðast sífellt lengra og til fjarlægari landa og eru þýddar á æ fleiri tungumál, en þau eru nú orðin um fimmtíu talsins. Þýðingum hefur fjölgað verulega, hafa nær þrefaldast á síðustu tíu árum, og sýnir eftirspurnin því glöggt þörfina á auknum fjármunum í þennan styrkjaflokk. Ferðalög íslenskra höfunda til að kynna verk sín erlendis hafa líklega aldrei verið fleiri. Það má því með sanni segja að íslenskar bókmenntir séu í sókn um allan heim.

Nýjar þýðingar

Á meðfylgjandi mynd má sjá bækur eftir íslenska höfunda sem eru nýkomnar út í erlendum þýðingum: Ör eftir Auði Övu í norskri þýðingu Tone Myklebost, Koparakur Gyrðis Elíassonar í tékkneskri þýðingu Mörtu Bartošková, Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur í franskri þýðingu Jean-Christophe Salaün, Sölvasaga unglings eftir Arnar Má Arngrímsson á færeysku í þýðingu Laurinu Niclasen, CoDex 1962 eftir Sjón í enskri þýðingu Victoriu Cribb, DNA eftir Yrsu Sigurðardóttur, þýdd á lettnesku af Ingu Bērziņa, Minning og saga í ljósi Tyrkjaránsins eftir Þorstein Helgason í enskri þýðingu Önnu Yates og Jónu Ann Pétursdóttur og Hálendið eftir Steinar Braga á makedónsku, svo dæmi séu tekin.

Íslenskir rithöfundar á ferðinni

Rithöfundarnir fara oft utan til að fylgja þýðingum bóka sinna eftir og kynna þær nýjum lesendum, með stuðningi Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Núna í ágúst tóku til að mynda Ragnar Jónasson, Auður Ava Ólafsdóttir, Lilja Sigurðardóttir og Sjón þátt í bókmenntahátíðinni í Edinborg og í nóvember verða þau Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Hildur Knútsdóttir, Yrsa Sigurðardóttir, Einar Már Guðmundsson og Arnar Már Arngrímsson á bókmenntahátíðinni Festival Les Boréales í Frakklandi og margt fleira er á döfinni.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir