Íslenskar bækur á 15 tungumálum væntanlegar

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti nýlega 54 styrki til þýðinga á íslenskum verkum á 15 erlend tungumál; þar á meðal eru ný skáldverk, ljóð, barnabækur og fornsögur.

17. maí, 2023

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 54 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 15 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, úkraínsku, ítölsku, tékknesku, spænsku, dönsku, sænsku og færeysku.

  • Fretterlend2023mai

Umsóknarfrestur um styrki til erlendra þýðinga er tvisvar á ári; í febrúar og september. Hægt er að sjá þau verk sem hlutu styrk í fyrri úthlutun á árinu neðst í fréttinni, en þær skiptast í norrænar þýðingar og aðrar erlendar þýðingar.

Margar bækur sem eru nýkomnar út hérlendis rata nú til nýrra lesenda erlendis. Þar má nefna skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, Eden, sem kom út í haust en von er á henni á frönsku og dönsku á árinu og Reykjavík eftir Ragnar Jónasson og Katrínu Jakobsdóttur sem kemur út á ensku, dönsku og úkraínsku.

Ungir íslenskir höfundar nema land víða og má þar nefna Fríðu Ísberg með bókina Merkingu sem kemur út á ítölsku, norsku og færeysku. Von er á franskri þýðingu á verkinu Svefngríman eftir Örvar Smárason og Skjáskot eftir Berg Ebba kemur út á arabísku.

Barnabókin Mamma klikk eftir Gunnar Helgason kemur út á ítölsku og Þín eigin saga: Risaeðlur eftir Ævar Þór Benediktsson mun rata í hendur makedónskra barna. Bók Andra Snæs Magnasonar, Sagan af bláa hnettinum, hefur ferðast víða frá því að hún kom út árið 1999, en nú er hennar von í Armeníu.

Fjarvera þín er myrkur eftir Jón Kalman Stefánsson verður þýdd á arabísku á árinu en einnig munu bækur hans, Guli kafbáturinn og Skurðir í rigningu og Ýmislegt um risafurur og tímann koma út á ungversku.

Íslenska glæpasagan heldur áfram sigurgöngu sinni erlendis, og eru það ekki síst enskar þýðingar verkanna sem hafa vakið athygli. Von er á verkum Ragnars Jónassonar og Katrínar Jakobsdóttur, Evu Bjargar Ægisdóttur og Stellu Blómkvist á ensku á næstu mánuðum.

Hægt er að skoða allar úthlutanir hér (erlendar þýðingar) og hér (norrænar þýðingar).


Allar fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir 37 útgáfustyrki til nýrra íslenskra ritverka - 13. maí, 2025 Fréttir

Í ár var úthlutað rúmum 18 milljónum króna í útgáfustyrki til 37 verka. Alls bárust 96 umsóknir og sótt var um heildarupphæð 99,8 milljónir króna.

Nánar

Úthlutað úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði; 25 fjölbreytt verk fyrir yngri lesendur hljóta styrki - 13. maí, 2025 Fréttir

Með styrkjunum er markmiðið að efla útgáfu vandaðra bóka á íslensku fyrir yngri lesendur, myndríkar bækur sem og textabækur, fræðibækur, skáldverk og allt þar á milli. 

Nánar

19 styrkir veittir til þýðinga á íslensku í fyrri úthlutun ársins; verðlaunaverk, sígild og ný skáldverk - 13. maí, 2025 Fréttir

Styrkir til þýðinga á íslensku eru veittir til að þýða mikilvæg verk úr samtímanum, erlendar fagurbókmenntir og fræðirit. Einnig eru veittir styrkir til þýddra vandaðra, myndríkra bóka fyrir börn og ungmenni.

Nánar

Allar fréttir