Íslenskar bækur á 15 tungumálum væntanlegar

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti nýlega 54 styrki til þýðinga á íslenskum verkum á 15 erlend tungumál; þar á meðal eru ný skáldverk, ljóð, barnabækur og fornsögur.

17. maí, 2023

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 54 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 15 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, úkraínsku, ítölsku, tékknesku, spænsku, dönsku, sænsku og færeysku.

  • Fretterlend2023mai

Umsóknarfrestur um styrki til erlendra þýðinga er tvisvar á ári; í febrúar og september. Hægt er að sjá þau verk sem hlutu styrk í fyrri úthlutun á árinu neðst í fréttinni, en þær skiptast í norrænar þýðingar og aðrar erlendar þýðingar.

Margar bækur sem eru nýkomnar út hérlendis rata nú til nýrra lesenda erlendis. Þar má nefna skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, Eden, sem kom út í haust en von er á henni á frönsku og dönsku á árinu og Reykjavík eftir Ragnar Jónasson og Katrínu Jakobsdóttur sem kemur út á ensku, dönsku og úkraínsku.

Ungir íslenskir höfundar nema land víða og má þar nefna Fríðu Ísberg með bókina Merkingu sem kemur út á ítölsku, norsku og færeysku. Von er á franskri þýðingu á verkinu Svefngríman eftir Örvar Smárason og Skjáskot eftir Berg Ebba kemur út á arabísku.

Barnabókin Mamma klikk eftir Gunnar Helgason kemur út á ítölsku og Þín eigin saga: Risaeðlur eftir Ævar Þór Benediktsson mun rata í hendur makedónskra barna. Bók Andra Snæs Magnasonar, Sagan af bláa hnettinum, hefur ferðast víða frá því að hún kom út árið 1999, en nú er hennar von í Armeníu.

Fjarvera þín er myrkur eftir Jón Kalman Stefánsson verður þýdd á arabísku á árinu en einnig munu bækur hans, Guli kafbáturinn og Skurðir í rigningu og Ýmislegt um risafurur og tímann koma út á ungversku.

Íslenska glæpasagan heldur áfram sigurgöngu sinni erlendis, og eru það ekki síst enskar þýðingar verkanna sem hafa vakið athygli. Von er á verkum Ragnars Jónassonar og Katrínar Jakobsdóttur, Evu Bjargar Ægisdóttur og Stellu Blómkvist á ensku á næstu mánuðum.

Hægt er að skoða allar úthlutanir hér (erlendar þýðingar) og hér (norrænar þýðingar).


Allar fréttir

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2025 og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans - 3. desember, 2025 Fréttir

Tilnefnd eru fimm verk í þremur flokkum Íslensku bókmenntaverðlaunanna, auk fimm verka til Íslensku glæasagnaverðlaunanna. Félag íslenskra bókaútgefenda stendur að verðlaununum. 

Nánar

Niðurstöður norrænnar könnunar um heildartekjur af útflutningi bókmennta - 2. desember, 2025 Fréttir

Samkvæmt könnuninni námu tekjur af bókmenntaútflutningi frá Norðurlöndunum nærri 78,5 milljónum evra árið 2024. Um það bil 4250 þýðingasamningar voru gerðir fyrir hönd norrænna höfunda.

Nánar

Íslensku bókahönnunarverðlaunin 2025: Tilnefningar - 19. nóvember, 2025 Fréttir

Tilkynnt hefur verið um tilnefningar til Íslensku bókahönnunarverðlaunanna 2025 en það eru Félag íslenskra bókaútgefanda (FÍBÚT) og Félag íslenskra teiknara (FÍT) sem standa að verðlaununum.

Nánar

Allar fréttir