Íslenskar bækur væntanlegar á 22 tungumálum

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 54 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 22 tungumál, þar á meðal ensku, þýsku, frönsku, úkraínsku, ítölsku, rúmensku, dönsku, sænsku og færeysku.

27. apríl, 2022

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti nýlega 54 styrki til erlendra þýðinga á íslenskum verkum á 22 tungumál; þar á meðal eru ný skáldverk, ljóð, barnabækur, ævisögur og fornsögur. 

  • A few of the books that are expected this year

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti nýlega 54 styrki til erlendra þýðinga á íslenskum verkum á 22 tungumál; þar á meðal eru ný skáldverk, ljóð, barnabækur, ævisögur og fornsögur. Umsóknarfrestur um styrki til erlendra þýðinga er tvisvar á ári; í febrúar og september. Hægt er að skoða allar úthlutanir á árinu neðst í fréttinni, en þær skiptast í norrænar þýðingar og aðrar erlendar þýðingar.

Tíðindavert þykir að margar bækur sem eru nýkomnar út hérlendis rata nú til nýrra lesenda erlendis. Þar má nefna skáldsögu Fríðu Ísberg, Merking, sem kom út síðasta haust en von er á henni á ensku og þýsku á árinu og Úti eftir Ragnar Jónasson sem kemur út á ensku. Bók Jóns Kalmans frá 2020, Fjarvera þín er myrkur, ferðast víða en hennar er von á dönsku, þýsku og hollensku. Barnabókin Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur kemur einnig út á dönsku, þýsku og hollensku.

Einnig vekur athygli að San Francisco ballettinn hyggst gefa út ævisögu Helga Tómassonar ballettdansara eftir Þorvald Kristinsson í enskri þýðingu og hlýtur þýðingin hæsta styrkinn að þessu sinni, ásamt þýskri þýðingu á verki Jóns Kalmans, Fjarvera þín er myrkur.

Íslenska glæpasagan heldur áfram að slá í gegn erlendis, og eru það ekki síst enskar þýðingar verkanna sem hafa vakið athygli. Von er á verkum Ragnars Jónassonar, Evu Bjargar Ægisdóttur, Lilju Sigurðardóttur og Sólveigar Pálsdóttur á ensku á komandi mánuðum.

Frændur okkar í Færeyjum njóta góðs af þýðingavinnu hjónanna Martins Næs og Þóru Þóroddsdóttur, en von er á tveimur íslenskum verkum á færeysku, Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur í þýðingu Martins og Undur Mývatns eftir Unni Þóru Jökulsdóttur í þýðingu Þóru. 

Hægt er að skoða allar úthlutanir á árinu hér (erlendar þýðingar) og hér (norrænar þýðingar). 

Á myndinni má sjá nokkrar af þeim þýðingum sem væntanlegar eru. 


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efnir til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

52 styrkir veittir til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál í fyrri úthlutun ársins - 18. mars, 2025 Fréttir

Meðal verka sem nú rata til nýrra lesenda eru Meðan glerið sefur eftir Gyrði Elíasson, DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur, Vigdís: Bókin um fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygenring og Sextíu kíló af sunnudögum eftir Hallgrím Helgason.

Nánar

Allar fréttir