Íslenskar bókmenntir njóta mikilla vinsælda í Frakklandi

6. nóvember, 2019 Fréttir

Þessi misserin er mest þýtt af íslenskum bókum á frönsku, eða um fimmtíu titlar á þremur árum. Höfundar frá Íslandi eru tíðir gestir á bókmenntaviðburðum víða um Frakkland - og þýðendaþing haldið í París.

Eitt af hlutverkum Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að kynna íslenskar bókmenntir erlendis og auka útbreiðslu þeirra. Það starf hefur borið góðan árangur eins og meðal annars má sjá á miklum áhuga á íslenskum bókmenntum í Frakklandi. Mest er þýtt úr íslensku á frönsku þessi misserin en bækurnar eru orðnar um fimmtíu talsins á þriggja ára tímabili og þar gegna þýðingastyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta mikilvægu hlutverki. Sem dæmi má nefna þá eru allflestar bækur Arnalds Indriðasonar og Auðar Övu Ólafsdóttur til í franskri þýðingu en þau eiga sér dyggan lesendahóp. Fjöldi annarra höfunda hefur náð athygli Frakka og margir koma reglulega fram á bókmenntahátíðum og öðrum viðburðum í Frakklandi - iðulega með aðkomu Miðstöðvar íslenskra bókmennta. 

Þýðendur eru lykilfólk

Vinsældum íslenskra bóka í Frakklandi ber ekki síst að þakka þeim ötulu þýðendum sem bera hróður þeirra út fyrir landsteinana og kynna fyrir áhugasömum útgefendum og lesendum í heimalandinu. Tveir franskir þýðendur hafa hlotið Orðstír, heiðursverðlaun þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, þau Catherine Eyjólfsson árið 2015 og Eric Boury árið 2017, en bæði eru afkastamiklir og vandaðir þýðendur og hafa hvort um sig þýtt um 50 íslensk verk á frönsku. Í skemmtilegu viðtali talar Eric um áhugann á íslenskri tungu, ólík bókmenntaverk og hlutverk þýðandans. 

En nú er svo komið að erfitt reynist að anna eftirspurn eftir íslenskum bókum í Frakklandi þar sem of fáum starfandi þýðendum er til að dreifa og við því þarf að bregðast.  

Þýðendaþing í París

Í haust blés Sendiráð Íslands í París til þýðendaþings með þátttöku þýðenda, rithöfunda og franskra útgefenda. Eitt af markmiðum með þinginu var að vekja áhuga á þýðendastarfinu og íslenskunámi en í Frakklandi er íslenska kennd við tvo háskóla. Dagskráin var unnin í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Miðstöð íslenskra bókmennta og meðal þátttakenda voru Hrafnhildur Hagalín, Pétur Gunnarsson og Steinunn Sigurðardóttir auk þýðendanna Catherine Eyjólfsson, Éric Boury og Jean-Christophe Salaün.  

Höfundar á ferð um Frakkland

Höfundar frá Íslandi eru tíðir gestir bókmenntaviðburða víða um Frakkland og ber þar helst að nefna bókmennta- og menningarhátíðina Les Boréales sem fram fer í nóvember árlega í borginni Caen. Þangað leggur ávallt fjöldi íslenskra rithöfunda og listamanna leið sína en á hátíðinni hefur frá upphafi sjónum verið beint að bókmenntum og menningu Norður- og Eystrarsaltslanda. Þrír íslenskir höfundar taka þátt í hátíðinni að þessu sinni, þau Auður Ava Ólafsdóttir, Gyrðir Elíasson og Dagur Hjartarson en á síðustu tveimur árum hafa eftirtaldir höfundar komið fram á hátíðinni: Jón Kalman Stefánsson, Sjón, Lilja Sigurðardóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Auður Ava Ólafsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir, Ragnar Jónasson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Hildur Knútsdóttir, Yrsa Sigurðardóttir, Einar Már Guðmundsson og Arnar Már Arngrímsson.

Í nóvember var tilkynnt um þau stórtíðindi að Auður Ava Ólafsdóttur hlyti hin þekktu og virtu frönsku verðlaun Prix Médicis étranger 2019 fyrir Ungfrú Ísland í þýðingu Erics Boury.

þýðingar á frönsku

Hátt í fimmtíu þýðingar úr íslensku eru nýlega komnar út eða væntanlegar í Frakklandi og þar kennir margra grasa; það eru skáldverk, glæpasögur, barna- og ungmennabækur, myndasögur, ljóð og bækur almenns efnis. Það má því með sanni segja að mikil gróska sé í útgáfu íslenskra bóka í Frakklandi og ekkert lát á. Hér eru nokkur dæmi um nýlegar og væntanlegar franskar þýðingar:

 • Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason, útgefandi Gallimard.
 • Stormfuglar eftir Einar Kárason í útgáfu Grasset.
 • Hið heilaga orð og Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur í þýðingu Eric Boury, útgefandi Gaïa Editions.
 • Hans Blær og Gæska eftir Eirík Örn Norðdahl í útgáfu Editions Métailié.
 • Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur, útgefandi er Les Editions Noir sur Blanc.
 • Stúlkan hjá brúnni, Myrkrið veit, Synir duftsins, Dauðarósir og Petsamo eftir Arnald Indriðason í þýðingu Eric Boury, útgefandi er Editions Métailié.
 • Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson í útgáfu Editions Zulma.
 • Saga Ástu (útg. Grasset), Himnaríki og helvíti (útg. An Alarc'h), Eitthvað á stærð við alheiminn (útg. Gallimard) og Fiskarnir hafa enga fætur (útg. Gallimard) eftir Jón Kalman Stefánsson í þýðingu Eric Boury.
 • Landslag er aldrei asnalegt eftir Bergsvein Birgisson, útg. Actes sud.
 • Andköf, Rof og Dimma eftir Ragnar Jónasson, útg. Martiniére
 • Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson í þýðngu Eric Boury og í útgáfu Gallimard.
 • Þrír sneru aftur eftir Guðberg Bergsson, þýðandi Eric Boury og útgefandi Editions Métailié.

 • Passamyndir og Íslenskir kóngar eftir Einar Má Guðmundsson í þýðingu Eric Boury, útgefandi Editions Zulma.
 • Óláfs saga ins helga, þýðandi er François-Xavier Dillmann og útgefandi Editions Gallimard.
 • Gombri eftir Elínu Eddu í þýðingu Anne Balanant, útgefandi er Mécanique générale.
 • Alli Nalli og tunglið eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur og Sigríði Björnsdóttur, þýðandi Jean-Christophe Salaün og útgefandi Albin Michel Jeunesse.
 • Vetrarfrí og Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur í þýðingu Jean-Christophe Salaün, útg. Editions Thierry Magnier.
 • Sölvasaga unglings eftir Arnar Má Arngrímsson í þýðingu Jean-Christophe Salaün, útgefandi er Editions Thierry Magnier.
 • Fjallið sem yppti öxlum eftir Gísla Pálsson, þýðandi er Carine Chichereau og útgefandi Gaïa Editions.
 • Svik, Búrið og Netið eftir Lilju Sigurðardóttur í þýðingu Jean-Christophe Salaün, útgefandi Editions Métailié. 
 • Heima og Ástin og lífið .. og fleiri ljóð eftir Þór Stefánsson, þýðandi er Nicole Barrière og útgefandi L´Harmattan.
 • Síðasta ástarjátningin eftir Dag Hjartarson í þýðingu Jean-Christophe Salaün og útgefandi er Éditions La Peuplade.
 • Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur í þýðingu Eric Boury, útgefandi Editions Zulma.
 • Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson, þýðandi er Catherine Eyjólfsson og útgefandi Éditions La Peuplade.
 • 13 dagar eftir Árna Þórarinsson, þýðandi er Eric Boury og útgefandi Editions Métailié.
 • Bréf frá Bútan og Fundur Útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og mótandi áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur eftir Ragnar Helga Ólafsson í þýðingu Jean-Christophe Salaün og útgáfu Editions Passage(s).
 • Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur, þýðandi er Catherine Eyjólfsson og útgefandi Editions Zulma.
 • gráspörvar og ígulker eftir Sjón í þýðingu Séverine Daucourt Fridriksson og útgáfu Editions LansKine.
 • Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur í þýðingu Eric Boury og útgáfu Gaïa Editions.
 • Sögumaður eftir Braga Ólafsson í þýðingu Robert Guillemette og útgáfu Actes sud.

Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu  - 1. júlí, 2020 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð vegna sumarleyfa frá 6. júlí til 4. ágúst.

Nánar

Þýðendasíða með lista yfir virka þýðendur úr íslensku á erlend mál - 24. júní, 2020 Fréttir

Á síðunni má finna upplýsingar um þýðendurna, menntun þeirra og bakgrunn - sem og helstu verk sem þau hafa þýtt úr íslensku.  

Nánar

Nýræktarstyrkina í ár hljóta Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson, Arndís Lóa Magnúsdóttir, Guðmundur Ingi Markússon og Halla Þórlaug Óskarsdóttir - 4. júní, 2020 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur úthlutað Nýræktarstyrkjum til fjögurra nýrra höfunda og nemur hver styrkur 500 þúsund krónum. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina.

Nánar

Allar fréttir