Íslenskir höfundar á faraldsfæti, kynna verk sín í Síberíu, Frakklandi, Brasilíu, Slóveníu og víðar í nóvember

Á annan tug íslenskra höfunda koma fram á bókmenntahátíðum víða um heim

31. október, 2017 Fréttir

Fjölmargar spennandi bókmenntahátíðir víða um heim eru á döfinni í nóvember þar sem íslenskir höfundar taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.

Íslenskir höfundar ferðast víða til að kynna bækur sínar, oft með stuðningi Miðstöðvar íslenskra bókmennta, en það er mikilvægur þáttur í að koma höfundum og verkum þeirra á framfæri erlendis og stuðla að aukinni útbreiðslu íslenskra bókmennta. Margar spennandi bókmenntahátíðir eru á döfinni, þar sem nokkrir höfundar munu lesa upp úr verkum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.

Bókmenntahátíðin KRYAKK 2. - 6. nóvember

AEvar-Benediktsson

Bókmenntahátíðin KRYAKK (Krasnoyarsk Book Culture Fair) í Krasnoyarsk, Síberíu í Rússlandi var haldin 2. - 6. nóvember en þar tóku tveir barnabókahöfundar frá Íslandi þátt, þau Ævar Þór Benediktsson og Hildur Knútsdóttir, sem komu fram í sameiginlegri barnadagskrá Norðurlandanna þar sem var áhersla á tækni, vísindi og fræðandi gagnvirka dagskrá. Hátíðin í ár er sú ellefta í röðinni og hafa hin Norðurlöndin staðið þar sameiginlega að þátttöku í nokkur ár en Ísland er nú með í fyrsta sinn. Íslenska sendiráðið í Moskvu hefur umsjón með og styrkir þátttöku Íslands í hátíðinni.

Festival les Boréales 16. - 26. nóvember

Festival les Boréales; un festival en nord  er nú haldin í 26. sinn í Normandí, Frakklandi dagana 16. - 26. nóvember. Í ár er Ísland í brennidepli og fjöldi íslenskra listamanna leggur leið sína á hátíðina en dagskráin er afar spennandi og fjölbreytt. Þeir rithöfundar sem taka þátt með upplestri, umræðum eða öðru eru Auður Ava Ólafsdóttir, Jón Kalman Stefánsson, Sjón, Lilja Sigurðardóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Steinunn Jóhannesdóttir og Ragnar Jónasson. Auk þeirra koma meðal annarra fram í tónlistardagskrá hátíðarinnar Víkingur Heiðar Ólafsson, Ásgeir Trausti og Amiina og fjöldi kvikmynda og þátta eftir íslenskt kvikmyndagerðarfólk verður jafnframt á dagskránni.

Til Tékklands, Malasíu, Brasilíu, Slóveníu, Slóvakíu, Þýskalands og Kýpur

gerdur_kristnyAuk þeirra hér að ofan er fjöldi íslenskra höfunda á faraldsfæti víða um heim í nóvember. Gerður Kristný Guðjónsdóttir kemur fram á stærstu ljóðahátíðinni í Tékklandi, Den Poezie, og les hún upp ljóð sín í Prag, Ceský Krumlov og Brno en Gerður er fyrsta íslenska ljóðskáldið sem boðið er á hátíðina.  Auk þess verður Gerður á George Town Literary Festival í Malasíu þar sem hún tekur þátt í pallborði og dagskrá með öðrum skáldum.

Einar Már GuðmundssonEinar Már Guðmundsson kemur fram á bókmenntahátíð á Kýpur, 3rd International Literary Festival, to the sea-girt shores of Cyprus, í nóvember ásamt 32 höfundum frá öllum heimshornum. Þar tekur hann þátt með upplestri, umræðum og heimsókn í háskóla. Porto Alegre's Book Fair í Brasilíu hefur einnig boðið Einari Má þátttöku í hátíðinni sem fram fer í lok nóvember.

Kristin_Omarsdottir_1

Kristín Ómarsdóttir kemur fram á ljóðahátíð í Ljúblíana, Slóveníu, þar sem hún les eigin ljóð í tilefni útgáfu safns lesbískra ljóða frá ýmsum löndum á slóvensku og Ásta Fanney Sigurðardóttir tekur þátt í ljóðaupplestri í Bratislava, Slóvakíu.

Jón Gnarr og Einar Kárason halda opnunarræðuna á Nordische Literaturtage sem er norræn bókmenntahátíð haldin í Literaturhaus Hamburg í Þýskalandi og verður sá síðarnefndi einnig í Færeyjum þar sem hann tekur þátt í dagskrá á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember.

 

Steinunn Sigurðardóttir og Oddný Eir Ævarsdóttir verða með bókakynningu og lesa upp úr bókum sínum í dómkirkjunni í Strassborg, Frakklandi, í lok nóvember í tengslum við jólamarkað þar sem Ísland verður heiðursgestur.

 

Greinilegt er að íslenskir höfundar eru eftirsóttir og íslenskar bókmenntir í mikilli sókn víða um veröld.

Jón Kalman Sjon  Steinunn Jóhannesdóttir  
 Ragnar-helgi  Lilja Sigurðardóttir  Ragnar Jónasson  Einar Kárason - útlenskur texti