Spennandi höfundar frá Íslandi koma fram á Bókamessunni í Gautaborg
Bókamessan í Gautaborg verður haldin um mánaðamótin september/október en þar kemur saman fjöldi rithöfunda, útgefenda, og bókaunnenda - og Miðstöð íslenskra bókmennta verður á staðnum
Sjón, Fríða Ísberg og Ævar Þór Benediktsson koma fram í Gautaborg 28. september til 1. október.
Miðstöð íslenskra bókmennta hefur í samstarfi við stjórnendur bókamessunnar skipulagt þátttöku rithöfundanna Sjóns og Fríðu Ísberg í fjölbreyttum viðburðum á messunni í ár og einnig kemur Ævar Þór Benediktsson fram og tekur m.a. þátt í barnadagskrá með þekktum höfundi og sjónvarpsmanni.
Heildardagskrá bókamessunnar í Gautaborg 2023 (pdf)
Bókamessan í Gautaborg er stærsta bókamessan á Norðurlöndunum en hana sækja árlega um 100.000 gestir. Messan er þekkt fyrir fjölbreytta dagskrá á mörgum sviðum og í ár verður menning sænskra gyðinga; saga, bókmenntir og heimspeki, í sviðsljósinu.
Íslensku höfundarnir munu koma fram í mörgum viðburðum á dagskrá bókamessunnar í Gautaborg, þar sem þau fjalla meðal annars um leik og lestur barna, vinnuna við „stóru skáldsöguna“ og valdið í dystópíunni.
Solvej Balle og Sjón munu ræða um stórvirki sín.
Að skrifa vel og lengi
Danski rithöfundurinn Solvej Balle og Sjón hafa þekkst síðan snemma á níunda áratugnum þegar þau voru að stíga sín fyrstu skref sem ljóðskáld. Höfundarnir munu ræða ferilinn og stórvirkin sem þau hafa bæði tekist á við í málstofu sem sænski rithöfundurinn Amanda Svenson leiðir. Sjón hlaut Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar á árinu og Solvej Balle hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022 fyrir fyrstu þrjú bindin af sjö í skáldsagnabálknum Om udregning af rumfang en fyrsta bindið, Rúmmálsreikningur kom nýlega út í íslenskri þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur hjá Benedikt bókaútgáfu.
Föstudag 29. sept kl. 15, https://bokmassan.se/programs/att-skriva-lange-och-val/
Aðrir viðburðir með Sjón
Föstudag 29. sept kl. 10.30, https://bokmassan.se/programs/att-som-stader-ta-stallning-for-yttrandefrihet-styrkan-i-fristadsnatverket-icorn/
Föstudag 29. sept kl 13, https://bokmassan.se/programs/poesi-fran-island-belgien-stockholm-goteborg/
Sænska kápa Merkingar
Norrænar dystópíur
Fríða Ísberg tekur þátt í áhugaverðri málstofu ásamt danska höfundinum Rasmus Daugbjerg þar sem sjónum verður beint að norrænum dystópíum og rætt um birtingamyndir valdsins. Skáldsaga Fríðu, Merking, kom út í sænskri þýðingu á síðasta ári og hefur vakið verðskuldaða athygli þar í landi en Fríða hlaut Bókmenntaverðlaun Pers Olovs Enquists árið 2022
Laugardag 30. sept kl. 10, https://bokmassan.se/programs/nordiska-dystopier/
Aðrir viðburðir með Fríðu:
Laugardag 30. kl 12, https://bokmassan.se/programs/frida-isberg-market/
Laugardag 30. kl 13, https://bokmassan.se/programs/market/
Þín eigin saga: Draugagangur er væntanleg á sænsku
Ævar Þór og leikandi lestur
Rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson tekur þátt í málstofu um „Lekande läsning” þar sem hann ræðir við sænska grínistann, sjónvarpsmanninn og barnabókahöfundinn David Sundin um mikilvægi leiks fyrir lestur og öfugt. Sænsk þýðing á Þín eigin saga: Börn Loka kom út á dögunum og í september geta ungir sænskir lesendur glaðst því þá er von á Þín eigin saga: Draugagangur!
Laugardag 30. sept kl. 12, https://bokmassan.se/programs/lekande-lasning/
Aðrir viðburðir með Ævari:
Föstudag 29. sept kl. 14.30, https://bokmassan.se/programs/bocker-i-dataspelsformat-vacker-barnens-lasintresse/
Í tengslum við messuna verður móttaka í boði íslenska sendiráðsins í Stokkhólmi fyrir ýmsa útgefendur, höfunda, þýðendur og fleiri sem láta sig bókmenntirnar varða.
Einnig verður efnt til samkomu fyrir íslenskumælandi börn og foreldra þeirra til að hvetja til lesturs. Það er Kristín Pálsdóttir, móðurmálskennari, sem skipuleggur í samstarfi við sendiráðið.
Þátttakan á messunni í Gautaborg er í samstarfi við Íslandsstofu.