Íslenskir útgefendur efla tengslin við sænska kollega í Stokkhólmi

Markmið Miðstöðvar íslenskra bókmennta með útgefendaskiptum við Svía er að efla tengsl milli fagaðila, kynna íslenskar bókmenntir í Svíþjóð, fjölga þýðingum og auka útbreiðslu þeirra þar.

26. júní, 2019 Fréttir

Útgefendaskipti milli Íslands og Svíþjóðar fóru fram í fyrsta sinn núna í júnímánuði. 

Í júní efndi Miðstöð íslenskra bókmennta til samstarfs við sænsku bókmenntamiðstöðina, Swedish Literature Exchange, um útgefendaskipti milli landanna. Þrír íslenskir útgefendur fóru utan í þrjá daga og þrír sænskir útgefendur/umboðsmenn komu hingað til lands í jafnlangan tíma, en sambærileg skipti hafa verið reynd milli annarra norrænna landa og hafa gefið góða raun. Markmiðið með útgefendaskiptunum við Svía er að efla tengsl milli fagaðila/útgefenda, kynna íslenskar bókmenntir í Svíþjóð, fjölga þýðingum og auka útbreiðslu þeirra þar.

Þau sem Miðstöð íslenskra bókmennta styrkti til fararinnar voru Valgerður Benediktsdóttir frá Forlaginu, Guðrún Vilmundardóttir frá Benedikt bókaútgáfu og Páll Valsson frá Bjarti og voru þau sammála um ferðin til Stokkhólms hefði verið afar vel heppnuð í alla staði. Þau fengu hlýjar móttökur og góða kynningu á sænskri bókaútgáfa hjá sænsku bókmenntastöðinni og hittu kollega sína á góðum og gagnlegum fundum á skrifstofum útgefenda um alla borg.

Þau þrjú sem komu til Reykjavíkur í sömu erindagjörðum voru Kajsa Palo frá Ahlander Agency, Linda Altrov Berg frá Norstedts Agency og Jonas Ellström frá Ellström förlag og fengu þau kynningu á starfi Miðstöðvar íslenskra bókmennta, íslenskum bókamarkaði, þýðingum og styrkjamöguleikum. Síðast en ekki síst áttu þau góða fundi með mörgum íslenskum útgefendum, höfundum og þýðendum. Hér má lesa viðtal við þau um heimsóknina

„Ferðin til Stokkhólms var frábær, móttökurnar dásamlegar og ég kom heim í miklu uppstreymi eftir að hafa hitt marga útgefendur og treyst böndin vel og vandlega!” Valgerður Benediktsdóttir hjá Forlaginu

 

„Ég hafði verulegt gagn og gaman af þessum útgefendaskiptum” segir Guðrún Vilmundardóttir hjá Benedikt bókaútgáfu, “það veitir manni svo miklu betri mynd að hitta fólk á heimavelli”.

 

„Þarna gafst tækifæri til að ræða mál betur og gefa sér góðan tíma sem ekki gefst t.d. á bókamessunni í Frankfurt þar sem allt er neglt niður í hinn níðþrönga tímaramma.“ Páll Valsson hjá Bjarti 


Allar fréttir

Íslenskar bókmenntir njóta mikilla vinsælda í Frakklandi - 6. nóvember, 2019 Fréttir

Þessi misserin er mest þýtt af íslenskum bókum á frönsku, eða um fimmtíu titlar á þremur árum. Höfundar frá Íslandi eru tíðir gestir á bókmenntaviðburðum víða um Frakkland - og þýðendaþing haldið í París.

Nánar

Íslenskir höfundar ferðast um heiminn, kynna verk sín og hitta lesendur - 7. nóvember, 2019 Fréttir

Höfundarnir bera hróður bókmenntanna víða, því árlega kemur fjöldi þeirra fram á fjölbreytilegum bókmenntaviðburðum í öllum heimsálfum og kynnir verk sín, iðulega með stuðningi Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Nánar

Fjörutíu íslenskar bækur í enskum þýðingum gefnar út í Bretlandi og Bandaríkjunum - 29. október, 2019 Fréttir

Bækur íslenskra höfunda ferðast víða um heiminn í þýðingum og eru ensk málsvæði þar engin undantekning.

Nánar

Allar fréttir