Íslensku bókmenntaverðlaunin og Blóðdropinn 2024 afhent

Kristín Ómarsdóttir, Guðjón Friðriksson, Rán Flygenring og Stefán Máni hljóta verðlaun fyrir verk sín.

29. janúar, 2025

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum og í beinni útsendingu á RÚV þann 29. janúar síðastliðinn.

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, afhenti  Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum og í beinni útsendingu á RÚV þann 29. janúar síðastliðinn.

_RNB5514

Verðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Verðlaunagripurinn Blængur, blásvartur hrafn steyptur í kopar, eftir myndlistarmanninn Matthías Rúnar Siguðrsson, var afhentur verðlaunahöfum Íslensku bókmenntaverðlaunanna í annað sinn. 

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi tuttugu bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu þau Björn Teitsson, Kristín Ásta Ólafsdóttir, Unnar Geir Unnarsson, Viðar Eggertsson og Kristín Ingu Viðarsdóttir, sem var formaður nefndarinnar

Verðlaunahafar 2024

Í flokki skáldverka: 

Modurast-draumthingKristín Ómarsdóttir
Móðurást: Draumþing
Útgefandi: Mál og menning

_RNB5638Guðrún Yrsa Ómarsdóttir tók við verðlaununum fyrir hönd Kristínar.

Umsögn lokadómnefndar:
Móðurást: Draumþing, skálduð ævisaga langömmu Kristínar, er fallega stíluð saga liðinna kynslóða á ofanverðri nítjándu öld. Framsetningin er brotakennd og ljóðræn og sýnir nýstárlega nálgun við ritun sögulegrar skáldsögu. Höfundi tekst listilega að skapa sögusvið sem er í senn framandi og kunnuglegt, einangrað og opið og veita innsýn í brothætt sálarlíf unglingsstúlku sem stendur á þröskuldi fullorðinsára og nýrra kennda, bundin af öllum þeim væntingum og takmörkunum sem samfélag hennar býr henni. Jónsmessunóttin, sem rammar frásögnina inn, leggur yfir hana blæ töfra og annarleika sem samræmist einkar vel hálfsögðum sögum og því sem liggur á milli lína.

Í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Born_i_Reykjavik_72Guðjón Friðriksson
Börn í Reykjavík
Útgefandi: Mál og menning

_RNB5626-1-

Umsögn lokadómnefndar: Börn í Reykjavík er yfirgripsmikið og fróðlegt verk um sögu barna í höfuðborginni allt frá þéttbýlismyndun til dagsins í dag. Stíllinn er leikandi léttur og skrifað er af nærfærni og næmni um málefni barna og fjölskyldna, aðbúnað þeirra og umhverfi og textinn dýpkaður með persónulegum sögum. Höfundur dregur einnig fram daglegt líf barna á tímabilinu – leikina, skemmtanirnar, skólamál og skyldurnar – og tengir þetta við þróun og breytingar í borgarsamfélaginu sem var að mótast. Sá fjöldi mynda sem prýðir bókina eykur heimildargildi hennar til muna og með þeim og lifandi frásagnarstílnum tekst Guðjóni að vekja söguna til lífs og draga upp skýra mynd af þróun samfélagsins og áhrifum hennar á börnin. Börn í Reykjavík er tímamótaverk sem er líklegt til að ná til breiðs lesendahóps og auka skilning á stöðu og veruleika barna í nútíð og þátíð.

Í flokki barna- og ungmennabóka:

Tjornin

Rán Flygenring
Tjörnin
Útgefandi: Angústúra

_RNB5564_1738238073356

Umsögn lokadómnefndar: Tjörnin er marglaga saga um undraveröld mitt í hversdegi barna sem finna uppþornaða tjörn í garðinum sínum, sem síðan fyllist lífi. Bókin hentar börnum á öllum aldri jafnt sem fullorðnum og er endalaus uppspretta samtala og nýrra uppgötvana, alveg eins og sjálf tjörnin. Komið er inn á margvísleg viðfangsefni, svo sem vináttu, eignarrétt, stjórn, samvinnu og jafnvel auðlindanýtingu, en allt undir formerkjum ævintýrisins og leiksins. Ímyndunaraflið ræður för í fjörlegum myndum og vinna þær og textinn vel saman auk þess sem einstakur myndheimur Ránar bætir miklu við texta sögunnar. Tjörnin er fallegt og skemmtilegt verk sem lesandinn getur sökkt sér í og sagan dýpkar með hverjum lestri.

Blóðdropann 2024 hlýtur: 

Daudinn-einn-var-vitniStefán Máni
Dauðinn einn var vitni 
Útgefandi: Sögur útgáfa

_RNB5592_1738238090624

Umsögn lokadómnefndar: Hér er á ferðinni háspennuævintýri þar sem lögreglan tekst á við yfirvofandi ógn sem steðjar að lífi íbúa Reykjavíkur í kappi við tímann. Atburðarásin er hröð og spennandi og nær niðurtalningin sem sagan hverfist um sterkum tökum á lesandanum. Um leið heldur höfundur áfram að þróa litríka persónu og innri togstreitu hins breyska lögreglumanns Harðar Grímssonar á sannfærandi hátt. Persónulýsingar eru lifandi og marghliða og andrúmsloft ótta og hryllings hratt og örugglega byggt upp, en um leið er gætt að húmor og fínni blæbrigðum mannlífsins. Textinn er myndríkur og sögusviðið og atburðarásin teiknast ljóslifandi upp í huga lesanda.

Ljósmyndir: Arnþór Birkisson


Allar fréttir

Tilnefningar til viðurkenningar Hagþenkis - 23. janúar, 2025 Fréttir

Til­kynnt hefur verið hvaða tíu bæk­ur eru til­nefnd­ar til Viður­kenn­ing­ar Hagþenk­is, fé­lags höf­unda fræðirita og kennslu­gagna.

Nánar

Árið 2024 hjá Miðstöð íslenskra bókmennta - 21. janúar, 2025 Fréttir

Árið 2024 var viðburðaríkt hjá Miðstöð íslenskra bókmennta. Styrkir til þýðinga og útgáfu, ferðalög höfunda, bókamessur og flutningar settu svip sinn á árið og við tökum bjartsýn á móti nýju ári með ferskum bókum og spennandi áætlunum um fjölbreytt starf og útbreiðslu íslenskra bókmennta. 

Nánar

Allar fréttir