Elísabet Gunnarsdóttir og Hildur Hákonardóttir hlutu Íslensku þýðingaverðlaunin

Verðlaunin hlutu þær fyrir Walden eða Lífið í skóginum eftir Henry David Thoreau. Útgefandi er Dimma.

5. mars, 2018 Fréttir

Verðlaunin hlutu þær fyrir Walden eða Lífið í skóginum eftir Henry David Thoreau. Útgefandi er Dimma.

Elísabet Gunnarsdóttir og Hildur Hákonardóttir hlutu Íslensku þýðingaverðlaunin 2018 fyrir þýðingu sína á Walden eða Lífið í skóginum eftir Henry David Thoreau. Útgefandi er Dimma. Þetta er í fjórtánda sinn sem verðlaunin eru veitt.

Umsögn dómnefndar

Walden eða Lífið í skóginum er eitt af höfuðverkum bandarískra bókmennta og segja má að verkið marki upphafsspor í vestrænni hugsun um náttúruvernd og samband manns og náttúru. 

Walden

Samvinnuþýðing Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur er einkar vel heppnuð og fangar 19. aldar stemningu og tærleika þessa klassíska texta á sérlega vandaðri íslensku án þess að vera gamaldags. Orðgnótt og afar næm tilfinning þýðenda fyrir samspili tungumáls og efnis lyftir textanum upp á ljóðrænt svið þar sem hugblær og hrifnæmi náttúruunnandans lætur engan lesanda ósnortinn.

Eftirmálar og skýringar þýðenda bera vott um ígrundaða vinnu og einfaldar og fallegar teikningar Hildar gefa bókinni aukið gildi. Allur frágangur bókarinnar er til sóma og hún er ákaflega vandaður og fallegur prentgripur."

Í dómnefnd sátu Ingunn Ásdísardóttir, Helga Soffía Einarsdóttir og Steinþór Steingrímsson. Ingunn Ásdísardóttir var formaður dómnefndar.