Kristín Ómarsdóttir hlýtur Maístjörnuna fyrir ljóðabók sína Kóngulær í sýningargluggum

Maístjarnan afhent í annað sinn

31. maí, 2018

Ljóðabókaverðlaunin Maístjarnan voru afhent í annað sinn í Þjóðarbókhlöðunni þann 29. maí.  Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2017 hlýtur Kristín Ómarsdóttir fyrir ljóðabók sína Kóngulær í sýningargluggum.

Að verðlaununum standa Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. 

Umsögn dómnefndar um verðlaunabókina

Kongulaerisyningargluggum_72pt„Danse macabre er miðaldalíking yfir dauðadansinn sem sameinar okkur öll, háa sem lága, unga sem gamla, konur sem karla, og hann stígum við mannfólkið allt okkar líf. Í þróttmikilli ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur er stiginn dans af sama tagi, líf og dauði tvinnast saman í köngulóarvef og hvergi er hægt að staldra við fremur en á sjálfri lífsleiðinni, heimurinn er fullur af undrum og óhugnaði, fegurð og ljótleika, völdum og valdaleysi og ótalmörgu öðru. Myndmálið er afar sterkt, stundum allt að því yfirþyrmandi, og ljóðavefur Kristínar heldur okkur föngnum, því hann er samtími okkar sjálfra. Kóngulær í sýningargluggum er afar óvenjuleg, einstaklega sterk og ögrandi ljóðabók og allar líkingar og lýsingar opna nýjar víddir og nýja sýn á heiminn.“

Kristín Ómarsdóttir er fædd 24. september 1962 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Flensborg í Hafnarfirði 1981 og stundaði síðan nám í íslensku, almennri bókmenntafræði og spænsku við Háskóla Íslands. Kristín hefur dvalist í Kaupmannahöfn og Barcelona en býr nú og starfar í Reykjavík. Kristín hefur jöfnum höndum fengist við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Skáldsagan Elskan mín ég dey var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 og fékk Menningarverðlaun DV sama ár. Leikrit hennar, Ástarsaga 3, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna. Árið 2005 fékk hún Grímuverðlaunin, sem leikskáld ársins, fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína hlaut hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2008. Skáldsagan Flækingurinn var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2015. Kóngulær í sýningargluggum var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017 en Kristín var líka tilnefnd 2012 fyrir Millu, 1997 fyrir Elskan mín ég dey og 1995 fyrir Dyrnar þröngu. Kristín hefur einnig unnið að myndlist, sýnt teikningar sínar og tekið þátt í sýningum þar sem hún hefur unnið með ólík form: myndbönd og skúlptúra. Bækur eftir Kristínu hafa verið þýddar á sænsku, frönsku og finnsku og ljóð hennar hafa birst í erlendum safnritum. 


Ræðu Kristínar Ómarsdóttur við afhendingu Maístjörnunnar má lesa hér.

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2017 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Í dómnefnd sátu Magnea J. Matthíasdóttir tilnefnd af Rithöfundasambandinu og Rannver H. Hannesson tilnefndur af Landsbókasafni Íslands – Háskólasafni. 

Tilnefndar bækur

Án tillits eftir Eydísi Blöndal í útgáfu höfundar

Dauðinn í veiðarfæraskúrnum eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur, útgefandi Viti menn 

Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, útgefandi Benedikt bókaútgáfa

Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttir, útgefandi JPV útgáfa 

Stór olíuskip eftir Jónas Reyni Gunnarsson í útgáfu Partus.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir