Læknaði heimþrána með því að þýða, en getur ekki hætt. Erik Skyum-Nielsen þýðandi.

7. desember, 2018

„Fyrir mér er þetta starf hreint út sagt fíkn þar sem ég er fyrst og fremst notandi. Þegar ég sneri til Danmerkur eftir mína Íslandsdvöl á sínum tíma læknaði ég heimþrána með því að þýða, en mér er alveg fyrirmunað að hætta“ segir danski þýðandinn Erik Skyum-Nielsen í viðtali við Magnús Guðmundsson fyrir Miðstöð íslenskra bókmennta.

Erik Skyum-Nielsen er mörgu íslensku og dönsku bókmenntafólki að góðu kunnur. Hann á að baki yfir sjötíu þýðingar íslenskra bókmenntaverka af fjölbreytilegum toga yfir á danska tungu, auk þess að hafa starfað sem gagnrýnandi og háskólakennari bæði í Danmörku og á Íslandi. Erik hlaut heiðursverðlaun danska þýðendasambandsins á síðasta ári og Orðstír, heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á erlend mál, árið 2015.

Íslenskuáhugi Eriks kviknaði fljótlega eftir að hann hóf dönskunám í háskóla. „Eftir aðeins eina önn þá skráði ég mig í námskeið í vest-norrænni frásagnarlist og það stóð í ein þrjú misseri. Með þessum hætti lærði ég eitthvað í forn-íslensku og það var svona upphafið að þessu. Síðar komst ég svo á námskeið um Halldór Laxness hjá Erik Søderholm, sem samdi einmitt stóra bók um Kiljan nokkrum árum síðar. Søderholm varð seinna forstjóri Norræna hússins í Reykjavík eins og einhverja rekur eflaust minni til.

„Þessi námstími markaði ákveðið upphaf fyrir mig og lokaritgerðin mín fjallaði svo m.a. um Færeyingasögu. Í kjölfarið fékk ég boð um að halda fyrirlestur á alþjóðlegu fornsagnaþingi sem var haldið í Reykjavík sumarið 1973. Það varð til þess að ég kom í fyrsta sinn til Íslands og varð strax mjög hrifinn af bæði landinu og mannlífinu. Ég ákvað, satt best að segja, strax að reyna að koma aftur með einhverjum hætti. Ári síðar var svo auglýst lektorsstaða í dönskum bókmenntum við Háskóla Íslands og til allrar hamingju þá hlotnaðist mér sú staða.“

Sendikennari í fjögur ár

Erik var sendikennari í fjögur ár á Íslandi þar sem hann kenndi danskar bókmenntir og komst í samband við íslenska höfunda í nokkrum mæli. „Það var einkum tvennt sem hafði mikil áhrif á minn feril á þessum tíma. Fyrir það fyrsta kynntist ég Thor Vilhjálmssyni þegar ég var beðinn um að þýða skáldsögu hans Fuglaskottís, en hún var lögð fram af hálfu Íslands til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Við Thor sátum saman mörg kvöld í vinnustofu hans í Vogahverfi og ég lærði nú eitthvað af því vegna þess að hann var vitur maður og mjög vel að sér í dönsku.“

Kröftug kynslóð

„En hitt sem ég vildi nefna var að á námskeiði sem við kennararnir héldum veturinn 1976-77 þá voru þar á meðal þátttakenda nemar á borð við Einar Kárason, Halldór Guðmundsson, Auði Hauksdóttur, Einar Má Guðmundsson og fleira gott fólk. Þetta voru ákaflega hressir stúdentar, kröftug kynslóð sem átti eftir að setja heilmikið mark á íslenskar bókmenntir. Bráðgáfaðir nemendur sem við kennararnir lærðum líka sitthvað af.“

Þýddi Thor 

Fuglaskottís var fyrsta bókin sem Erik þýddi en hann segir að hún hafi því miður aldrei komið út á dönsku. „Seinna þýddi ég hins vegar bækurnar Grámosinn glóir, Náttvíg og Morgunþula í stráum og þær komu allar út. 

„Það var reyndar þannig að þegar Morgunþula í stráum kom út var hringt í mig þegar ég var á leiðinni heim úr sumarbústað. Það reyndist vera Thor sem var að þakka fyrir þýðinguna en svo féll hann frá aðeins tíu dögum síðar. Þá þótti mér vænt um að hafa náð að þýða þessa fallegu bók og að hafa heyrt frá skáldinu.“ 

Aðspurður um hvort ekki hafi verið snúið að þýða texta eftir Thor segir Erik að það hafi vissulega verið það á stundum. „Þegar ég byrjaði að þýða Grámosann var ég búinn að fá að láni sumarbústað föðurbróður míns. Þar dvaldi ég við vinnu í eina viku og þýddi ekki nema tuttugu og fimm síður, sem þykja nú ekki mikil afköst. Það segir sitt um hversu snúið þetta gat verið.“

Kynntist Einari Má 

Erik dvaldi  á Íslandi 1974-78 en segir að á þeim tíma hafi ekki fleiri falast eftir þýðingum hjá honum. „Fyrsti höfundurinn sem kom til mín í Danmörku og spurði hvort ég væri fús til þess að þýða eftir hann texta var Einar Már. Hann dvaldi þá í Kaupmannahöfn við nám og samdi bæði ljóð og fyrstu skáldsögu sína á Konunglega bókasafninu. Kvöld eitt bankaði Einar Már upp á hjá mér en við höfðum sem sagt kynnst fimm árum áður og ákváðum að byrja á því að búa til úrval úr fyrstu þremur ljóðabókunum hans. Sú bók kom út hjá Vindrose forlagi og nefndist Frankensteins kup, en það er vísun í ljóð sem heitir Rússneska byltingin.“

... ekki fyrr en ég dett dauður af stólnum 

Erik segir að eftir þetta hafi þýðendaverkefnunum fjölgað ört og hann ætlað sér svo sannarlega að halda áfram. „Ég hef ekki hætt síðan og ætla ekki að hætta að þýða fyrr en ég dett dauður af stólnum,“ segir Erik léttur í bragði. Hann bætir því við að margt komi til sem geri þýðingastarfið svo heillandi. „En eitt aðalatriðið er að maður er svona einskonar sendisveinn höfundar. Auk þess þá ertu líka með ákveðnum hætti gestgjafi lesenda.“

Hlutverk þýðandans er ekki að skapa heldur endurskapa 

„Maður starfar á mörkum tveggja mál- og menningarheima, sem er heillandi í sjálfu sér, en svo fylgir þessu ákveðin kyrrð og ró sem er fólgin í því að hugsa eins og maður sé ekki maður sjálfur. Maður er þaulhugsandi en ekki út frá sjálfum sér. Hlutverk þýðandans er ekki að skapa heldur endurskapa og ég kann mjög vel við þetta milliástand sem er fólgið í þessu. Þetta er stór hluti af því sem heillar mig við það að þýða, ég geri þetta ekki lengur peninganna vegna, heldur vegna þess að ég kann svo vel við íslenskuna og þekki orðið aðaleinkenni margra íslenskra höfunda sem ég hef dáðst að í gegnum tíðina.“

Unglingamál og Tómas Jónsson

Erik segir að það séu engar tvær persónur líkar í hópi þeirra skálda og höfunda sem hann hefur þýtt. 

Að auki veiti það honum ákveðna gleði þegar það bætist nýtt fólk í hópinn. „Eins og Gerður Kristný sem ég hef þýtt fimm sinnum og Auður Ava sem ég hef nú þýtt þrisvar. Þetta finnst mér skemmtilegt og núna er ég búinn að koma mér í gífurlegan vanda þar sem ég tók nýverið að mér að þýða Jónas Reyni Gunnarsson sem er kornungur höfundur sem tjáir sig á samtíma unglingamáli. Það er mér dálítið framandi en á sama tíma afskaplega uppörvandi verkefni. 

Á sama tíma er ég svo að fást við að koma eldra íslensku verki yfir á dönsku en það er Tómas Jónsson, metsölubók eftir Guðberg Bergsson. Það er búið að semja um að gefa Tómas Jónsson út á næsta ári hjá forlagi sem kallast Sisyfos og þetta er auðvitað löngu tímabært. Það gleður mig ákaflega mikið að hafa getað tekið þetta verkefni að mér.“

Hélt ræðu í Hælavík 

Það leynir sér ekki hversu feykilega vel Erik er að sér í íslenskum bókmenntum og ekki síður hversu mikil ástríða býr að baki starfinu. Þannig hefur hann til að mynda áhyggjur af því að aldrei hafi tekist að fá fyrstu verk Svövu Jakobsdóttur útgefin á dönsku, ekki einu sinni Leigjandann. „Hið sama gilti lengi vel um verk Jakobínu Sigurðardóttur, en það er nýbúið að bæta úr því. Mig langar til þess að nefna þetta vegna þess að sumarið 1999 gengum við þáverandi kona mín ásamt vinafólki um Hornstrandir og stöldruðum við í Hælavík. Þar hélt ég ræðu um Jakobínu sem byggði á endurminningum hennar Í barndómi. Það er nýbúið að gefa þessa bók út hér í Danmörku í minni þýðingu og það er mér mikið gleðiefni.“

Sveifla milli kynslóða 

Erik segir að íslenskar bókmenntar hafi löngum notið talsverðra vinsælda í Danmörku. Einkum hafi skáldverk Halldórs Laxness verið vinsæl en þær vinsældir hafi dofnað þegar skáldið tók til við að skrifa endurminningaverk sín. „Þegar Halldór sendi frá sér Grikklandsárið og Dagar hjá múnkum, dofnaði áhuginn. Að sjálfsögðu voru þessar bækur gefnar út í Danmörku eins og hinar, en þær sem komu út seldust varla. 

Þetta var svona upp úr 1980, á sama tíma og Einar Már, Einar Kárason, Vigdís Grímsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir og fleiri höfundar voru kynnt á dönsku. Þarna varð algjör sveifla á milli kynslóða því margir þessara höfunda hafa notið mikilla vinsælda hér. Munnmæli herma að hver og einn danskur útgefandi sé alltaf að leitast eftir því að hafa á snærum sínum íslenskan höfund.

Að það sé hreinlega skylda fyrir danskan forleggjara að hafa einn íslenskan höfund hjá sér,“ segir Erik léttur í bragði og bætir við að þetta sé nú mýta.

Alveg fyrirmunað að hætta

Aðspurður um mikilvægi þýðinga á milli Norðurlandamála segir Erik að þær séu vissulega mikilvægar til þess að viðhalda norrænum tengslum og örva sameiginlegan anda. „En fyrir mér er þetta starf hreint út sagt fíkn þar sem ég er fyrst og fremst notandi. Þegar ég sneri til Danmerkur eftir mína Íslandsdvöl á sínum tíma læknaði ég heimþrána með því að þýða, en mér er alveg fyrirmunað að hætta."

Viðtal: Magnús Guðmundsson, desember 2018. 

Frá afhendingu Orðstírs í fyrsta sinn, árið 2015 á Bessastöðum, þegar Erik Skyum-Nielsen og Catherine Eyjólfsson hlutu heiðursviðurkenninguna fyrir þýðingar sínar úr íslensku.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir