Läs Isländska Böcker: Ný vefsíða um íslenskar bækur á sænsku
https://www.lasislandskabocker.se/
Sendiráð Íslands í Stokkhólmi og þýðandinn John Swedenmark hafa unnið að vefsíðu þar sem má finna upplýsingar um allar íslenskar bækur sem þýddar hafa verið á sænsku.

Á Bókamessunni í Gautaborg í september síðastliðnum kynnti Sendiráð Íslands í Stokkhólmi ásamt þýðandanum John Swedenmark nýja vefsíðu sem kallast Läs Isländska Böcker. Á vefnum má finna upplýsingar um allar þær íslensku bækur sem hafa verið þýddar á sænsku frá upphafi til dagsins í dag.
Hægt er að leita eftir höfundi, þýðanda og bókmenntagrein. Einnig birtast þar umfjallanir og annað áhugavert efni sem tengist íslenskum bókmenntum ásamt upplýsingum um bókmenntaviðburði sem fara fram í Svíþjóð.
Vefurinn er afar mikilvæg heimild fyrir íslenskar bókmenntir í Svíþjóð en einnig lifandi miðill þar sem hægt verður að sjá hvað er efst á baugi í íslensku bókmenntalífi á sænsku.
Íslenskar bækur hafa notið mikilla vinsælda í Svíþjóð og þökk sé þrotlausri vinnu metnaðarfullra þýðenda eru margir höfundar sem eiga dygga lesendur þar í landi. Þegar þetta er skrifað má finna á fjórða hundrað titla á nýju vefsíðunni, þar af 50 titla frá upphafi árs 2020.