Lesendur í milljónatali

Eftir Hrefnu Haraldsdóttur framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta

31. janúar, 2023

Áhugi og eftirspurn eftir íslenskum bókum er til staðar, jarðvegurinn er frjór. Með samstilltu átaki og öflugum stuðningi getum við aukið enn frekar veg íslenskra bókmennta um allan heim.

Afhending Bókmenntaverðlaunanna á Bessastöðum er punkturinn aftan við jólabókavertíðina hér á landi - en það er róið allt árið - ekki síst á erlend mið.

Íslenskir rithöfundar og verk þeirra njóta athygli um allan heim, höfundarnir eru eftirsóttir gestir á erlendum bókmenntahátíðum og verk þeirra eru þýdd á fjölda tungumála. Miðstöð íslenskra bókmennta hefur meðal annars það hlutverk að kynna íslenskar bókmenntir erlendis, til dæmis með þátttöku í bókamessum. Á undanförnum árum hefur Ísland verið í heiðurssæti á fjölbreytilegum bókmenntaviðburðum í Svíþjóð, Póllandi, Tékklandi, Frakklandi, Bretlandi og víðar.

Samhliða hefur hefur orðið veruleg aukning í útbreiðslu íslenskra bókmennta. Fjöldi þýðinga íslenskra bóka á erlend tungumál hefur nærri tvöfaldast þeim tíu árum sem liðin eru frá því Miðstöð íslenskra bókmennta tók til starfa.

Við sem störfum á þessum vettvangi finnum að áhugi erlendra útgefenda á íslenskum nútímabókmenntum er mikill og útgefendur hafa augun opin fyrir nýjum höfundum til viðbótar við þá sem þeir hafa þegar gefið út eða þekkja til.

Nú eru franska, enska og þýska þau tungumál sem standa uppúr þegar litið er til þýddra íslenskra bóka; á síðustu misserum hafa fleiri tugir titla verið þýddir á frönsku, ensku og þýsku og jafnt og þétt koma einnig út þýðingar á Norðurlandamálum, ítölsku, spænsku, pólsku og fleiri tungum.

Það er auðvitað ekki einföld skýring á vinsældum bókanna en meðal þess sem erlendir útgefendur og lesendur nefna að einkenni oft stíl íslenskra höfunda, er frásagnargleði, húmor og frumleiki.

Þýðing er forsenda þess að bók ferðist til annarra landa og getur reynst öflugur stökkpallur fyrir íslenskan höfund. Þar gegna þýðendurnir lykilhlutverki. Við þýðingu bókar stækkar lesendahópurinn svo um munar; á augabragði hafa milljónir lesenda aðgang að bókunum sem einungis íslenskumælandi gátu áður lesið.

Miðstöð íslenskra bókmennta leggur sig fram um að efla og styrkja tengslin við þýðendur á erlend tungumál og sjá til þess að þeim fjölgi sem leggja fyrir sig þýðingar. Í því skyni heldur Miðstöðin alþjóðleg þýðendaþing annað hvert ár hér á landi með áherslu á ákveðin málsvæði hverju sinni.

Við erum einstaklega heppin að hafa aðgang að framúrskarandi bókmenntaþýðendum sem þýða af alúð, innsæi og kunnáttu verk úr íslensku yfir á sín móðurmál.

Áhugi og eftirspurn eftir íslenskum bókum er til staðar, jarðvegurinn er frjór. Með samstilltu átaki og öflugum stuðningi getum við aukið enn frekar veg íslenskra bókmennta um allan heim.

Hrefna Haraldsdóttir

framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. janúar 2023


Allar fréttir

Auglýst eftir umsóknum um Nýræktarstyrki - 16. mars, 2023 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir árlega Nýræktarstyrki fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.

Nánar

Hjalti Pálsson hlýtur viðurkenningu Hagþenkis 2022 fyrir Byggðasögu Skagafjarðar I.-X. bindi - 16. mars, 2023 Fréttir

Hjalti Pálsson tók við viðurkenningu Hagþenkis 2022 þann 15. mars síðastliðinn fyrir verk sitt Byggðasaga Skagafjarðar, I.-X. bindi

Nánar

Auglýst eftir umsóknum um útgáfustyrki, þýðingastyrki á íslensku og styrki úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði - 15. febrúar, 2023 Fréttir

Styrkirnir eru veittir útgefendum á Íslandi og er umsóknarfrestur til 15. mars 2023. 

Nánar

Allar fréttir