Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár

Nanna Rögnvaldardóttir, rithöfundur og þýðandi, hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 4. september fyrir bókina Flóttinn á norðurhjarann. Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, afhenti henni verðlaunin við hátíðlega athöfn í Höfða.

4. september, 2025

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Alls bárust 71 handrit undir dulnefni í ár, og bar handrit Nönnu sigur úr býtum en það nefnist „Flóttinn á norðurhjarann“.

Verðlaunin eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók og er ætlað að hvetja til metnaðarfullra skrifa fyrir börn og ungmenni og halda á lofti merkjum eins okkar ástsælasta barnabókahöfundar. Verðlaunahandritið kemur út hjá Forlaginu í næsta mánuði, eins og segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Í athöfninni minntist borgarstjóri Guðrúnar Helgadóttur, sem lést árið 2022, og hennar mikilvæga framlags til barnabókmennta.

„Þessi viðurkenning er mér mjög dýrmæt, ekki aðeins vegna þess að ég þekkti Guðrúnu, kom að sumum bóka hennar á vinnslustigi og mat hana ætíð mikils, heldur einnig vegna þess að sagan gaf mér tækifæri til að fjalla um tímabil sem er mér afar hugleikið frá nýju sjónarhorni – séð með augum barns sem þarf að takast á við ótrúlega erfiðar aðstæður en upplifir líka gleði, spennu og ást. Aðalpersónan, Solla, var formóðir mín og það gerði söguna enn mikilvægari fyrir mér“, segir Nanna var afar ánægð með að hljóta þessa viðurkenningu fyrir sína fyrstu barnabók.

Nanna Rögnvaldardóttir hefur skrifað fjölda bóka um matargerð og matarsögu, auk skáldsagna. Nanna er jafnframt ötull þýðandi og starfaði lengi við bókaútgáfu hjá Iðunni og Forlaginu.

Flóttinn á norðurhjarann

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. En það sem gerir söguna sérstaka er að hún gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Í dómnefnd sátu: Þorgeir Ólafsson, Ragnheiður Gestsdóttir og Jónella Sigurjónsdóttir

Úr umsögn dómnefndar:

Á sjöunda tug handrita bárust í samkeppni Reykjavíkurborgar um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur að þessu sinni. Mörg þeirra voru mjög góð og dómnefnd átti úr vöndu að ráða, ekki síst vegna mikils fjölda handrita. Eftir endurtekinn lestur þeirra handrita sem þóttu skara fram úr varð það einróma álit dómnefndar að “Flóttinn á norðurhjarann” væri best og leggur því til að verkið og höfundur þess hljóti Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur að þessu sinni.

Sagan er vel skrifað á góðu máli sem ekki er fornlegt eða stirt þrátt fyrir að sagan gerist fyrir meira en tvö hundruð árum. Sögupersónur eru vel skapaðar og trúverðugar og við kynnumst þeim þegar sögunni vindur fram og þær þurfa að bregðast við margvíslegum raunum. Sagan er einnig spennandi því söguhetjurnar lenda stöðugt í nýjum aðstæðum sem reyna á þær.

Þrátt fyrir að Flóttinn á norðurhjarann gerist fyrir löngu síðan hefur sagan sterka samfélagslega tengingu við nútímann. Stúlkan og móðir hennar eru á flótta, það hafa orðið skelfilegar náttúruhamfarir og hungursneyð í kjölfar þeirra og það reynir á hvernig tekið er á móti flóttafólki. Sagan er engu að síður falleg og hugljúf á köflum og lýsir góðum og slæmum eiginleikum í fari fólks.

Dómnefndin telur að Flóttinn á norðurhjarann falli börnum frá 10 ára aldri vel í geð og veiti þeim lestraránægju auk þess að veita þeim innsýn í líf okkar hér á landi fyrr á tímum. Engin leið er jafn áhrifarík til að setja sig í spor annarra og sú að lifa sig inn í góða sögu og fátt hefur verið um sögulegar skáldsögur ætlaðar börnum og unglingum, sögur sem fá fortíðina til að lifna við.


Allar fréttir

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Ný stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta tekur við - 2. september, 2025 Fréttir

Hlutverk stjórnar Miðstöðvar íslenskra bókmennta er samkvæmt lögum að ákveða árlega skiptingu ráðstöfunarfjár á fjárlögum milli viðfangsefna hennar og bera ábyrgð á styrkveitingum. Hún gerir tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi Miðstöðvarinnar til þriggja ára. 

Nánar

Allar fréttir