Lestur landsmanna eykst og fólk á öllum aldri les meira núna en fyrir Covid-19

16. nóvember, 2020

Íslendingar lesa meira í ár af hefðbundnum bókum en í fyrra og hlusta meira á hljóðbækur. Konur lesa meira en karlar, en lestur eykst mest milli ára hjá körlum.

 • Mynd-4

Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við sex aðila á bókmenntasviðinu, gera könnun á viðhorfi Íslendinga til bóklestrar, áhrif Covid-19 á lestur og fleira. (Sjá spurningarnar neðst í fréttinni)

Líkt og í könnun sem gerð var árið 2019, heldur lestur áfram að aukast og þá sérstaklega notkun hljóðbóka. Konur lesa meira en karlar, en milli ára eykst lestur mest hjá körlum.

Covid-19 heimsfaraldurinn hefur samkvæmt könnuninni haft áhrif á lestrarvenjur landsmanna, ekki síst notkun hljóðbóka. Um 36% þeirra sem hlusta að jafnaði á hljóðbækur segjast hlusta meira núna en fyrir faraldurinn og um 18% þeirra sem lesa hefðbundnar bækur lesa meira nú en fyrir faraldurinn.

 • Meðalfjöldi lesinna bóka var 2,5 bækur á mánuði í samanburði við 2,3 bækur að meðaltali í lestrarkönnun í fyrra.
 • Hlustun á hljóðbækur er meiri nú en í könnun frá fyrra ári.
 • Svarendur með tvö eða fleiri börn á heimili lásu fleiri bækur en þeir sem ekki eru með börn á heimilinu og sami hópur notar mest bókasöfn.
 • Heldur fleiri lesa nú eingöngu eða oftar á íslensku en öðrum tungumálum miðað við könnun fyrra árs. 
 • Og um 80% svarenda telur mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.
 • Aldurshópurinn 18 til 35 ára les oftar en aðrir aldurshópar á öðru tungumáli en íslensku.
 • Mikill meirihluti þjóðarinnar eða um 76% svarenda telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi.
 • Yfir helmingur svarenda fær hugmyndir að lesefni úr auglýsingum, umfjöllun í fjölmiðlum og frá vinum og ættingjum.
 • Um helmingur landsmanna nýtir sér þjónustu bókasafna.
 • 18% þeirra sem lesa hefðbundnar bækur, lesa meira núna en fyrir Covid-19 og 36% þeirra sem nota hljóðbækur hlusta meira núna en fyrir Covid-19.

Konur og barnafjölskyldur lesa mest

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar höfðu um 72% svarenda lesið eða hlustað á bók/bækur á síðastliðnum 30 dögum, samanborið við 66% í fyrra.

Meðalfjöldi lesinna bóka á mánuði var 2,5 bækur í samanburði við 2,3 bækur að meðaltali í lestrarkönnun í fyrra og 2 bækur að meðaltali í lestrarkönnun fyrir tveimur árum.

Konur lesa fleiri bækur en karlar, eða að jafnaði 3,1 bók og karlar 1,9 bók á mánuði. Lestur karla hefur þó aukist milli ára á meðan lestur kvenna hefur staðið í stað. Um 78% kvenna höfðu lesið eða hlustað á bók/bækur en 65% karla höfðu lesið eða hlustað á bók/bækur síðastliðna 30 daga.

Mynd-1_1605278464334

Mynd 1. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu margar bækur hefur þú lesið eða hlustað á síðastliðna 30 daga?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

Ekki var marktækur munur milli aldurshópa þegar kemur að bóklestri. Þeir sem lokið höfðu framhaldsnámi í háskóla höfðu lesið fleiri bækur en aðrir.

Svarendur með þrjú eða fleiri börn á heimili höfðu lesið fleiri bækur en þeir sem ekki eru með börn á heimilinu. Ekki var marktækur munur eftir búsetu, tekjum eða stöðu á vinnumarkaði.

Hlustun á hljóðbækur eykst milli ára

Um 83% Íslendinga höfðu lesið hefðbundnar bækur á síðustu 12 mánuðum, um 49% hlustað á hljóðbækur og um 31% lesið rafbækur.

Lestur hefðbundinna bóka er meiri í ár en í könnuninni frá 2019, en þá höfðu 80% svarenda lesið hefðbundna bók á síðastliðnum 12 mánuðum í samanburði við 83% í ár.

Hlustun á hljóðbækur var hins vegar marktækt meiri nú en í könnun frá í fyrra, en þá höfðu 41% hlustað á hljóðbók á síðastliðnum 12 mánuðum í samanburði við 45% í ár.

Mynd-2_1605278464301

Mynd 2. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á síðastliðnum 12 mánuðum? -Hefðbundnar bækur (innbundnar og kiljur), hljóðbækur og rafbækur.” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

Marktækur munur var á lestri hefðbundinna bóka eftir aldurshópum og höfðu 65 ára og eldri lesið hefðbundnar bækur oftar en þeir sem yngri eru. Þeir sem höfðu lokið grunnnámi og framhaldsnámi í háskóla lásu oftar hefðbundnar bækur en aðrir.

Ekki var marktækur munur á lestri á rafbókum á milli lestrarkannana í ár og síðustu tvö ár.

Les þjóðin á íslensku eða öðru tungumáli?

Um 62% landsmanna les einungis eða oftar á íslensku en öðru tungumáli og hefur hlutfallið lítið breyst frá síðasta ári. Um 18% les jafnoft á íslensku og öðru tungumáli, 16% lesa oftar á öðru máli en íslensku og 2% lesa einungis á öðru tungumáli.

Mynd-3_1605281273957

Mynd 3. Niðurstöður fyrir spurninguna Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

Aldurshópurinn 18 til 35 ára les marktækt oftar á öðru tungumáli en íslensku, en aðrir aldurshópar, meðan lesendur yfir 65 ára er fjölmennasti hópurinn sem les fremur á íslensku en öðru tungumáli.

Ekki er marktækur munur á milli karla og kvenna. Íbúar landsbyggðarinnar lesa frekar á íslensku en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu og þeir sem eru á eftirlaunum frekar en aðrir hópar.

Mikilvægi þess að bókmenntir njóti opinbers stuðnings

Meirihlutinn, eða um 73% svarenda, telja það mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi. Ekki er marktækur munur á niðurstöðunum nú og í fyrra.

Konur telja opinberan stuðning mikilvægari en karlar, en ekki var marktækur munur eftir aldurshópum. Þeim sem höfðu lokið námi í háskóla þótti það mikilvægara en öðrum menntunarhópum.

Mynd-4_1605281318316

Mynd 4. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.


Covid-19 og áhrif á lestrarvenjur

Covid-19 heimsfaraldurinn hefur samkvæmt könnuninni haft áhrif á lestrarvenjur landsmanna, ekki síst notkun hljóðbóka. Um 36% þeirra sem hlusta að jafnaði á hljóðbækur segjast hlusta meira núna en fyrir faraldurinn og um 18% þeirra sem lesa hefðbundnar bækur lesa meira nú en fyrir faraldurinn.
Heimsfaraldurinn virðist hins vegar ekki hafa mikil áhrif á bókakaup, en 78% þátttakenda segja að þau kaupi nokkurn veginn jafn margar bækur og áður, 16% kaupa færri og 6% segjast kaupa fleiri bækur.

Eftirtaldar spurningar voru lagðar fyrir þátttakendur í könnuninni:

1. Hversu margar bækur hefur þú lesið og/eða hlustað á síðastliðna 30 daga?
2. Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á síðastliðnum 12 mánuðum?
3. Lest þú meira eða minna hefðbundnar bækur (innbundnar og kiljur) núna en fyrir Covid-19?
4. Hlustar þú meira eða minna á hljóðbækur núna en fyrir Covid-19?
5. Lest þú meira eða minna af rafbókum núna en fyrir Covid-19?
6. Kaupir þú fleiri eða færri hefðbundnar bækur núna en fyrir Covid-19?
7. Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?
8. Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna (heimsóknir og rafræna þjónustu) á Íslandi á síðastliðnum 12 mánuðum?
9. Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: „Það er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.“
10. Hvar færð þú helst hugmyndir að lesefni?
11. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?

Miðstöð íslenskra bókmennta lét gera könnunina í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn - Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands.

Zenter rannsóknir framkvæmdi könnunina og hún fór fram dagana 6. til 11. nóvember 2020. Úrtak: 2.200 (einstaklingar 18 ára og eldri). Svarendur: 1101. Svarhlutfall: 51%

Hér má lesa heildarniðurstöður lestrarkönnunarinnar.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 28. júní, 2024 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð vegna sumarleyfa frá 1. júlí til 1. ágúst.

Nánar

Íslenskar bókmenntir gera það gott í Danmörku - 19. júní, 2024 Fréttir

Verk eftir Sigríðu Hagalín Björnsdóttur, Gyrði Elíasson, Hallgrím Helgason, Einar Má Guðmundsson og fleiri eru nýkomin út í Danmörku.

Nánar

Íslenskar bækur á fjölda erlendra tungumála eru aðgengilegar í Þjóðarbókhlöðunni - 21. júní, 2024 Fréttir

Hægt er að finna allar þýðingar íslenskra verka á erlendar tungur í ítarlegri þýðingaskrá Landsbókasafnsins. 

Nánar

Allar fréttir