Lestur landsmanna eykst og fólk á öllum aldri les meira núna en fyrir Covid-19

16. nóvember, 2020

Íslendingar lesa meira í ár af hefðbundnum bókum en í fyrra og hlusta meira á hljóðbækur. Konur lesa meira en karlar, en lestur eykst mest milli ára hjá körlum.

  • Mynd-4

Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við sex aðila á bókmenntasviðinu, gera könnun á viðhorfi Íslendinga til bóklestrar, áhrif Covid-19 á lestur og fleira. (Sjá spurningarnar neðst í fréttinni)

Líkt og í könnun sem gerð var árið 2019, heldur lestur áfram að aukast og þá sérstaklega notkun hljóðbóka. Konur lesa meira en karlar, en milli ára eykst lestur mest hjá körlum.

Covid-19 heimsfaraldurinn hefur samkvæmt könnuninni haft áhrif á lestrarvenjur landsmanna, ekki síst notkun hljóðbóka. Um 36% þeirra sem hlusta að jafnaði á hljóðbækur segjast hlusta meira núna en fyrir faraldurinn og um 18% þeirra sem lesa hefðbundnar bækur lesa meira nú en fyrir faraldurinn.

  • Meðalfjöldi lesinna bóka var 2,5 bækur á mánuði í samanburði við 2,3 bækur að meðaltali í lestrarkönnun í fyrra.
  • Hlustun á hljóðbækur er meiri nú en í könnun frá fyrra ári.
  • Svarendur með tvö eða fleiri börn á heimili lásu fleiri bækur en þeir sem ekki eru með börn á heimilinu og sami hópur notar mest bókasöfn.
  • Heldur fleiri lesa nú eingöngu eða oftar á íslensku en öðrum tungumálum miðað við könnun fyrra árs. 
  • Og um 80% svarenda telur mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.
  • Aldurshópurinn 18 til 35 ára les oftar en aðrir aldurshópar á öðru tungumáli en íslensku.
  • Mikill meirihluti þjóðarinnar eða um 76% svarenda telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi.
  • Yfir helmingur svarenda fær hugmyndir að lesefni úr auglýsingum, umfjöllun í fjölmiðlum og frá vinum og ættingjum.
  • Um helmingur landsmanna nýtir sér þjónustu bókasafna.
  • 18% þeirra sem lesa hefðbundnar bækur, lesa meira núna en fyrir Covid-19 og 36% þeirra sem nota hljóðbækur hlusta meira núna en fyrir Covid-19.

Konur og barnafjölskyldur lesa mest

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar höfðu um 72% svarenda lesið eða hlustað á bók/bækur á síðastliðnum 30 dögum, samanborið við 66% í fyrra.

Meðalfjöldi lesinna bóka á mánuði var 2,5 bækur í samanburði við 2,3 bækur að meðaltali í lestrarkönnun í fyrra og 2 bækur að meðaltali í lestrarkönnun fyrir tveimur árum.

Konur lesa fleiri bækur en karlar, eða að jafnaði 3,1 bók og karlar 1,9 bók á mánuði. Lestur karla hefur þó aukist milli ára á meðan lestur kvenna hefur staðið í stað. Um 78% kvenna höfðu lesið eða hlustað á bók/bækur en 65% karla höfðu lesið eða hlustað á bók/bækur síðastliðna 30 daga.

Mynd-1_1605278464334

Mynd 1. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu margar bækur hefur þú lesið eða hlustað á síðastliðna 30 daga?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

Ekki var marktækur munur milli aldurshópa þegar kemur að bóklestri. Þeir sem lokið höfðu framhaldsnámi í háskóla höfðu lesið fleiri bækur en aðrir.

Svarendur með þrjú eða fleiri börn á heimili höfðu lesið fleiri bækur en þeir sem ekki eru með börn á heimilinu. Ekki var marktækur munur eftir búsetu, tekjum eða stöðu á vinnumarkaði.

Hlustun á hljóðbækur eykst milli ára

Um 83% Íslendinga höfðu lesið hefðbundnar bækur á síðustu 12 mánuðum, um 49% hlustað á hljóðbækur og um 31% lesið rafbækur.

Lestur hefðbundinna bóka er meiri í ár en í könnuninni frá 2019, en þá höfðu 80% svarenda lesið hefðbundna bók á síðastliðnum 12 mánuðum í samanburði við 83% í ár.

Hlustun á hljóðbækur var hins vegar marktækt meiri nú en í könnun frá í fyrra, en þá höfðu 41% hlustað á hljóðbók á síðastliðnum 12 mánuðum í samanburði við 45% í ár.

Mynd-2_1605278464301

Mynd 2. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á síðastliðnum 12 mánuðum? -Hefðbundnar bækur (innbundnar og kiljur), hljóðbækur og rafbækur.” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

Marktækur munur var á lestri hefðbundinna bóka eftir aldurshópum og höfðu 65 ára og eldri lesið hefðbundnar bækur oftar en þeir sem yngri eru. Þeir sem höfðu lokið grunnnámi og framhaldsnámi í háskóla lásu oftar hefðbundnar bækur en aðrir.

Ekki var marktækur munur á lestri á rafbókum á milli lestrarkannana í ár og síðustu tvö ár.

Les þjóðin á íslensku eða öðru tungumáli?

Um 62% landsmanna les einungis eða oftar á íslensku en öðru tungumáli og hefur hlutfallið lítið breyst frá síðasta ári. Um 18% les jafnoft á íslensku og öðru tungumáli, 16% lesa oftar á öðru máli en íslensku og 2% lesa einungis á öðru tungumáli.

Mynd-3_1605281273957

Mynd 3. Niðurstöður fyrir spurninguna Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

Aldurshópurinn 18 til 35 ára les marktækt oftar á öðru tungumáli en íslensku, en aðrir aldurshópar, meðan lesendur yfir 65 ára er fjölmennasti hópurinn sem les fremur á íslensku en öðru tungumáli.

Ekki er marktækur munur á milli karla og kvenna. Íbúar landsbyggðarinnar lesa frekar á íslensku en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu og þeir sem eru á eftirlaunum frekar en aðrir hópar.

Mikilvægi þess að bókmenntir njóti opinbers stuðnings

Meirihlutinn, eða um 73% svarenda, telja það mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi. Ekki er marktækur munur á niðurstöðunum nú og í fyrra.

Konur telja opinberan stuðning mikilvægari en karlar, en ekki var marktækur munur eftir aldurshópum. Þeim sem höfðu lokið námi í háskóla þótti það mikilvægara en öðrum menntunarhópum.

Mynd-4_1605281318316

Mynd 4. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.


Covid-19 og áhrif á lestrarvenjur

Covid-19 heimsfaraldurinn hefur samkvæmt könnuninni haft áhrif á lestrarvenjur landsmanna, ekki síst notkun hljóðbóka. Um 36% þeirra sem hlusta að jafnaði á hljóðbækur segjast hlusta meira núna en fyrir faraldurinn og um 18% þeirra sem lesa hefðbundnar bækur lesa meira nú en fyrir faraldurinn.
Heimsfaraldurinn virðist hins vegar ekki hafa mikil áhrif á bókakaup, en 78% þátttakenda segja að þau kaupi nokkurn veginn jafn margar bækur og áður, 16% kaupa færri og 6% segjast kaupa fleiri bækur.

Eftirtaldar spurningar voru lagðar fyrir þátttakendur í könnuninni:

1. Hversu margar bækur hefur þú lesið og/eða hlustað á síðastliðna 30 daga?
2. Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á síðastliðnum 12 mánuðum?
3. Lest þú meira eða minna hefðbundnar bækur (innbundnar og kiljur) núna en fyrir Covid-19?
4. Hlustar þú meira eða minna á hljóðbækur núna en fyrir Covid-19?
5. Lest þú meira eða minna af rafbókum núna en fyrir Covid-19?
6. Kaupir þú fleiri eða færri hefðbundnar bækur núna en fyrir Covid-19?
7. Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?
8. Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna (heimsóknir og rafræna þjónustu) á Íslandi á síðastliðnum 12 mánuðum?
9. Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: „Það er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.“
10. Hvar færð þú helst hugmyndir að lesefni?
11. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?

Miðstöð íslenskra bókmennta lét gera könnunina í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn - Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands.

Zenter rannsóknir framkvæmdi könnunina og hún fór fram dagana 6. til 11. nóvember 2020. Úrtak: 2.200 (einstaklingar 18 ára og eldri). Svarendur: 1101. Svarhlutfall: 51%

Hér má lesa heildarniðurstöður lestrarkönnunarinnar.


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efnir til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

52 styrkir veittir til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál í fyrri úthlutun ársins - 18. mars, 2025 Fréttir

Meðal verka sem nú rata til nýrra lesenda eru Meðan glerið sefur eftir Gyrði Elíasson, DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur, Vigdís: Bókin um fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygenring og Sextíu kíló af sunnudögum eftir Hallgrím Helgason.

Nánar

Allar fréttir