Metfjöldi umsókna um styrki til þýðinga á erlend mál

Á árinu 2020 bárust 147 umsóknir til þýðinga íslenskra verka á erlend mál og hafa þær aldrei verið fleiri.

4. nóvember, 2020

Mikill áhugi er á íslenskum bókmenntum erlendis eins og sjá má á miklum fjölda umsókna um þýðingastyrki til Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem veitir styrki til 111 þýðinga úr íslensku á 28 tungumál. 147 umsóknir bárust á árinu öllu og er þetta metfjöldi umsókna um styrki til erlendra þýðinga hjá Miðstöðinni.

Stjórn Miðstöðar íslenskra bókmennta úthlutaði styrkjum til þýðinga íslenskra verka á erlend mál fyrir tæpar 24 milljónir króna árið 2020.

Umsóknir voru 147 talsins, þar af 31 til þýðinga á norræn mál. Veittir voru styrkir til 111 þýðinga á 28 tungumál, flestir til þýðinga á dönsku (13), ensku (9), þýsku (8) og frönsku (7).

Til samanburðar má geta þess að næstmesti fjöldi umsókna til þýðinga á erlend mál var árið 2017 en þá voru umsóknir 119 alls, þar af 21 til þýðinga á norræn mál.

Þessa aukningu má að hluta til rekja til norræns átaks sem blásið var til í kjölfar heimsfaraldursins en einnig má sjá greinilegan og sífellt meiri áhuga á íslenskum bókmenntum erlendis á síðustu misserum.

Norrænar bókmenntamiðstöðvarnar taka höndum saman á tímum kórónuveirunnar

Vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar tóku norrænu bókmenntamiðstöðvarnar, NordLit, höndum saman og mótuðu sameiginlega stefnu sem miðaði að því að þýðingastyrkir á árinu 2020 yrðu 50% af þýðingakostnaði. Þetta var gert til að hvetja útgefendur um allan heim til áframhaldandi þýðinga og útgáfu á norrænum skáldskap, fræðiritum, bókum almenns efnis og barna- og ungmennabókum og bregðast þannig við áhrifum ástandsins á bókaútgáfu og störf höfunda og þýðenda.

Það er skemmst frá því að segja að átakið tókst vel og metfjöldi umsókna barst öllum norrænu bókmenntamiðstöðvunum á síðari hluta ársins.

Meðal verka sem hlutu þýðingastyrk

Flestir þýðingastyrkir í ár eru vegna þýðinga á dönsku, alls þrettán, og má þar nefna verkin Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason í þýðingu Nönnu Kalkar (útg. Klim) og Kláði eftir Fríðu Ísberg í þýðingu Kim Lembek (útg. Forlaget Torgard). 

Næst flestar þýðingar eru á ensku, eða níu, og meðal þeirra eru Sálumessa eftir Gerði Kristnýju í þýðingu Rory McTurk (útg. Arc Publications) og Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur í þýðingu Quentin Bates (útg. Corlylus Books). 

Átta þýðingar á þýsku fengu styrk og þar á meðal eru Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur í þýðingu Tinu Flecken (útg. Insel verlag) og Sagnalandið – landið mitt eftir Halldór Guðmundsson í þýðingu Kristof Magnusson (útg. Verlagshaus Römerweg GmbH).

Sjö þýðingar á frönsku hlutu styrk og meðal þeirra eru Tvöfalt gler eftir Halldóru Thoroddsen í þýðingu Jean-Christoph Salaün (útg. Les Éditions Bleu & Jaune) og Korngult hár, grá augu eftir Sjón í þýðingu Eric Boury (útg. Editions Métailié). 

Það má geta þess að sú bók sem flestir sóttu um þýðingastyrk fyrir er Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ. Á árinu voru veittir 14 þýðingastyrkir vegna bókarinnar, svo bráðlega verður hún aðgengileg á arabísku, dönsku, eistnesku, finnsku, frönsku, ítölsku, kóresku, króatísku, norsku, pólsku, sænsku, spænsku, tékknesku og þýsku en hún hefur verið þýdd á rúmlega 20 tungumál.

Hér má sjá heildarúthlutanir Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2020 til þýðinga á erlend mál og norræn mál.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir