„Mig langaði til að opna þennan heim fyrir samlöndum mínum.“

„Við eigum ekki öll þessi orð sem ná yfir hverja þúfu og hvert strá. Eins er það með ákveðnar líkamlegar hreyfingar og athafnir á borð við sagnirnar að rumska og að smjatta og fleira skemmtilegt sem við eigum engin orð yfir.“

12. febrúar, 2020

Silvia Cosimini hefur þýtt yfir 70 íslenskar bækur á ítölsku, allt frá fornsögum til nútímabókmennta, en hún segir í spjalli við Magnús Guðmundsson að allt hafi þetta byrjað því hún var rétt manneskja á réttum tíma.

  • Silvia-cosimini_1581000041521

Heimur sem heillaði

Ég var rétt um tvítugt að læra ensku og þýsku við háskólann í Flórens þegar það kom upp að ég átti að taka próf í samanburðarmálfræði í germönskum málum. Til undirbúnings lásum við Hallfreðarsögu og við það opnaðist fyrir mér nýr og spennandi heimur. Veröld sem ég hafði ekki sinni vitað að væri til. Þetta var bókmenntaheimur sem heillaði mig samstundis. Þarna var ég skyndilega með í höndunum prósa án höfundar og þetta var allt öðruvísi en þær miðaldabókmenntir sem ég þekkti og eru frá sama tíma. Mér fannst algjörlega fáránlegt að mörg okkar höfðu ekki einu sinni hugmynd um að þetta væri til.“

Silvia segir að hugmyndin að því að gerast þýðandi hafi ekki verið komin til hennar á þessum tíma, eiginlega alls ekki, eins og hún orðar það sjálf. „Þessi áhugi minn á íslenskum miðaldabókmenntum varð að ákveðnu leiðarstefi í mínu námi og ég skrifaði mína lokaritgerð um forníslensku. Þar lagði ég áherslu á samskipti á milli Íslands og Írlands á miðöldum og á þessum tíma ætlaði ég mér að verða norrænufræðingur.“

Engin miskunn í Árnastofnun

Silvia einsetti sér að fara í doktorsnám og fékk styrk frá háskólanum í Flórens til þess að fara til útlanda og stunda rannsóknir og fræði innan greinarinnar. „Þannig að ég fór til Íslands, kom til Reykjavíkur og fékk borð í Árnastofnun. Það var æðislegt.

Þetta var í nóvember árið 1992 og ég man að það var mikill snjór. Allt var þetta óskaplega framandi og reyndar var Reykjavík skelfing ömurleg á þessum tíma, ólíkt því sem borgin er í dag. En að fá að sitja inni í Árnastofnun var fyrir mig sem var að rannsaka þetta efni algjörlega toppurinn. Það var ekki hægt að komast lengra í þessum fræðum en að fá að vera þarna í hjarta greinarinnar. Allir prófessorarnir sem ég hafði vísað til í ritgerðinni minni sátu þarna í sama húsi og ég mætti þeim á göngunum. Það var sérstök tilfinning.“

Silvia-mynd2

Þagði mikið fyrsta árið

Silvia segir að hún hafi strax áttað sig á því að hún þyrfti að læra nútímaíslensku fyrst hún hafði fengið þetta tækifæri. „Það var líka vegna þess að þeir í Árnastofnun voru mjög strangir kennarar og gáfu mér ekki nokkurn afslátt, sem var auðvitað mjög gott þegar upp var staðið. Þarna var bara töluð við mig íslenska, svo ég var frekar feimin við það að tjá mig og þagði mikið fyrsta árið. Ég er afskaplega þakklát fyrir þetta í dag en núna þegar ég kem til Íslands er alltaf verið að tala við mig ensku.

Ég var fjögur ár í Reykjavík og að því loknu þá útskrifaðist ég líka úr íslensku fyrir erlenda stúdenta og þessi tími minn á Íslandi reyndist svo verða grunnurinn að mínu ævistarfi.“

Rétt manneskja á réttum tíma

Það var á þessum tíma sem þýðingar á íslenskum textum fóru að koma inn í myndina hjá Silviu en lokaritgerðin hennar var þýðing á Kormáks sögu yfir á ítölsku. „Hún er þó enn ekki komin út en ég er að vinna að því að gera það að veruleika.

Langaði að opna þennan heim samlöndum mínum

Ég útskrifaðist 1996 og þegar ég var í námi komst ég að því að það eru ekki aðeins til fornbókmenntir heldur líka nútímabókmenntir sem við á Ítalíu vitum ekkert um. Það var lítið sem ekkert þýtt af íslenskum bókmenntum yfir á ítölsku á þessum tíma og mig langaði til þess að opna þennan heim fyrir samlöndum mínum. Mér fannst svo mikil synd að við gátum lítið sem ekkert lesið af íslenskum bókmenntum því það var ekkert til nema eitthvað af Laxness eftir að hann fékk Nóbelinn og svo rámar mig í eina bók eftir Einar Má.

Svo ég settist niður og byrjaði að skrifa útgefendum á Ítalíu tillögur að íslenskum verkum sem væri tilvalið fyrir þá að gefa út. Þannig gekk þetta í ein tvö ár en á sama tíma byrjaði skandinavíska bylgjan að blómstra hér á Ítalíu. Hún hafði byrjað með verkum á borð við Lesið í snjóinn eftir danska rithöfundinn Peter Høeg. Þannig að það kom að því að ég var rétt manneskja á réttum tíma.”

Hjólað í ítölsku mömmuímyndina

Silvia segir að þegar hún hafi byrjað að þýða íslenskar bókmenntir hafi hún farið eftir ýmsu. 

Ég valdi verk sem mér fannst vera hvað mest framandi en líka bæði skemmtilegt og áhugavert. Ég byrjaði á að þýða smásagnasafn eftir Svövu Jakobsdóttur vegna þess að ég féll strax fyrir henni sem höfundi. Á Ítalíu höfðum við aldrei áður séð neitt í líkingu við Sögu handa börnum.

„Í okkar samfélagi er móðirin algjörlega ósnertanleg. Hún er heilög fígúra í okkar kaþólska samfélagi. Þess vegna fannst mér tilvalið að þýða Sögu handa börnum þar sem gróteskan og absúrdisminn hjá Svövu hjóla í þessa ímynd og velta þessum hugmyndum okkar af stalli.“

Þegar Silvia las 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason, fannst henni tilvalið að hafa samband við ítalska útgefandann á Trainspotting eftir Irvine Welsh. „Mér datt í hug að það væri snjallt að fara með hana þangað og það gekk eftir. Ég var nýbyrjuð að þýða þegar ég tókst á við 101 Reykjavík en mér finnst þó að mér hafi samt tekist vel til og það ánægjulega var að bókin sló í gegn.”

Þýtt um sjötíu íslenskar bækur

Smásagnasafnið eftir Svövu kom út á ítölsku árið 1999 og 101 Reykjavík tveimur árum síðar. Á þessum tíma var Silvia starfandi hjá útgáfufyrirtæki á Ítalíu. „Þar var ég reyndar mest að vinna með ensku og þýsku en íslenskan beið mín heima. Ég var að reyna að fást við þýðingar á íslenskum bókmenntum á kvöldin og um helgar, auk þess að vera líka að kenna ensku í framhaldsskóla. En eftir að hafa unnið svona í nokkur ár þá tók ég stóra skrefið, ætli að það hafi ekki verið 2005 eða 2006, hætti í þessum störfum og gerðist þýðandi í fullu starfi.”

Silvia hefur þýtt samtals um 70 verk úr íslensku á ítölsku og er jafnvíg á ólíkar bókmenntategundir. Meðal íslenskra höfunda sem hún hefur þýtt verk eftir má nefna: Hallgrím Pétursson, Halldór Laxness, Guðberg Bergsson, Sjón, Arnald Indriðason og Jón Kalman. Hún segir að vissulega séu bækur miserfiðar og til að mynda hafi Hallgrímur Pétursson reynt mikið á. „Þetta var fyrsta bókin sem ég þýddi og við vorum tvö saman í þessu. En ég vinn mikið og alfarið úr íslensku en er vissulega ekki sú eina á Ítalíu sem er að þýða íslenskar bókmenntir. Alessandro Storti er að þýða úr íslensku en líka úr sænsku og norsku þannig að hann kemst ekki yfir eins mikið. Svo má líka nefna Stefano Rosatti sem er búsettur á Íslandi og þýðir Auði Övu. Þannig að þetta tínist til.”

Reynir að hafa áhrif á útgefendur

Aðspurð um hvort hún hafi eitthvað að segja um hvaða bækur hún taki til við að þýða eða hvort það sé alfarið í höndu útgefenda, segir Silvia að það sé beggja blands. „Stundum er það þannig að útgefendur kaupa bækur á bókamessu án þess að vita hvað stendur í þeim. Það er fáránlegt,” bætir Silvia við og hlær.

„En þeir fá líka styrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta og það hjálpar mikið til við að koma íslenskum bókmenntum á framfæri því það léttir undir með kostnaðinum af þýðingunni.”

Hlusta alltaf á Rás eitt

Silvia segir að hún komi til Íslands á hverju ári sem hjálpi henni mikið við að fylgjast með því helsta sem er að gerast. „Auk þess hef ég þann háttinn á, þegar ég er heima að vinna, að hlusta alltaf á Rás eitt. Þar er heilmikið fjallað um bækur og íslenskar bókmenntir og það heldur mér inni í því sem er efst á baugi hverju sinni og það gerir það að verkum að ég fæ stundum að taka þátt í því að velja hvaða verk eru valin til þýðingar. En samt er eins og ákveðnir, ljómandi skemmtilegir höfundar sem ég hef gaman af eigi bara ekki upp á pallborðið hjá ítölskum útgefendum. Þannig er það til að mynda með bækur Braga Ólafssonar og núna er ítalski útgefandi Guðrúnar Evu hættur og það finnst mér alveg synd. Mér finnst Guðrún Eva alveg æðisleg og það er enginn höfundur á Íslandi í dag sem skrifar eins og hún.”

Þætti sérstaklega gaman að þýða bækur eldri kynslóða

Það leynir sér ekki að Silvia á sína uppáhalds íslenska höfunda og eru þeir af ýmsum kynslóðum og báðum kynjum. Hún hefur reyndar á orði að henni þætti sérstaklega gaman að þýða bækur eldri kynslóða. „Mig langar til þess að gera meira af því, ekki síst vegna þess að mér finnst að okkur vanti fullkomnari þekkingu á bókmenntum frá 20. öld umfram Laxness. Þar má nefna höfunda á borð við Indriða G. Þorsteinsson, Ástu Sigurðardóttur, Guðberg Bergsson, Jakobínu Sigurðardóttir og fleiri, jafnvel Guðrúnu frá Lundi. Ég held að það myndi hjálpa að skilja hvað gerðist í íslensku samfélagi í kringum seinni heimsstyrjöldina ef það væri meira lagt í að bæði þýða og rannsaka þessa höfunda.”

Meiri frásagnargleði í verkum íslenskra höfunda 

Um hvort íslenskir höfundar segi sögur með allt öðrum hætti en ítalskir, segir Silvia að það sé ákveðinn munur á þessu tvennu. „Það er á einhvern hátt meiri frásagnargleði í verkum íslenskra höfunda og það er líka meira frelsi í byggingu. Það einhvern veginn má miklu meira.”

Svo er líka ákveðinn munur á efnistökum sem sjást til að mynda á því að íslenskir höfundar eru alltaf að lýsa veðurfarinu og það er líka oft mun meira um landslagslýsingar. Þetta er framandi fyrir Ítali og í þessu eru oft fólgin barátta manns og náttúru og það er ekki lengur til staðar í ítölskum bókmenntum.

Ítalir hvorki rumska né smjatta

Silvia segir að það geti því reynst ansi snúið að þýða allar þessar veður- og náttúrulýsingar yfir á ítölsku. „Okkur einfaldlega vantar orð. Við eigum ekki öll þessi orð sem ná yfir hverja þúfu og hvert strá. Eins er það með ákveðnar líkamlegar hreyfingar og athafnir á borð við sagnirnar að rumska og að smjatta og fleira skemmtilegt sem við eigum engin orð yfir og þá þarf helst að bæta við lýsingarorði til þess að útskýra athöfnina til fulls.”

Silvia bendir á að oft komi því eilítið á óvart hvaða bækur reynist snúnar. „Ég er til að mynda nýbúin að þýða Tvöfalt gler eftir Halldóru Thoroddsen en hún varð sífellt snúnari eftir því sem á leið. Þannig var það líka með Mánastein eftir Sjón því það kom mér svo skemmtilega á óvart allt þetta bíólíf í Reykjavík á þessum tíma. Leitin að svarta víkingnum, eftir Bergsvein Birgisson var líka afskaplega skemmtilegt verkefni vegna þess að þar fékk ég að takast á við það efni sem ég lærði á sínum tíma. Þetta var erfitt en ég var hreinlega komin heim engu að síður.”

Dýrmæt hvatning

Á síðasta ári hlaut Silvia Cosimini Orðstír, heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á erlend mál, ásamt John Swedenmark frá Svíþjóð. Þegar haft er orð á þessari upphefð leynir sér ekki hvað hún gladdi Silviu mikið. „Þetta er mikill heiður og það eru margir þýðendur í heiminum sem eiga þetta skilið. Þetta var mjög góð tilfinning en ég má til með að hafa á orði að þetta er einmitt svo lýsandi fyrir það hversu meðvitaðir Íslendingar eru um mikilvægi þýðinga. Hvað þýðendur eru í raun mikilvægir fyrir bókmenntir smáþjóða. Þetta birtist líka í þýðendaþinginu sem Miðstöð íslenskra bókmennta stendur fyrir því þar gefst okkur kostur á að kynnast og bera saman bækur okkar. Það er afskaplega dýrmætt.”

Aðspurð um það hvernig búið sé að þýðendum á Ítalíu segir Silvia að staðan sé í raun ekki góð. „Það er hefur eiginlega alltaf verið litið á okkur sem hálfgerða vinnuþræla en þetta er aðeins að breytast. Við erum nýbúin að stofna með okkur stéttarfélag til þess að reyna að bæta kaup okkar og kjör. Eins og staðan er þá sel ég mína þýðingu til útgefandans og hann á allan rétt í 20 ár. Það er allt of langur tími þar sem hann getur farið með þetta eins og honum sýnist. En þetta er erfitt eins og alltaf og því er mér dýrmætt að fá hvatningu á borð við þá sem ég fékk frá Íslandi.”

Silvia segir að hún sé þessa dagana að vinna að þýðingu á bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið, en hún telur að bókin sé gott dæmi um verk með brýnt erindi. „Ég lít svo á að það sé mikilvægt að bók sem þessi, sem fjallar um loftlagsvána, komi frá Íslandi. Komi frá landi sem stendur frammi fyrir þessu í fyrstu persónu og það sýnir okkur að íslenskar bókmenntir skipta svo sannarlega máli.”


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir