Mikil fjölbreytni í styrkúthlutunum til þýðinga á íslenskum bókmenntum

50 styrkir voru veittir til erlendra þýðinga á íslenskum bókmenntum að upphæð 8.242.000 kr.

9. nóvember, 2021

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti nýlega 50 styrki til erlendra þýðinga á íslenskum bókmenntum. Styrkumsóknir berast víðsvegar að og er nú veitt til þýðinga á t.d. ensku, rússnesku, frönsku, japönsku, finnsku, norsku, slóvösku og spænsku en alls eru veittir styrkir til þýðinga á 24 tungumál til fjölbreytts úrvals bóka; fagurbókmennta, ljóða, glæpasagna, barnabókmennta og fleira.

Mikla fjölbreytni má sjá í styrkumsóknum og má þar finna alla flóru íslenskra bókmennta; fagurbókmenntir, ljóð, glæpasögur, barnabókmenntir, smásögur og fornsögur.

Glæpasögur eru fyrirferðarmiklar að vanda en það eru 14 styrkir sem eru veittir til þýðinga á íslenskum glæpasögum eftir höfunda á borð við Lilju Sigurðardóttur, Yrsu Sigurðardóttur og Ragnar Jónasson.

Sex styrkir eru veittir til þýðinga á rússnesku á verkum eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Sjón, Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarkadóttur, Hallgrím Helgason og Auði Övu Ólafsdóttur.

Íslenskar barnabækur hafa gert mikla lukku erlendis en nú er von á þremur barnabókum í erlendum þýðingum, Stór skrímsli gráta ekki eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Giiettler og Rakel Helmsdal á japönsku, Fíasól gefst aldrei upp eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur á rússnesku, og Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarkadóttur á rússnesku.

Bók Andra Snæs, Um tímann og vatnið hefur hlotið mikla útbreiðslu og nú bætast þrjú tungumál við, hollenska, tyrkneska og slóvaska en bókin hefur nú þegar verið þýdd á fleiri en 25 tungumál. Guðrún Eva Mínervudóttir, sem var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs ásamt Andra Snæ, hefur einnig hlotið talsverða athygli og er von á bókum hennar í sænskri og úkraínskri þýðingu.
Auður Ava Ólafsdóttir, sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018 hefur notið mikillar hylli erlendis og voru nú veittir fjórir styrkir til þýðinga á verkum hennar, á dönsku, norsku, spænsku og rússnesku.

Fjórar enskar þýðingar hljóta styrk að þessu sinni en sú þýðing sem hlaut hæsta styrk er þýðing Philip Roughton á Sölku Völku eftir Nóbelskáldið Halldór Laxness en áætlað er að þýðingin komi út í Bandaríkjunum á næsta ári. Svanafólkið eftir Kristínu Ómarsdóttur og Hetjusögur Kristínar Svövu Tómasdóttur koma einnig út á ensku á næsta ári.

Hægt er að skoða allar úthlutanir á árinu hér (erlendar þýðingar) og hér (norrænar þýðingar). 


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir