Hvetur bókaáhugamenn á Íslandi og í Þýskalandi til að gerast félagar

25. apríl, 2010

„Þetta skemmtilega verkefni hefur farið vel af stað" segir Ólafur Davíðsson, formaður stjórnar „Sagenhaftes Island“.

„Þetta skemmtilega verkefni hefur farið vel af stað“ segir Ólafur Davíðsson, formaður stjórnar „Sagenhaftes Island“ félagsins sem var stofnað af Íslendingum og Þjóðverjum í desember á síðasta ári. Tilgangur félagsins er að styðja við menningarverkefni í Þýskalandi í tilefni þess að Ísland verður heiðursgestur bókasýningarinnar í Frankfurt árið 2011.

„Mér hefur alltaf fundist ákaflega gaman að vinna að því að koma íslenskri menningu, bókmenntum og öðrum listum á framfæri við Þjóðverja“ segir Ólafur, sem nýverið lét af starfi sendiherra Íslands í Þýskalandi. „Þjóðverjar eru áhugasamir um Ísland og íslenskar bókmenntir. Ég er sannfærður um miðað við fyrstu viðtökur að okkur takist að fá fjölmarga til að ganga í „Sagenhaftes Island'' félagið og styðja þannig við  bakið á íslenskri menningu í Frankfurt á næsta ári.“

„Aðalmunurinn á Bókasýningunni í Frankfurt og öðrum menningarviðburðum í Þýskalandi er sá, að hún fær miklu meiri athygli í fjölmiðlum. Það land sem er heiðursgestur er kynnt sérstaklega í öllum bókabúðum um gjörvalt Þýskaland. Allir fjölmiðlar, prentmiðlar, útvarp og sjónvarp eru svo með frásagnir af þessum viðburði og þar fær heiðurslandið alltaf sérstaka umfjöllun. Bókasýningin í Frankfurt er þess vegna einstakur menningarviðburður í Þýskalandi og frábært tækifæri til að kynna íslenskar bókmenntir að fornu og nýju. Þess vegna hvet ég bókaáhugamenn á Íslandi og í Þýskalandi til að styðja við þátttöku Íslands“ segir Ólafur Davíðsson formaður stjórnar „Sagenhaftes Islands“ félagsins.

Hvernig gerist maður félagi?

Almennt félagsgjald í „Sagenhaftes Island“ er 100 evrur. Síðan er hægt að gerast stuðningsfélagi með framlagi upp á 500 evrur. Stuðningsfélaga er getið sérstaklega á heimasíðu Sagenhaftes Island. Heiðursfélagar nefnast þeir sem leggja fram 1000 evrur og þeirra verður getið sérstaklega í sýningarskála Íslands á bókasýningunni í Frankfurt 2011.

Hægt er að ganga til liðs við „Sagenhaftes Island“ félagið með því að skrá sig hér.

Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir