Sælir eru einfaldir...

27. apríl, 2010

Spænska veikin ógnar íbúum Reykjavíkur og í fjarska rís ógnvekjandi gosmökkur upp af Kötlu. 90 ára gömul bók sem kallast á við þá tíma sem við nú lifum, með svínaflensu og eldsumbrotum.

Spænska veikin ógnar íbúum Reykjavíkur og í fjarska rís ógnvekjandi gosmökkur upp af Kötlu. Líf og dauði togast á. Manngæska og eyðingaröfl heyja sálarstríð. Átökin í náttúrunni endurspeglast í sálarlífi aðalpersóna bókarinnar Sælir eru einfaldir, eða Salige er de enfoldige, eftir Gunnar Gunnarsson, eitt af höfuðskáldum Íslendinga. Sagan gerist á sjö dögum í Reykjavík 1918 og er eins konar öfug sköpunarsaga. Níutíu ára gömul bók sem kallast á við þá tíma sem við nú lifum, með svínaflensu og eldsumbrotum.

Verkið samdi Gunnar í skugga fyrri heimstyrjaldarinnar sem endurspeglast í myrku andrúmslofti þess og bölsýni. Tilheyrir það röð þriggja bóka, svonefndar ‚stríðsbækur‘ Gunnars, sem hann skrifaði á tímabilinu 1915-1920. Með þeim urðu viss stakkaskipti á skáldskap hans þar sem dreifbýlisrómantíkin sem einkenndi svo mjög fyrri bækur hans víkur fyrir drungalegum þéttbýlum samtímans og tekist er á við tilvistarvanda einstaklingsins andspænis verund hins illa í heiminum.

Sælir eru einfaldir kom fyrst út á dönsku árið 1920 og með henni náðu vinsældir Gunnars hátindi. Til marks um það var bókin prentuð ellefu sinnum fyrsta árið eftir útgáfu. Ári síðar síðar kom hún út á þýsku undir titlinum Der Hass Pall Einarsson en heitinu var breytt í nýrri útgáfu 1927 í Sieben Tage Finsternis. Á ensku kom sagan út 1930 undir titlinum Seven Days' Darkness. Gagnrýnendur beggja vegna Atlantshafsins lofuðu bókina í hástert á sínum tíma; kölluðu hana „norrænt meistaraverk“ og að hún ætti sess skilinn meðal sígildra rita heimsins.


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir