Vorboðinn ljúfi

14. maí, 2010

Listahátíð í Reykjavík hófst í vikunni. Þetta er einn af vorboðunum ljúfu á Íslandi, sneisafull dagskrá af tónleikum og sýningum.

einarfalurcaptionListahátíð í Reykjavík var sett á laggirnar árið 1970, með þessum upphafsorðum: ,,Aldrei hefur Íslendingum fyrr gefist kostur á að njóta slíkrar fjölbreytni í listum, í flutningi, og á sýningum...“

Þetta eru orð að sönnu enn í dag. Listahátíð hefur verið árviss viðburður frá 2005, og á setningarhátíðinni í Hafnarhúsinu í Reykjavík á miðvikudag var tónninn sleginn með ræðum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra og Hrefnu Haraldsdóttur, listræns stjórnanda.

Safnið skartar í gluggum ljósmyndum eftir David Byrne, hins ástsæla söngvara Talking Heads, en á opnuninni gekk hann um salinn svellkaldur í hvítum jakkafötum.

,,Það er eins og heimurinn sé pakkaður inn í myndir og auglýsingar; eins og hvert yfirborð sé ekki bara það sjálft, heldur eitthvað annað líka. Mér datt í hug að setja glugga og dyr yfir gluggana, til að leika mér að þessu fyrirbrigði. Kannski er þetta augljós hugmynd. En ef nútíma listasafn gæti litið út eins og nútíma listasafn en um leið eins og samblanda af lúxushóteli, vefnaðarvöruverslun og venjulegu húsi – þá væri það dásamlegt,“ segir Byrne um sýningu sína, sem ber nafnið Inside out.

Á Listahátíð í ár er sérstök áhersla lögð á ljósmyndun. Fyrsta ljósmyndasýning hátíðarinnar opnaði í Bogasal Þjóðminjasafnins, sem var um árabil einn helsti listsýningasalur landsins. Sýningin sem um ræðir er Sögustaðir – Í fótspor W. G. Collingwood. Þar sýnir Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari ljósmyndaverk, sem hann vann með hliðsjón af vatnslitamyndum, teikningum og ljósmyndum breska listamannsins William Gershom Collingwood (1854-1932). Á sýningunni er úrval ljósmynda Einars Fals og að auki hluti þeirra rúmlega 300 verka sem Collingwood málaði hér á landi. ,,Þegar ég skoðaði bókina Sögustaðir, sem gerð er eftir sýningunni, langaði mig strax að leggjast í ferðalög,“ sagði Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra við opnun sýningarinnar. ,,Þessi sýning er forvitnilegt samtal tveggja listamanna sem ferðast um Ísland með um 100 ára millibili. Margt hefur breyst á þeim tíma, en landið er það sama, og þeir skrá landslagið og það sem fyrir augu ber hvor með sínum hætti.“

Hápunktur ljósmyndaveislu Listahátíðar er síðan sýning Cindy Sherman í Listasafni Íslands. Ónefnd kvikmyndaskot eða Untitled Film Stills er ein þekktasta myndaröð Sherman, en hana vann listakonan á árunum 1977-80.

Listahátíð stendur í Reykjavík til 5. júní 2010. Öll dagskrá hátíðarinnar er á listahatid.is / artfest.is



Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir