Íslensk ljóðlist á Zebra hátíðinni í Berlín

14. október, 2010

Á Zebra Poetry Film Festival í ár verða stuttmyndir tveggja íslenskra listamanna sýndar: Myndljóðið „Höpöhöpö Böks” eftir Eirík Örn Norðdahl og „Bertram“ eftir Láru Garðarsdóttur.

Kvikmyndahátíðin Zebra Poetry Film Festival í Berlín hefst í dag. Hátíðin, sem í ár er haldin í fimmta skiptið, er mikilvægur vettvangur fyrir ljóðatengdar stuttmyndir og sækir fjöldi kvikmyndagerðamanna hana að hvanæva úr heiminum.

Á hátíðinni í ár verða sýndar stuttmyndir eftir tvo íslenska listamenn: Myndljóðið „Höpöhöpö Böks” eftir Eirík Örn Norðdahl, sem er í keppnisflokki hátíðarinnar, og „Bertram“ eftir Láru Garðarsdóttur. Mynd Eiríks er aðlögun á ljóði eftir kanadíska skáldið Christian Bök, en hann mun að auki taka þátt í norrænum upplestri ásamt öðrum skandinavískum ljóðskáldum, þar á meðal Simen Hagerup og Marie Silkeberg, á hátíðinni.

Stuttmynd Láru er teiknimynd og fjallar um ungan dreng sem dreymir um hvað hann muni verða þegar hann vex úr grasi. Myndin er hluti af barnadagskrá hátíðarinnar. Báðar myndirnar verða sýndar í kvikmyndahúsinu Babylon Mitte.

Hátíðin er framtak Bókmenntasmiðju Berlínarborgar (Literaturwerkstatt Berlin), og á dagskrá hennar verða yfir 900 ljóðatengdar stuttmyndir frá 71 landi sýndar. Fimm manna dómnefnd mun að lokum velja sigurvegara úr 26 mynda keppnisflokki.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir