Yrsa á meðal þeirra bestu

27. október, 2010

„Hún stenst samanburð við það besta sem gerist í glæpasögum samtímans,“ segir í ritdómi Times Literary Supplement  um Ösku Yrsu Sigurðardóttur.

Gagnrýnandi Times Literary Supplement, eins virtasta bókmenntatímarits Englands, segir Yrsu Sigurðardóttur standast samanburð við það besta sem glæpasagnabókmenntir hvarvetna í heiminum geta boðið upp á í dómi um glæpasöguna Aska.

Ensk þýðing bókarinnar kom út síðastliðið sumar og hefur mikið borið á Yrsu í enskumælandi fjölmiðlum í kjölfarið. Bókin hefur hlotið afar góðar viðtökur gagnrýnenda og skemmst er að minnast þess að Daily Telegraph sagði hana vera „svar Íslands við Stieg Larsson“.

Times Literary Supplement nýtur mikillrar virðingar í bókmenntaheiminum og þykir eitt vandaðasta bókmenntatímarit hins enskumælandi heims. Dómur tímaritsins hefst með þessum orðum:  „Aska er þriðja glæpasaga Yrsu Sigurðardóttir sem kemur út í enskri þýðingu og jafnvel þótt hinar fyrri tvær, Þriðja táknið og Sér grefur gröf, hafi verið góðar þá ber þessi af; hún stenst samanburð við það besta sem gerist í glæpasögum samtímans, hvar sem er í heiminum.“  Gagnrýnandinn lofar að auki persónusköpun Yrsu; segir spæjara hennar, Þóru Guðmundsdóttur, vera einkar heillandi sköpunarverk.

Yrsa í Frankfurt„Það er afar ánægjulegt að sjá þennan dóm um Yrsu í Times Literary Supplement,“ segir útgefandi hennar Pétur Már Ólafsson. „Vegur hennar heima og erlendis hefur stöðugt farið vaxandi og henni iðulega líkt við helstu metsöluhöfunda í dag. Og þegar hæstiréttur bókmenntanna, TLS, segir að bók hennar jafnist á við það besta sem gerist í glæpasögum, hvar sem er í heiminum, þá setur mann eiginlega hljóðan“.

Í öðrum fréttum af Yrsu má nefna að hún sótti bókasýninguna í Frankfurt fyrir skemmstu þar sem hún tók þátt í umræðum um íslenskar glæpasögur. Hún fór ekki tómhent heim þar sem að útgáfurétturinn að væntanlegri bók hennar Ég man þig var seldur til þýska útgefandans Fischer Verlag. Forlagið, sem hefur keypt réttinn að öllum útgefnum glæpasögum Yrsu, mun að auki gefa út bókina Biobörn í október á næsta ári, þegar Ísland verður heiðursgestur á bókasýningunni. Þetta mun vera fyrsta barnabók Yrsu til að koma út erlendis.  Auk þess var undirritaður samningur milli bókaforlagsins Veraldar, útgefanda hennar hérlendis, og bandaríska forlagsins MacMillans á bókasýningunni um útgáfu Ösku í Norður-Ameríku.


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir