Af því að Íslendingasögurnar gerast ekki í Schwarzwald

29. október, 2010

Þýskt stórblað fjallar um nýja þýðingu á Íslendingasögunum, og ástæðurnar að baki hennar.

Sama dag og Ísland tók formlega við af Argentínu sem heiðursgestur á Bókasýningunni í Frankfurt birti blaðið Frankfurter Allgemeine Sonntagszeitung ítarlega umfjöllun um nýja heildarþýðingu á Íslendingasögunum í sunnudagsútgáfu sinni. Um var að ræða miðopnugrein um Íslendingasögurnar, ríkulega skreytta myndum úr miðaldahandritum. Auk þess var birt viðtal við Klaus Böldl, ritstjóra heildarþýðingarinnar og prófessor við háskólann í Kiel.

Í viðtalinu skýrði Böldl frá því að sú heildarþýðing sem fyrir væri, sem kom út á milli 1911 og 1930 og nefnist Sammlung Thule, væri orðin úrelt og endurspeglaði germanska þjóðernishyggju. Auk þess væri hún ekki sérlega læsileg nútímafólki, til að mynda væru íslensku nöfnin svo duglega staðfærð að séríslensk einkenni glötuðust: „Stundum virðist manni að sögurnar gætu fullt eins gerst í Schwarzwald,“ sagði hann.

Nýja heildarþýðingin kemur út á næsta ári hjá þýska útgefandanum S. Fischer Verlag. Verkefnið er styrkt af Listastofnun Nordrhein-Westfalen (Kunststiftung NRW). Þýðendahópur undir stjórn Juliu Zernack, Andreas Vollmer og Klaus Böldl vinnur þessa stundina að þýðingunum, en með þeim mun fylgja skýringabindi sem setja mun Íslendingasögurnar í sögulegt samhengi og staðsetja þær innan heimsbókmenntanna.

Frankfurter Allgemeine - opna


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir