„Bókmenntauppgötvun ársins“ í Frakklandi

2. nóvember, 2010

Frönsk þýðing Afleggjarans, eftir Auði Övu Ólafsdóttur, hlýtur Prix de Page verðlaunin. Gagnrýnendur eru yfir sig hrifnir.

Rosa Candida

Afleggjarinn eftir Auði Övu Ólafsdóttur, sem nefnist á frönsku Rosa candida í þýðingu Catherine Eyjólfsson, hlýtur bókmenntaverðlaunin Prix de Page sem besta evrópska skáldsagan í Frakklandi 2010. Það eru samtök bókabúða í Frakklandi sem standa að verðlaununum.

Á þeim tæpu tveimur mánuðum sem liðið hafa frá útgáfu bókarinnar hefur hún að auki hlotið tilnefningu til þrennra annarra verðlauna: Verðlauna bókmenntatímaritsins Lire, Fnac bókmenntaverðlaunanna og hinna virtu Fémina verðlauna, sem veitt eru einum frönskum rithöfundi og einum erlendum í byrjun nóvember ár hvert.

Umfjöllun franskra fjölmiðla um bókina hefur að sama skapi verið afar jákvæð; „bókmenntauppgötvun ársins“, segir til að mynda gagnrýnandi dagblaðsins Le Parisien. Í grein sem tímaritið Le Page birti um bókina segir: „Rosa candida er fágæt bók, full af fegurð. Þegar ég var búinn að opna bókina gat ég ekki lagt hana frá mér, gjörsamlega heillaður af þessum töfrandi stíl.“ Svo hefur Le Monde fjallað um bókina í tvígang, segir hana vera „opinberun,“ og „frábærlega unnin sælkeratexti.“ Þetta er aðeins lítið brot af þeim jákvæðu dómum sem birst hafa í frönskum fjölmiðlum upp á síðkastið um Afleggjarann. Á heimasíðu Sölku, útgefanda Auðar hér á landi, má nálgast ítarlegri úttekt um viðtökur bókarinnar í Frakklandi.

Zulma, bókaforlag Auðar Övu í París, hefur í framhaldi af velgengni Afleggjarans fest kaup á annari skáldsögu Auðar, Rigningu í nóvember, og kemur hún út í Frakklandi á næsta ári. Þá hefur Zulma einnig tryggt sér útgáfurétt óútkominnar skáldsögu hennar sem kemur út á Íslandi næsta haust. Afleggjarinn hefur þegar verið seldur til fimm landa og fjölmargir erlendir útgefendur hafa sýnt bókinni áhuga.


Tengt efni:

Viðtal við Auði Ólafsdóttur: Höfundur mánaðarins


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir