Önnur líf Ævars

23. nóvember, 2010

„Um leið og menn fóru að skrifa glæpasögur á mannamáli fóru hlutirnir að ganga betur“ segir glæpasagnahöfundurinn Ævar Örn Jósepsson sem sendi frá sér nýja bók á dögunum.

„Um leið og menn fóru að skrifa glæpasögur á mannamáli fóru hlutirnir að ganga betur“ segir glæpasagnahöfundurinn Ævar Örn Jósepsson sem sendi frá sér nýja bók á dögunum.

Ævar ÖrnÆvar Örn Jósepsson er glæpasagnalesendum löngu orðinn að góðu kunnur. Bókaforlagið Uppheimar gefa út hans nýjustu bók, Önnur líf. Þar segir frá rannsóknarteyminu Stefáni, Árna, Guðna og Katrínu sem lesendur hafa fengið að fylgjast með allt frá því að Skítadjobb, fyrsta bók Ævars, kom út árið 2002.

Í Skítajdobbi voru það þeir Stefán og Árni sem voru í forgrunni en Guðni og Katrín komu við sögu í mýflugumynd. Í bókunum sem á eftir hafa komið fá lesendur sífellt að vita meira um þessar fjórar aðalpersónur bókanna.

Hversu lengi telur Ævar Örn að hægt sé að fjalla um sama rannsóknarteymið í glæpasögum? Hvenær fá lesendur og höfundur nóg?

„Ég veit ekki hve margar bækur er hægt að skrifa um sama fólkið. Ed McBain skrifaði tugi bóka um Steve Carella og félaga í 87. umdæmi… Það er ekki óalgengt að fólk skrifi tíu sögur af sama liðinu. Þó er rétt að hafa í huga að bæði Guðni og Stefán eru teknir að reskjast nokkuð, og ég hef haft það fyrir reglu, öfugt við McBain, að láta mitt fólk eldast í takt við sjálfan mig og heiminn.“ Ákveðið raunsæi varðandi sögupersónur er þannig að finna í bókum Ævars.

En hvað með sögusviðið sjálft, sögurnar eru kyrfilega staðsettar í samtímanum, persónur eru bundnar við líðandi stundu og tilvísanir eru í raunverulega staði og hluti. Er það sérstakt einkenni á glæpasögum?

„Ég reyni að skrifa einhvers konar raunsæisbókmenntir, með það meðal annars fyrir augum að spegla þann tíma og það samfélag sem ég lifi í, og mér finnst það einfaldlega auka á raunsæið og hjálpa bæði mér og öðrum að lifa sig inn í sögurnar að láta þær gerast í eins „raunverulegu“ umhverfi og hægt er. Ég sé enga ástæðu til að skálda upp kaffihús og dagblöð þegar vel má notast við þau sem fyrir eru.

Önnur lífRaunsæið er ekki bara að finna í sögupersónum og sögusviði. Stíllinn og tungutakið kemur líka beint úr hversdagsleikanum:

„Áður fyrr gerðu höfundar og útgefendur kröfu um málfar í skáldskap sem á ekki endilega erindi í glæpasögur og bókstaflega eyðileggur þær. Hátíðlegt og upphafið mál, skrúðmælgi og ljóðræna fara ekki vel í frásögnum af ofbeldi og hvunndagshasar, sem verður til þess að þær virka tilgerðarlegar. Um leið og menn áttuðu sig á þessu og fóru að skrifa glæpasögur á því máli sem þær krefjast – mannamáli – fóru hlutirnir að ganga betur.“

Glæpir hafa breyst í gegnum árin og eru sýnilegri nú en áður. Ævar Örn segir að það sé auðvelt að verða fyrir áhrifum úr umhverfinu. „Innblásturinn kemur alls staðar að. Nú orðið er það þannig að þegar ég kem á nýjan stað þá er það iðulega það fyrsta sem ég hugsa um, hvort hann henti vel til illvirkja af einhverju tagi. Hellir verður að felustað fyrir lík, yfirgefin verksmiðja að vettvangi glæps, skemmtileg og skrítin tilviljun að mögulegri ástæðu morðs.“


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir