Landsbankinn bakhjarl á Bókasýningunni í Frankfurt

25. nóvember, 2010

Sögueyjan Ísland og Landsbankinn hafa gert með sér samkomulag um að Landsbankinn verði einn af aðalstyrktaraðilum verkefnisins.

Sögueyjan Ísland (Sagenhaftes Island) og Landsbankinn hafa gert með sér samkomulag um að Landsbankinn verði einn af aðalstyrktaraðilum verkefnisins, bæði við kynningu innanlands og í starfinu erlendis.

Landsbankinn mun styrkja sérstaklega einstæða sýningu á íslenskum handritum sem opnuð verður í Schirn listasafninu í Frankfurt í september 2011, en handritasýningin er hluti af stærri sýningu Gabríelu Friðriksdóttur. Á sýningunni er farin óvenjuleg leið með því að blanda saman hinu forna og hinu nýja.

Innanlands verður Landsbankinn bakhjarl sérstaks kynningarverkefnis um Íslendingasögurnar í nútímanum. Listafólkið unga Bergur Ebbi Benediktsson, Ugla Egilsdóttur og Dóri DNA munu setja saman uppistand byggt á Íslendingasögunum og verður það þróað í samstarfi við þrjú þýsk ungskáld sem eru afar vinsæl í Þýskalandi um þessar mundir. Þau munu verða á ferðinni bæði hérlendis og í Þýskalandi og hefst verkefnið á vordögum 2011.

Landsbankinn - undirritunHalldór Guðmundsson, verkefnisstjóri Sögueyjunnar, fagnar samstarfssamningi við Landsbankann og segir stuðninginn við heiðurssýningu Íslands í Frankfurt vera afar mikilvægan. Flutningur íslenskra handrita til Þýskalands sé viðamikið verkefni sem verði að vanda til, og það verði spennandi að fella þau inn í sýningu íslenskrar nútímalistar. Halldór segir ennfremur að mikill fengur sé að stuðningi Landsbankans við kynningar innanlands.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir þennan samning gleðiefni fyrir bankann. „Handritin eru þjóðargersemi og það er heiður fyrir bankann að taka þátt í að flytja og sýna íslensku handritin á stærstu bókamessu heims. Þetta er einstætt tækifæri fyrir Ísland, íslenskar bókmenntir og Íslendinga til að kynna menningu sína og sögu og Landsbankinn fagnar því að fá tækifæri til að taka þátt í því verkefni. Ekki síður hlökkum við til að fylgjast með íslenskum og þýskum ungskáldum ferðast um landið með Íslendingasögurnar í farteskinu og endurnýja þar með þjóðararfinn.“


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir