Landsbankinn bakhjarl á Bókasýningunni í Frankfurt

25. nóvember, 2010

Sögueyjan Ísland og Landsbankinn hafa gert með sér samkomulag um að Landsbankinn verði einn af aðalstyrktaraðilum verkefnisins.

Sögueyjan Ísland (Sagenhaftes Island) og Landsbankinn hafa gert með sér samkomulag um að Landsbankinn verði einn af aðalstyrktaraðilum verkefnisins, bæði við kynningu innanlands og í starfinu erlendis.

Landsbankinn mun styrkja sérstaklega einstæða sýningu á íslenskum handritum sem opnuð verður í Schirn listasafninu í Frankfurt í september 2011, en handritasýningin er hluti af stærri sýningu Gabríelu Friðriksdóttur. Á sýningunni er farin óvenjuleg leið með því að blanda saman hinu forna og hinu nýja.

Innanlands verður Landsbankinn bakhjarl sérstaks kynningarverkefnis um Íslendingasögurnar í nútímanum. Listafólkið unga Bergur Ebbi Benediktsson, Ugla Egilsdóttur og Dóri DNA munu setja saman uppistand byggt á Íslendingasögunum og verður það þróað í samstarfi við þrjú þýsk ungskáld sem eru afar vinsæl í Þýskalandi um þessar mundir. Þau munu verða á ferðinni bæði hérlendis og í Þýskalandi og hefst verkefnið á vordögum 2011.

Landsbankinn - undirritunHalldór Guðmundsson, verkefnisstjóri Sögueyjunnar, fagnar samstarfssamningi við Landsbankann og segir stuðninginn við heiðurssýningu Íslands í Frankfurt vera afar mikilvægan. Flutningur íslenskra handrita til Þýskalands sé viðamikið verkefni sem verði að vanda til, og það verði spennandi að fella þau inn í sýningu íslenskrar nútímalistar. Halldór segir ennfremur að mikill fengur sé að stuðningi Landsbankans við kynningar innanlands.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir þennan samning gleðiefni fyrir bankann. „Handritin eru þjóðargersemi og það er heiður fyrir bankann að taka þátt í að flytja og sýna íslensku handritin á stærstu bókamessu heims. Þetta er einstætt tækifæri fyrir Ísland, íslenskar bókmenntir og Íslendinga til að kynna menningu sína og sögu og Landsbankinn fagnar því að fá tækifæri til að taka þátt í því verkefni. Ekki síður hlökkum við til að fylgjast með íslenskum og þýskum ungskáldum ferðast um landið með Íslendingasögurnar í farteskinu og endurnýja þar með þjóðararfinn.“


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir