Samlokukynslóð í vanda

21. desember, 2010

Jónína Leósdóttir sendi nýlega frá sér bókina Allt fínt… en þú? en í henni má segja að kveði við nýjan tón í íslenskri skáldsagnagerð. 

Jónína LeósdóttirJónína Leósdóttir sendi nýlega frá sér bókina Allt fínt… en þú? en í henni má segja að kveði við nýjan tón í íslenskri skáldsagnagerð. Jónína hefur áður skrifar leikverk, skáldsögur, æviminningar og barna- og unglingabækur en hér er eitthvað nýtt á ferðinni.

Bókin kemur út á þýsku á næsta ári. Bókaforlagið Kiepenheuer und Witsch festi kaup á útgáfuréttinum áður en hún kom út hér á landi, en sjaldgæft er að slíkt hendi þegar bækur eru enn á handritsstigi.

Sagenhaftes Island bað Jónínu að lýsa söguþræðinum stuttlega:

„Bókin fjallar um Nínu, íslenska nútímakonu sem vill standa sig vel á öllum sviðum. Hún tilheyrir svokallaðri „samlokukynslóð“ sem verður bæði að sinna eldra og yngra fólki í fjölskyldunni, foreldrum sínum og börnum, auk þess sem hún er í fullri vinnu. Svo þarf hún að rækta hjónabandið sem enn er dálítið laskað síðan eiginmaðurinn, sem er prestur, varð uppvís að framhjáhaldi. Þegar sagan hefst eru tveir mánuðir liðnir síðan móðir Nínu varð bráðkvödd og pabbi hennar, sem er sjötugur, reynist strax hafa eignast nýja vinkonu. Þetta er dropinn sem fyllir bikarinn. Nína á mjög erfitt með að sætta sig við þessar nýju aðstæður og enn erfiðara með að gegna sínu rótgróna hlutverki sem máttarstólpi og friðarstillir í fjölskyldunni. Ég framreiði þetta þó með vænum slatta af kímni og örlítilli kaldhæðni.“

Allt fínt en þúEn hvers konar bók er Allt fínt… en þú? Er hún stelpubók fyrir fullorðnar konur og hefur þessi bókmenntagrein nafn?

„Það vantar gott nafn á þessa bókmenntagrein. Á bókmenntahátíð í Bretlandi, sem mér var boðið á síðastliðið haust, voru svona skáldsögur einfaldlegar kallaðar „women‘s literature“. Það nafn hefur hins vegar lengi verið notað um bækur með femínísku ívafi svo það getur verið villandi.“

En eru svona bækur þá ekki hugsaðar fyrir karlmenn, veistu hvernig þeir taka bókinni þinni sem lesendur?

„Ég held að þessar bækur, sögur um samskipti, höfði meira til kvenna en karla. Sumir myndu segja að konar veltu sér frekar upp úr alls kyns samskiptamálum. En á undanförnum vikum hef ég lesið kafla úr bókinni fyrir um 25 hópa og það hefur komið mér á óvart hvað karlarnir hafa hlegið mikið og hve margir þeirra hafa sagst ætla að lesa bókina.“


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir