Ljóðstafur Jóns úr Vör veittur í tíunda skiptið

31. janúar, 2011

Steinunn Helgadóttir, myndlistarmaður og ljóðskáld, hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör í árlegri ljóðasamkeppni lista- og menningarráðs Kópavogs.

Steinunn Helgadóttir, myndlistarmaður og ljóðskáld, hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt „Kaf“ í árlegri ljóðasamkeppni lista- og menningarráðs Kópavogs. Steinunn er tíundi handhafi verðlaunanna en tilgangur samkeppninnar er að efla og vekja áhuga á íslenskri ljóðlist.

Þriggja manna dómnefnd – skipuð Gerði Kristnýju, Jóni Yngva Jóhannssyni og Sigurði Pálssyni – valdi ljóð Steinunnar úr 342 innsendum ljóðum, sem öll bárust samkeppninni undir dulnefni. Í rökstuðningi dómnefndarinnar segir meðal annars að ljóð Steinunnar bregði „upp áhrifamiklum myndum af síðustu ferð rússneska kafbátsins Kursk sem fórst með allri áhöfn í Barentshafi árið 2000 [...] Höfundur kann vel þá vandasömu list að ljúka ljóði. Lokalínurnar tengjast upphafslínunni með sterku myndmáli  og í lokaorðunum eru örlög skipverjanna gefin í skyn með lágstemmdum en áhrifaríkum hætti.“

Verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, að kvöldi fæðingardags Jóns úr Vör, 21. janúar. Þar var að auki kynnt ljóðakver, gefið út af lista- og menningarráði, sem hefur að geyma ljóð allra handhafa Ljóðstafsins frá upphafi, en meðal fyrri verðlaunahafa má nefna skáldin Lindu Vilhjálmsdóttur, Óskar Árna Óskarsson og Gerði Kristnýju. Von er á fyrstu ljóðabók Steinunnar síðar á þessu ári sem bókaforlagið Uppheimar gefur út.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir