Íslensku bókmenntaverðlaunin

2. febrúar, 2011

Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju og Sveppabókin, íslenskir sveppir og sveppafræði eftir Helga Hallgrímsson hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin 2010.

Tilkynnt hefur verið hvaða bækur hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2010. Í flokki fagurbókmennta hlýtur ljóðabókin Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju verðlaunin en í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis er það Sveppabókin, íslenskir sveppir og sveppafræði eftir Helga Hallgrímsson sem hlýtur verðlaunin.

blóðhófnirBlóðhófnir, sem Mál og menning gefur út, er fjórða ljóðabók Gerðar en hún hefur auk þess gefið út barnabækur, smásögur, skáldsögur, ævisögur og ferðasögu. Gerður Kristný hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir ljóð sín, hún hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2010 og einnig ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar.

Blóðhófnir vakti strax gríðarlega athygli þegar hún kom út og lesendur jafnt og gagnrýnendur tóku bókinni opnum örmum.

Blóðhófnir er söguljóð sem byggir á Skírnismálum Eddukvæða. Sagan af því þegar frjósemisguðinn Freyr sendir skósvein sinn Skírni að ná í jötunmeyna Gerði í Jötunheima og færa sér nauðuga er hér sögð út frá sjónarhóli Gerðar. Í ljóðinu horfir sagan allt öðruvísi við en áður, sjónarhornið er hennar sem þolanda en ekki hans sem geranda. Gerður heldur auk þess áfram með söguna þar sem Skírnismálum sleppir og lesandi fær að vita hvað gerist þegar Gerður og Freyr hittast.

Gerður segir nánar frá tilurð bókarinnar og fleiru í viðtali sem birtist hér á vefnum fyrr í haust þegar hún var höfundur mánaðarins. Gerður fjallaði einnig um Blóðhófni á Gljúfrasteini í vetur.

SveppabókinSveppabókin, íslenskir sveppir og sveppafræði, sem Skrudda gefur út, eftir Helga Hallgrímsson er tímamótaverk. Hún er frumsmíð í sveppafræði á íslensku og hefur höfundurinn rannsakað sveppi í meira en hálfa öld. Bókin skiptist í tvo hluta. Í þeim fyrri er fjallað um eðli og gerð sveppa og hlutverk þeirra í lífkerfi jarðar, en í síðari hlutanum fjallar Helgi um alla flokka sveppa sem finnast á Íslandi. Bókin er prýdd fjölda mynda og er bæði ætluð almenningi sem og fræðimönnum.

Helgi hefur áður sent frá sér tvær bækur um sveppi en það eru Sveppakverið: Leiðarvísir um greiningu á íslenzkum stórsveppum, einkum matsveppum (1979) og Íslenskt sveppatal 1, Smásveppir (2004). Auk þess hefur Helgi ritað bækur um vatnsföll á Íslandi, nú síðast Lagarfljót: Mesta vatnsfall Íslands: Staðhættir, náttúra og saga sem kom út árið 2005.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir