Morgunþula í stráum

8. febrúar, 2011

„Ég er viss um að ég gæti skrifað eina bók á ári, ef ég gæti ráðið mér hjálparmann til að skrifa á tölvuna,“ segir Thor Vilhjálmsson. Skáldsaga hans Morgunþula í stráum kemur út í nýrri þýskri þýðingu með haustinu.

Thor - texti„Ég er viss um að ég gæti skrifað eina bók á ári, ef ég gæti ráðið mér hjálparmann til að skrifa á tölvuna,“ segir Thor Vilhjálmsson. Skáldsaga hans Morgunþula í stráum kemur út í nýrri þýskri þýðingu með haustinu. Thor segist vera afar ánægður með það, „það var kannski löngu tímabært,“ bætir hann við og brosir.

Skáldsagan Morgunþula í stráum kom út árið 1998 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin það ár. Í henni segir frá Sturlu Sighvatssyni sem var einn mestur höfðingja á Íslandi á Sturlungaöld. „Þetta er aðgengilegur texti sem ber bestu höfundareinkennum Thors Vilhjálmssonar glöggt vitni; stílgáfa hans og ljóðræn myndvísi haldast hér vel í hendur við spennandi sagnaþræði ofna úr fornum sögum, minningum og vitund Íslendinga,“ sagði bókmenntafræðingurinn Soffía Auður Birgisdóttur í ritdómi um bókina í desember 1998. 

Thor er sjálfur langt frá því að vera sestur í helgan stein. Öðru nær. Hann skrifar fram á nætur þessa dagana, er með nýja bók í smíðum, en gefur ekki upp hvort það sé prósi eða ljóð, kannski hvorutveggja.

- Hvenær kemur þessi nýja bók út? 

„Þegar ég er búinn að skrifa hana.“

- Og hvenær verður þú búinn að skrifa hana?

„Ég veit það ekki, fyrr en ég er búinn.“

Hann hugsar sig síðan um stundarkorn: „Ég gef mér bara þann tíma sem þarf. Þetta gengur vel. Ég var á gömlum slóðum í París um daginn og það gerði mér gott. Það hjálpaði til. Ég get sagt að það er góður byr við að skrifa núna. Þegar ég var háseti á Lagarfossi voru tólf farþegar um borð ef ég man rétt. Ég stóð við stýrið og þurfti að passa mig alveg sérstaklega að halda skipinu stöðugu meðan farþegarnir borðuðu súpuna.“

- Og þannig er þetta þá núna, þú þarft að stýra vel, þegar þú skrifar nýja bók?  

„Já, og vanda mig við þetta, sem manni er trúað fyrir. Það hefur ekki tekist að stöðva mig hingað til og ég hef aldrei beygt mig fyrir neinum,“ segir Thor að lokum. 

Myndskeið með viðtali við Thor Vilhjálmsson um Morgunþulu í stráum og skáldskapinn, verður birt á Sagenhaftes Island innan skamms. 


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir