Styrkur úr Menningaráætlun Evrópusambandsins

7. mars, 2011

Sögueyjan Ísland hefur hlotið styrk frá Menningaráætlun Evrópusambandsins. Styrkurinn nemur 200.000 evrum eða ríflega 32 milljónum íslenskra króna.

Evrópusamband - LógóVerkefnið „Sögueyjan Ísland – heiðursgestur Bókasýningarinnar í Frankfurt 2011“ hefur hlotið styrk frá Menningaráætlun Evrópusambandsins og nemur styrkupphæðin 200.000 evrum eða ríflega 32 milljónum íslenskra króna.

Í aðdraganda Bókasýningarinnar í Frankfurt sem fram fer í október á þessu ári stendur Sögueyjan fyrir metnaðarfullri menningardagskrá þar sem íslenskar bókmenntir verða kynntar með ýmsum hætti auk þess sem áhersla verður lögð á íslenska list og hönnun. Evrópustyrknum verður einkum varið í dagskrá sem helguð er norrænum sagnaarfi, rótum norður-evrópskrar sagnahefðar, og verða Íslendingasögur og Eddukvæði í sviðsljósinu í þeirri viðamiklu dagskrá. Samstarfsaðilar Sögueyjunnar Íslands í þessu verkefni eru Literaturhaus Köln í Þýskalandi og Literaturhaus Salzburg í Austurríki.

Meðal þeirra verkefna sem Sögueyjan Ísland stendur að er samvinnuverkefni þriggja íslenskra listamanna og þriggja þýskra ungskálda um Íslendingasögur og upplifun nútímamannsins af þeim. Þau munu sýna á Listahátíð í Reykjavík í vor auk þess sem verkið verður sýnt í bókmenntahúsum í Þýskalandi, Austurríki og Sviss í aðdraganda Bókasýningarinnar í október.

Þá verður blásið til mikillar útgáfuhátíðar vegna hinnar nýju þýðingar Íslendingasagnanna á þýsku sem kemur út hjá S. Fischer Verlag í haust. Útgáfunni verður fagnað með þriggja daga ráðstefnu í klaustrinu í Corvey í Þýsklandi þar sem fræðimenn, þýðendur og aðrir munu taka þátt auk þess sem leiklesið verður úr sögunum. Einnig verður dagskrá í bókmenntahúsum Þýskalands, Austurríkis og Sviss helguð Íslendingasögunum og Eddukvæðum.

8. júní næstkomandi verður haldinn íslenskur ljóðadagur í bókmenntahúsum hins þýskumælandi heims í tilefni af útkomu safnrits um íslenska ljóðlist hjá Suhrkamp Verlag.

Dagskráin mun fara fram á ellefu stöðum samtímis. Leikarar munu lesa nýjar þýskar þýðingar á íslenskum ljóðum og sýnd verða ljóðamyndbönd sem nemendur við Listaháskóla Íslands hafa framleitt fyrir Ljóðadaginn. Auk þess munu allir gestir bókmenntahúsanna 8. júní fá eintak af safnritinu að gjöf.

Loks er að geta sýningar Gabríelu Friðriksdóttur í Schirn listasafninu í Frankfurt. Hluti hennar verður sýning á íslenskum handritum í anda þeirrar stefnu Sögueyjunnar að vefa saman hefð og samtímalist í kynningu sinni.

Ljóst er að sýningar og viðburðir sem Sögueyjan stendur að í tengslum við íslenskan bókmenntaarf í nútíð og fortíð geta vænst þess að fá mikla athygli fjölmiðla og almennings í Þýskalandi. Styrkurinn frá Menningaráætlun Evrópusambandsins skiptir sköpum þegar kemur að framkvæmd þessa verkefnis og sýnir jafnframt það traust sem borið er til þeirrar undirbúningsvinnu sem unnið er á vegum Sögueyjunnar.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir