Fjöruverðlaunin

23. mars, 2011

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt í fimmta sinn þann 20. mars í Iðnó. Um hundrað gestir sóttu hátíðina í þetta skiptið.

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt í fimmta sinn þann 20. mars í Iðnó. Skáldsagan Ljósa (Forlagið) eftir Kristínu Steinsdóttur hlaut þar verðlaun í flokki skáldverka . Í flokki barnabóka fengu þær Agniezka Nowak og Vala Þórsdóttir verðlaun fyrir bókina Þankaganga / Myślobieg (höfundar gáfu út) og bók Kristín Loftsdóttur Konan sem fékk spjót í höfuðið (Háskólaútgáfan) var verðlaunuð í flokki fræðirita.

Þetta er í annað skiptið sem Kristín Steinsdóttir fær verðlaunin en bók hennar Á eigin vegum vann til þeirra árið 2007. Í rökstuðningi dómnefndarinnar sagði að texti bókarinnar væri hæglátur og léti lítið yfir sér en hann bæri augljós merki þess að Kristín hefði „meistaraleg tök á fléttu og sjónarhorni.“ Barnabókin Þankaganga / Myślobieg er fyrsta bókin sem er skrifuð á bæði íslensku og pólsku. Í þessari fjörlegu sögu er greint frá fjölskyldulífi pólsk-íslenskrar stúlku og þótti dómnefndinni hún auka við fjölbreytni í íslenskri barnabókaútgáfu auk þess að vera „bráðskemmtileg og falleg bæði hvað varðar útlit og innihald.“ Í fræðibókinni Konan sem fékk spjót í höfuðið eru hugtök og kenningar mannfræðinnar sett fram á aðgengilegan hátt með skírskotunum til persónulegrar reynslu höfundarins af vettvangi. Í rökstuðningi dómnefndarinnar var bent á að bókin höfði til breiðs hóps og að lesandinn njóti „frásagnar Kristínar án þess að þurfa að vera heima í fræðunum.“

Það er Góuhópurinn, grasrótarhópur kvenna sem vinnur að því að styrkja stöðu og viðurkenningu íslenskra kvenrithöfunda, sem stendur að verðlaununum. Um hundrað gestir sóttu hátíðina í þetta skiptið en auk verðlaunaafhendingarinnar voru flutt erindi um skáldkonuna Guðrúnu frá Lundi.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir