Crepusculum Gabríelu

„Það er kraumandi líf í þessum bókum. Það geislar af þessum handritum, geislar sem eiga sér stað í mörgum hjörtum og mörgum sálum á öllum tímum.“

4. maí, 2011

„Þetta er eins og að handleika múmíur frá British Museum. Þetta eru sálnahulstur, sem urðu til á ákveðnum tíma í Íslandssögunni,“ segir Gabríela Friðriksdóttir myndlistarmaður um sýningu sína Crepusculum í Frankfurt í september.

Gabríela Friðriksdóttir

„Mér finnst það auðvitað mikill heiður að fá að ráðskast með handritin,“ segir Gabríela Friðriksdóttir myndlistarmaður um sýningu sína Crepusculum í Frankfurt í september. „Þetta er eins og að handleika múmíur frá British Museum. Þetta eru sálnahulstur, sem urðu til á ákveðnum tíma í Íslandssögunni.“

Verk Gabríelu Friðriksdóttur sem verður sýnt ásamt íslensku handritunum í Schirn Kunsthalle í Franfurt í lok september heitir Crepusculum. Þetta er innsetning, hálfgert landslag segir Gabríela sjálf. Crepusculum vísar í augnablikið, þegar ljós er að brjótast í gegn, eða þegar birtan er alveg að hverfa.

„Ég vinn með ólíka hluti í þessu verki; arkitektúr, sjálf handritin sem eru bókmenntirnar í verkinu, skúlptúr og hljóð, og svo geri ég líka myndbandsverk. En heilinn í verkinu er það sem ég kalla Ferðahof. Það er sjálft ígulkerið í þessu öllu saman, miðjan í innsetningunni í Schirn safninu og líka í myndabandsverkinu sjálfu. Í raun og veru byggi ég verkið á fimm þáttum; rými, lofti, eldi, jörð og vatni, þar sem hver einasta eining í þessu mengi er ákveðinn þáttur. Hvert og eitt hefur sína sögu, sem fæðist í ákveðnu samspili þessara þátta: glerverk, leirverk, sandur, ljós, hljóð og málmar.“

Nú er formlega búið að velja þau níu handriti sem verða flutt á sýninguna í Frankfurt. „Ég valdi þau svolítið eftir því hvernig þau litu út. Ég heillaðist af þeim einsog hylkjum, utan um einhverja ótrúlega atburði sem hafa gerst og hafa verið skráðir. Ég hef haft mjög gaman af því að vinna með fólkinu á Árnastofnun. Ég var á fundi með þeim í gær og útskýrði fyrir þeim hvernig þessi níu handrit verða notuð í sýningunni minni. Það skiptir miklu máli að fyllsta öryggis sé gætt því þetta eru dýrgripir. Það skiptir miklu máli fyrir mig að handritin séu tengt verkinu mínu, annars er þetta ekki þess virði. Mér finnst við ná saman, ég og þau, handritin. Þau tengjast algerlega því sem ég er að gera með sýningunni minni.“

Þú talar um handritin eins og persónur Gabríela, sem lifandi verur eiginlega?

„Já, ég verð að viðurkenna það, að það er lifandi, kraumandi líf í þessum bókum. Það geislar af þessum handritum, geislar sem eiga sér stað í mörgum hjörtum og mörgum sálum á öllum tímum. Þau eru full af endalausum draumum og veruleika.“

Sýningarstjóri Crepusculum í Schirn Kunsthalle er Matthias Wagner K.

Myndband með viðtali við Gabríelu verður birt hér á heimasíðu Sögueyjunnar innan skamms.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir