Blóðdropinn til Yrsu

22. júní, 2011

Yrsa Sigurðardóttir hreppti Blóðdropann, bókmenntaverðlaun Hins íslenska glæpafélags, fyrir hrollvekjuna Ég man þig. Bókin verður framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna 2011.

Blóðdropinn, bókmenntaverðlaun Hins íslenska glæpafélags, var afhentur í gær. Það var Yrsa Sigurðardóttir sem hreppti gripinn að þessu sinni fyrir hryllingssöguna Ég man þig og mun bókin verða í framhaldi af því framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna, Glerlykilsins. Samkeppnin var að vanda hörð en á meðal tilnefndra höfunda voru Arnaldur Indriðason fyrir Furðustrandir, Árni Þórarinsson fyrir Morgunengil og Lilja Sigurðardóttir fyrir Fyrirgefningu.

Í Ég man þig er Þóra lögfræðingur, aðalpersóna fyrri glæpasagna Yrsu, fjarri góðu gamni. Þegar hún tók við verðlaununum sagði Yrsa það hafa verið holla tilbreytingu að skrifa bókina , en í henni vinnur hún með hrollvekjuna; bókmenntagrein sem hefur ekki verið áberandi á Íslandi til þessa. Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars að með bókinni sýni Yrsa „hversu gott vald hún hafi á aðalsmerki glæpasögunnar; vel ofinni fléttu og uppbyggingu spennu sem stigmagnast. Að auki sýnir Yrsa fram á að hún er fullfær um að leika sér með glæpasöguformið; nýta það á skapandi hátt en ekki sem formúlu.“

Sagan fjallar um þrjú ungmenni sem taka upp á því að gera upp gamalt hús um miðjan vetur í eyðiþorpi á Vestfjörðum, óvör um þá afdrifaríku atburðarás sem framkvæmdin hrindir af stað. Á sama tíma, hinum megin í firðinum, dregst ungur geðlæknir á flótta undan slæmum minningum inn í rannsókn á dularfullu sjálfsmorði eldri konu – sem virðist tengjast hvarfi sonar hans þremur árum fyrr. Saman fléttast þessir þræðir í frásögn sem sumir gagnrýnendur sögðu vera þá bestu sem Yrsa hefur sent frá sér til þessa.

Í næstu bók Yrsu snýr Þóra lögfræðingur aftur og er hún væntanleg næstu jól, en eftir velgengni Ég man þig mega lesendur engu að síður búast við annari hrollvekju frá henni. Bókin er væntanleg á þýsku í september undir titlinum Geistefjord og mun að auki koma út í Bandaríkjunum, Englandi, Portúgal og víðar á næstunni. Í ofanálag stendur til að kvikmynda söguna, en íslenski kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson festi kaup á kvikmyndaréttinum fyrr á þessu ári.

Ljósmynd: Borgarbókasafn Reykjavíkur


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir